<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 18, 2007

Algjör steik

Ég lagði í gær leið undir fót og heimsótti Cynthiu vinkonu mína. Út um strætógluggann á leiðinni sá ég í allt fjóra af nemendum mínum, sem sýnir hversu lítil Edinborg er í rauninni. Cynthia var svo góð að reiða fram þriggja rétta hádegismáltíð handa mér. Byrjað var á hráu fiskmeti, svo voru akurhænur með kastaníum og koníaki og í eftirrétt var einhvers konar rjómablanda. Eftir matinn fórum við á matinee í Traverse leikhúsinu, sáum dulítið leikrit með frægum leikurum. Matinee er frábær hugmynd, ég ætti að gera þetta oftar. Við vorum sem sagt algjörar ladies of leisure, við vinkonurnar.

Í strætó á leiðinni heim tók þó verra við. Ég fékk óstjórnanlegt hóstakast, svona sem kitlar endalaust og er engin leið að stöðva. Nógu vandræðalegt er nú að sitja og engjast með tárin í augunum á almannafæri, en ofan á það virðist ég hafa brotið árans rifbeinið enn frekar því ég fann smella í því og fylgdi því gífurlegur sársauki. Þrátt fyrir sársaukann var engin leið að hætta að hósta fyrr en sjálfvirka taugakerfinu þóknaðist. Nú er ég því enn meiri aumingi en áður.

Ég læt þessa uppákomu þó ekki þröngva upp á mig neinum neikvæðum hugsunum, því eins og lesendur vita (og hafa sumir lýst yfir efasemdum sínum um þetta framtak mitt) ákvað ég að leggja neikvæðum hugsunum yfir páskaföstuna. Brotna rifbeinið, hitasóttin, hóstaköstin og allt sem veikindum mínum hefur fylgt hef ég farið með sem tómt gamanmál enda hefur ekki legið lífið við. Í ákveðnum aðstæðum hefur þó legið við því að fastan yrði brotin, en það er 1: undir stýri þegar einhver annar hegðar sér eins og fífl í umferðinni, 2: þegar MSc nemarnir sem hafa hertekið skrifstofuna mína taka stólinn minn og slökkva ljósið sem ég er að nota. Í tilfelli númer 1 er oftast um að ræða einhvers konar upphrópanir sem ég læt út úr mér án þess að hugsa mikið um það-ergó: engar neikvæðar hugsanir! Í tilfelli númer 2 fæ ég það auðvitað ekki af mér að hrópa neitt en hef yfirleitt tekið stól einhverrar þeirra í staðinn án þess að eyða orku í að hugsa um það-ergó: engar neikvæðar hugsanir!

Sem sagt, fastan heldur enn.

|