<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 14, 2006

Sögur af kvikindum

Ég sá leðurblöku í fyrsta skipti í síðustu viku. Hún flögraði um í myrkrinu milli trjánna í Botanics. Ég hélt fyrst að þetta væri mjög ringlaður fugl en einhver lókall leiddi mig í allan sannleikann. Varð ofsa spennt því leðurblökur eru svo dulúðleg dýr, en ef satt skal segja sá ég hana aldrei almennilega.

Já, á haustkvöldum í Edinborg birtast alls konar kvikindi inni í mínum híbýlum. Einna verstar eru köngulærnar stóru, svokallaðar House Spiders en ég hef lesið mér til um þær og það eru víst karlarnir sem æða um í leit að kellum um þessar mundir. Eitt kvöld sat ég á gólfinu og prjónaði og horfði á sjónvarpið. Heyrði ég einhvern smell frá gólfinu við háaloftsdyrnar og sá útundan mér dökkan blett koma í átt að mér. Þetta var auðvitað ólukkans risakönguló sem æddi á ógnarhraða beint að mér. Ég greip það sem hendi var næst; risaferðabók um Kína og skellti á hana. Jaaaaahgra, ég hrylli mig enn bara við tilhugsunina. Var með svolítið samviskubit yfir þessu grimmdarlega drápi því ég ber í raun mikla virðingu fyrir köngulóm. Mér finnst bara að þær eigi að vera úti en ekki inni, hvað þá æða á 30km/klst í áttina að opnum buxnaskálmum mínum.

Önnur óþolandi kvikindi eru hrossaflugurnar sem eru kallaðar leggjalangir pabbar hérna. Þær koma saman í tugatali á kvöldin og aulast einhvern veginn um loftið-það er varla hægt að segja að þær fljúgi. Þar sem ég ligg og les kvöldlesturinn undir sæng heyri ég þær skella á veggjum, súð og lofti í aulaskap. Það er svo sem allt í þessu fína, en öðru hverju taka þær upp á því að þeysast ofurhratt í áttina að andlitinu á mér, bara sisona! Og meira að segja var ein komin undir sængina og aulaðist í kringum fótleggina á mér. Þá var mér nóg boðið, ég fór hér mikla drápsherferð, sem betur fer þurfa þær nú ekki nema eitt létt högg. Eftir mig lágu lappaflækjur á víð og dreif og ég gat sofnað róleg.

Nú myndi einhver segja "en af hverju lokarðu ekki bara gluggunum á kvöldin?". Það er af því að nú er hér óvenjulega heitt og rakt í lofti og ég bara verð að hafa þá opna. Þannig að nú ber svo við á hverju kvöldi að ég stend sjálfa mig að því að vera í hrókasamræðum við allar þessar hrossaflugur, reynandi að sannfæra þær um að snúa aftur til náttúrunnar áður en ég tek til við drápin.

|