<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 25, 2006

Síðasta rapport í bili

Hér í borg er artífartí kögurliðið ekki fyrr farið af vettvangi en háskólanemarnir streyma hingað í stríðum straumum alls staðar að úr heiminum. Ég sat á laugardaginn í strætó fullum af þýskum, ítölskum, kínverskum og breskum nemum sem allir voru að koma úr IKEA og sátu með fangið fullt af Svajs, Skubb, Lyckeby og auðvitað hinu bráðnauðsynlega StartKit. Þeir hafa kannski ekki gert sér grein fyrir því að það er árleg hópferð stúdenta í IKEA þar sem heilu rúturnar eru leigðar undir liðið.

En ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að stúdentar séu fyrir mér næstu tvær vikurnar því nú ætla ég að skella mér til Kína!

Lifið heil

|

mánudagur, september 18, 2006

Mánudagur, once again

Ég fór í bíó í gærkvöldi og sá nýju drottningarmyndina. Mér fannst drottningin töffari og hélt með henni. Ég hélt hins vegar ekki með Cherie Blair eða spunakellingunni Alistair Campbell. Hélt líka með Kalla prins af því mér finnst hann töff. Samt er ég enginn konungdæmissinni. Mér er eiginlega nokk sama. Þó held ég minna með bresku ríkisstjórninni um þessar mundir en nokkurn tímann kóngafólkinu.

Annars tók ég eftir því að margir bíógesta gengu ekki óstuddir, ég sá allar útgáfur göngustafa og hækja, bæði venjulegar norrænar hækjur og engilsaxneskar teiknimyndahækjur sem maður setur undir handarkrikana. Það eru fáránleg tól.

Svo langar mig bara að benda á það hvað það er hjákátlegt að sjá fínar frúr með kjölturakka í bandi og kúk í poka. Fatta þær ekki hvað þetta er kjánalegt? Versace, Vuitton og Balenciaga gera sér ekki grein fyrir hversu stór markaður væri fyrir poop pouches.

|

fimmtudagur, september 14, 2006

Sögur af kvikindum

Ég sá leðurblöku í fyrsta skipti í síðustu viku. Hún flögraði um í myrkrinu milli trjánna í Botanics. Ég hélt fyrst að þetta væri mjög ringlaður fugl en einhver lókall leiddi mig í allan sannleikann. Varð ofsa spennt því leðurblökur eru svo dulúðleg dýr, en ef satt skal segja sá ég hana aldrei almennilega.

Já, á haustkvöldum í Edinborg birtast alls konar kvikindi inni í mínum híbýlum. Einna verstar eru köngulærnar stóru, svokallaðar House Spiders en ég hef lesið mér til um þær og það eru víst karlarnir sem æða um í leit að kellum um þessar mundir. Eitt kvöld sat ég á gólfinu og prjónaði og horfði á sjónvarpið. Heyrði ég einhvern smell frá gólfinu við háaloftsdyrnar og sá útundan mér dökkan blett koma í átt að mér. Þetta var auðvitað ólukkans risakönguló sem æddi á ógnarhraða beint að mér. Ég greip það sem hendi var næst; risaferðabók um Kína og skellti á hana. Jaaaaahgra, ég hrylli mig enn bara við tilhugsunina. Var með svolítið samviskubit yfir þessu grimmdarlega drápi því ég ber í raun mikla virðingu fyrir köngulóm. Mér finnst bara að þær eigi að vera úti en ekki inni, hvað þá æða á 30km/klst í áttina að opnum buxnaskálmum mínum.

Önnur óþolandi kvikindi eru hrossaflugurnar sem eru kallaðar leggjalangir pabbar hérna. Þær koma saman í tugatali á kvöldin og aulast einhvern veginn um loftið-það er varla hægt að segja að þær fljúgi. Þar sem ég ligg og les kvöldlesturinn undir sæng heyri ég þær skella á veggjum, súð og lofti í aulaskap. Það er svo sem allt í þessu fína, en öðru hverju taka þær upp á því að þeysast ofurhratt í áttina að andlitinu á mér, bara sisona! Og meira að segja var ein komin undir sængina og aulaðist í kringum fótleggina á mér. Þá var mér nóg boðið, ég fór hér mikla drápsherferð, sem betur fer þurfa þær nú ekki nema eitt létt högg. Eftir mig lágu lappaflækjur á víð og dreif og ég gat sofnað róleg.

Nú myndi einhver segja "en af hverju lokarðu ekki bara gluggunum á kvöldin?". Það er af því að nú er hér óvenjulega heitt og rakt í lofti og ég bara verð að hafa þá opna. Þannig að nú ber svo við á hverju kvöldi að ég stend sjálfa mig að því að vera í hrókasamræðum við allar þessar hrossaflugur, reynandi að sannfæra þær um að snúa aftur til náttúrunnar áður en ég tek til við drápin.

|

mánudagur, september 11, 2006

Light my fire!

Á föstudaginn tók ég mig til og fór í smá bíltúr að leita að úrinu mínu sem ég hafði misst á bílastæðinu fyrir utan jógastöðina. Ég beið á rauðu ljósi á Bridges þegar á móti mér kom akandi ungur maður sem virtist vera í einhvers konar krampakasti, sítt liðað hárið sveiflaðist til og frá svo mér sýndist hann varla geta séð hvert hann var að fara. Fingurnir spenntust og slöknuðu á víxl á stýrinu og mér leist aldeilis ekki á blikuna. Eftir þetta ofursnögga mat á stöðunni áttaði ég mig þó á því að ökumaðurinn ungi spasmaði í takt við tónlistina sem ég var að hlusta á í útvarpinu. Já, sjúkdómur þessa unga manns var sko ekkert annað en ástin á rokki og réði hann sér því ekki fyrir kæti þegar orgelsólóið í "Light my fire" var annars vegar.

Þess má geta að úrið fannst heilt heilsu. Það og rokkarinn hressi gáfu mér tilefni til að brosa þann daginn!

|

fimmtudagur, september 07, 2006

Móðurmál?

Tjah, nú er ég víst búin að vera of lengi í útlöndum: Hvað er eiginlega einingabært námsmat?

|

miðvikudagur, september 06, 2006

Sjálfsmyndarkrísa

"Do you want to be more attractive to women?"....eh, NO, not necessarily. Þetta var titill tölvuskeytis sem mér barst í gær. Já, það hefur einhver óprúttinn sölumaður uppgötvað netfangið mitt og finnst nú að ég þurfi á því að halda að laða að mér fleiri konur, fá mér stærra typpi, fá meiri og varanlegri reisn og sand af seðlum. Það bara hlýtur að vera einhver karl með gráa fiðringinn sem er næstum með sama netfang og ég. Ef ekki hafa þessir auglýsendur ekki gert almennilega markaðsrannsókn áður en ég var gerð að skotmarki.

|

mánudagur, september 04, 2006

Ný vika

Ég var naughty, naughty, naughty í dag þegar ég hjólaði í skólann og sleppti hjálminum. Það er bara svo frábært veður, sól og hlýtt að ég hafði engan áhuga á að plampa honum á kollinn heldur langaði að finna vindinn í hárinu. Það var auðvitað unaður og vel áhættunnar virði.

Í gærkvöldi var annað veður uppi á teningnum og reyndar í alla nótt: hávaðarok og skítakuldi, haustið hefur hafið innreið sína. Ég fór í Botanics að horfa á hátíðarflugeldana, þriggja kortéra sýningu frá kastalanum við undirleik skosku kammersveitarinnar. Verkið þetta árið var Rómeó og Júlía Tchaikovskys en forleikurinn að því er auðvitað alveg stórfenglegur og flugeldarnir risu og hnigu í takt. Hins vegar er restin bara balletfaff og það var svolítið mikið af svona "ó, kastalinn er alelda!" sem var flott en ég vil bara helling af tívolíbombum, læti og ljós. Þau komu í lokakaflanum þar sem tívolíbomburnar kepptust við að lýsa upp himininn yfir kastalanum og þá var ég ánægð. Reykurinn sem lagði yfir Forth var massífur og var ekki síður áhugaverður að sjá en flugeldarnir sjálfir.

En nú ætla ég að halda heim að njóta veðursins í garðinum og tína plómur til að gera sultu. Þekkir einhver lesenda minna uppskrift af einhvers konar niðursuðu sem gera má á eplum? Það er svo ansi mikið af eplum í garðinum í ár, þarf að nota þetta!

Að lokum: pósthólf starfsmanna hér á QMRI eru merkt A-B, C-D og svo framvegis. Það er hins vegar heilt hólf fyrir MAC, MC. Gets me smiling every time!

Og já: Hvað er að gerast með Muse? Hef heyrt tvö lög af nýju plötunni, annað hljómar eins og Scissor Sisters, hitt eins og Keane.

|

sunnudagur, september 03, 2006

Nú skal lært

Skotar geta verið svo dæmalaust huggulegir. Ég fíla það í botn að vera kölluð "dear" af vígalegum öryggisverði á þrítugsaldri.

Og á þessum nótum held ég að ljúki í bili félagslegum afrekum mínum sem staðið hafa lungann úr sumrinu. Nú ríður á að setjast við skriftir eins og leiðbeinendur mínir ráðlögðu mér á fundinum á fimmtudaginn. Það liggur meira að segja við að ég sé bara í stuði fyrir það. Lærdómslystin virðist fylgja haustkomunni. Komdu fagnandi, ekki seinna vænna!

|

föstudagur, september 01, 2006

Svoddan Nalli

Oh, ég er svo kosmópólítan og internasjónal! Ég sýndi það í sms sendingum mínum á föstudagskvöld:

á íslensku til Frakka
á frönsku (heimatilbúinni) til Skota
á ensku til Dana
á dönsku til Íslendings

Og þá erum við komin hringinn!

Það er skemmst frá því að segja að aðeins helmingur viðtakenda skildi nokkuð í skilaboðunum.

|