<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Ég er að hugsa...

....um að gera gjörning á skrifstofunni sem ég þríf á kvöldin. Útbúa dagblaðaforsíður með fyrirsögnum sem eiga við um samband mitt við sóðana sem þar vinna. Eitt skal yfir alla ganga en sumir eru frekar venjulegir (vil nú ekki segja snyrtilegir) og fara bara ekkert í taugarnar á mér svo ég á erfitt með að finna fyrirsögn við hæfi fyrir þá. Svo eru líka aðrir sem myndu kannski taka því verr en aðrir, til dæmis maðurinn sem er þunglyndur með ofsóknaræði.

Þær fyrirsagnir sem mér líst best á eru:

"Office cleaner dies of horrible disease contracted from tissue paper in wastebasket" á skrifborðið hjá þessum með ruslafötu fulla af horklósettpappír sem ég þarf alltaf að tína upp.

"Office cleaner found near death after weekend stuck to Britain's stickiest wastebasket" á skrifborðið hjá þeim með tyggjóklessur og ávaxtasafaslettur upp um alla ruslafötu.

"Office cleaner drowns in yoghurt oozing from wastebasket" hjá konunni sem hendir hálfkláruðum jógúrtdollum í ruslakörfuna svo ég makast öll út í vibbanum við að tæma hana.

"Office cleaner hits head on desk, dies, after slipping on pistachio shells on floor" hjá stelpunni sem étur pistasíur eins og hross og hendir utanafinu ekki í ruslið heldur lætur það flæða um öll gólf.

"Office cleaner breaks spine after lifting lazy person's heavy wastebasket" hjá bévítans símadömunni sem fyllir ruslafötuna af þungum bæklingum og múrsteinum (sure feels like it!) og er svo löt að hún getur ekki labbað tíu skref til að henda þessu í tunnuna.

Ef einhverjir hafa hugmyndir að fyrirsögn fyrir ofsóknaróða manninn sem ekki koma af stað kasti hjá honum, látið mig vita. Svo er líka ein sem fer svo rosalega úr hárum að stóllinn hennar líkist snjómanninum ógurlega. Og svo ein sem sullar alltaf kaffi niður eftir skrifborðinu sínu. Fólk er fífl.

Annars er ég nú í góðu skapi, svona ef þið efuðust um það!

|

mánudagur, júlí 25, 2005

Óþægilegt

Úff, þátturinn "Í vikulokin" á laugardaginn var neyðarlegur. Tveir þingkarlar óðu yfir þriðja (og gáfulegasta) viðmælandann eins og fávitar. Annar þeirra er málhaltur, hann sagði orðið "múslimanir".

Talandi um múslima, á BBC4 var rætt um sjálfsmorðsárásir og háskólalektor nokkur sagði ítrekað "islamically speaking". Hvað er það?

|
Your passion for glory

Það var alveg frábær sjón sem mætti mér í sólinni og hitanum á South Clark Street á laugardaginn: Eftir gangstéttinni kom arkandi ungur maður sem var greinilega ánægður með sjálfan sig. Hann var ber að ofan og státaði af strjálloðinni og næpuhvítri fuglsbringu en annars var hann í rústrauðum útvíðum flauelsbuxum með stóra beltissylgju. Svo var hann með axlasítt þunnt hár sem sveiflaðist í hverju skrefi og þriggjadaga skegg við, minnti svolítið á persónu Luke Wilsons í Royal Tennenbaums. Það besta við þessa sjón var hins vegar að einmitt á sama tíma (og í takt við skref unga mannsins) hljómaði byrjunin á Eye of the Tiger í botni í bílnum hjá mér. Reddaði deginum.

|
Nú verða læti

Jæja, nú bíð ég bara eftir úlfaþytnum sem verður vegna drykkjuleiðbeininganna í Fréttablaðinu í dag. Einhverjir verða eflaust mjög súrir yfir því að það sé mælt með afrétturum og kappdrykkju um verslunarmannahelgina.

|

sunnudagur, júlí 24, 2005

Barndómsganga

Um daginn keypti ég mér af rælni jógúrtdrykk í fernu sem átti að bragðast af mangó og ferskjum. Strax við fyrsta sopann leið mér eins og ég væri á Kató og pissubíllinn silaðist fram hjá (pissubíllinn, pissubíllinn!) og ég rólaði mér hærra og hærra í stígvélum og hveitipokakjól. Rankaði við mér við hávaðann í sogrörinu er ég saug í mig dreggjarnar.....þetta var eplajógi!!!! Mangó og ferskjur, pifffff!

|

föstudagur, júlí 22, 2005

Tvífarar

Sá þennan sæta hvolp um daginn...


...og hann minnti mig á:

|
...Örn Helga litla dýravin. Það var nú vel við hæfi!

|

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Þúst...bara...æ...EFFEMM!

Klæðaburðarviðtal við "dagskrár"stjóra Effemm og Popptíví: "Ég nota gallabuxur níutíu prósent af tímanum...", og:"Ég er mikið í Diesel-gallabuxum því þær hafa verið að passa vel upp á síðkastið". "Gubb, gubb, grett, grett"

Annað hvort hefur blaðamaður Fréttablaðsins góða kímnigáfu og leyfir "dagskrár"stjóranum að njóta sín eða hann hefur ekkert vit á íslensku máli. Fyrri tilvitnunin er bara beinþýdd enska og seinni tilvitnunin....tjah....bæði málfarið og inntakið fer fyrir ofan garð og neðan.

Ég er svo spennt fyrir fyrsta fundi Málfarsfasistanna sem haldinn verður á Fróni í haust....jííííí!

|

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Fimm er víst stór tala!

Hahaha, af forsíðu DV: "Vændislistinn í heild sinni. Nöfn og símanúmer 5 vændiskvenna í Reykjavík".

|

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Unglamb?

Þegar ég var nítján var ég alltaf með maskara og augnblýant á mér í skólanum til þess að geta bætt á mig í tímum. Sat þá með beyglaðan munninn og málaði augun á mér svartari og svartari eftir því sem dagurinn leið. Juuuuminn eini. Svo var ég í glansandi spandexbuxum og mórauðri lopapeysu við. Á ég ekki að taka þennan stíl upp aftur? Ég sakna hans. Vissi ekki að ég væri orðin svona göööömul!

|

föstudagur, júlí 15, 2005

S.a.f, what's your number?

Það hlaut að koma að því....lenti í skaphundinum S.a.f, sem er dýralæknir á spítalanum, annáluð fyrir stanslausa fýlu endalaust, enda kölluð "Skepnan" og "Svarthöfði" af hinum dýralæknunum. Þetta er hin álitlegasta stúlka með hunangsgyllta húð, svört augu og hár. Verst að hún brosir aldrei. ALDREI. Hún ekur um á SAAB blæjubíl og stundar niðurlægingu á nemendum af miklu kappi.

Hef hingað til getað forðast Skepnuna en lenti í henni í vikunni þar sem hún dúkkaði upp og krafðist þess að nota básinn sem ég var að nota fyrir verkefnið mitt. Hún fékk fimm mínútur og þegar því var lokið reyndi ég að tala við hana og láta hana vita hvenær ég myndi nota básinn daginn eftir til að fyrirbyggja svona uppákomur. Hún virti mig ekki viðlits og hreytti svo út úr sér að hún þyrfti ekkert að nota básinn daginn eftir. Nújæja...ég var því mætt með mínar merar klukkan átta daginn eftir og fékk frið þar til hálftíu er hún birtist með hross í eftirdragi. Ég sagðist hafa haldið að hún þyrfti ekki að nota básinn en þá svaraði hún með samanbitnar tennur "Ég gat ekki klárað í gær!". Ég stóð fast á mínu og sagði að því miður yrði ég bara að halda áfram í básnum og hún þurfti því að fara í herbergið við hliðina á með sitt hross. Hún var sko ekki par ánægð með það en ég ljómaði að innan yfir þessum litla sigri mínum.

Hún er án efa dónalegasta og tíkarlegasta manneskja sem ég veit um.

|
Reginmisskilningur

Í gær sá ég miðaldra konu í sjálfskreppu (e. identity crisis). Hún arkaði í eigin heimi og gerði æfingar-kreppti og teygði aftur fyrir sig til skiptis sinabera handleggina í gríð og erg. Hún var með sítt, gervilega rautt hár sem tekið var upp í hátt tagl eins og á smástelpu og svo var hún í bleikum hjólabuxum og bleikum hlýrabol. Undir þessu virtist hún vera í brúnum leðurkrumpugalla sem reyndist þó vera húðin á henni, orðin eins og nautshúð af óhóflegum sólböðum. Til að kóróna verkið skoppuðu framan á henni við hvert skref fullkomlega kúlulaga og stinn brjóst sem hún hefur líklega sett ellilífeyrinn í að kaupa.

Af hverju.....af hveeeerjuuuuu?!

|

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Athafnaupptalning

Puuuha, þá er ég úr helju heimt. Kærasti fyrst og merar svo hafa átt hug minn allan síðustu tvær vikur. Eftir öll þessi mótmæli síðustu viku spókuðum við okkur í sólinni í St. Andrews eins og áður hefur verið kunngjört og svo var bara kominn tími fyrir litla strákaling að halda heim til Íslands að hitta Litla Rauð son sinn. Honum lá nú ekki meira á en svo að hann lét eftir sér að bíða heila sjö tíma eftir að fara í loftið og lifði í vellystingum á 5 punda sárabótainneign á kaffihúsi Glasgowflugvallar (þ.e.a.s í það kortér sem hún náði að halda honum söddum).

Nú, á meðan var ég í tuttuguogeitthvaðmikið stiga hita og glaðasólskini í garðinum mínum að sinna baunagrösum og kúrbítsplöntum. Náði mér í fína brúnku og var dösuð og sæl eftir daginn.

Og daginn eftir byrjaði svo þessi heljarvika sem hefur farið í stanslausar sýnatökur úr fimm merum. Það var aldeilis að tilraunin komst í gang! Ég er búin að vera í fullum dýralæknaherklæðum og stáltárstígvélum í tæpra þrjátíu stiga hita allan liðlangan daginn, hlaupandi fram og aftur í stresskasti eins og mér einni er lagið enda eru aumir vöðvar aldeilis farnir að segja til sín. Í gærkvöldi fór ég svo í bíó með góðum vinum, sáum War of the Worlds og hún var aðeins of æsingsleg fyrir mig. Ég hálflá í sætinu allan tímann með fingur í eyrum og rifuð augu. Ég ætti kannski að lesa ævisögu HG Wells sem ég er með í pössun...

...en myndin hafði sem sagt þau áhrif að ég var sannfærð um í svefnmókinu í morgun að það væru einhverjir þrífætlingar á ferð hér í Edinborg og ég var að reyna að skipuleggja hvernig ég kæmist leiðar minnar þar sem þeir væru búnir að hertaka veg A902.

Talandi um þrífætlinga: Ég sá um daginn strák sem var alveg eins og Bean Pole, uppáhaldssöguhetja okkar systkina í Þrífætlingunum sem sýndir voru á RÚV á sínum tíma. Það yljaði mér um hjartarætur.

|

mánudagur, júlí 11, 2005

Bara stutt....var að setja inn myndir frá síðustu tveimur vikum, þar á meðal G8 mótmælagangan í Edinborg og St. Andrews ferð. Get bara ekki skrifað meira í bili. Þar til næst, tschüss.

|

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Anarchy Update

Vá, það þarf sko ekki mikið til að maður sé bara allt í einu orðinn þrusu róttæklingur....Guðmundur lokaður í Princes St Gardens með hinum saklausu túristunum og svo látinn romsa upp úr sér öllum helstu persónuupplýsingum, þar á meðal fæðingarstað (Westmanna-what?) auk þess sem ég er nú þegar á skrá Edinborgarlöggunnar fyrir að hindra för Filippusar drottningarmanns síðastliðinn föstudag (sagan fylgir þegar ég nenni). Við erum sem sagt orðin ansi nálægt því að geta kallast anarkistahöfuðpaurar. Ætli ég neyðist ekki til að rölta heim og föndra molotovkokteila. Sjáumst síðar.

|

mánudagur, júlí 04, 2005

Ólgutímar

Helgarfríið mitt hefur farið í mótmælagöngur og kröfufundi. Ætla mætti að ég væri búin að kúvenda og gerast stjórnleysingi, mótmælandi af lífi og sál. Það er þó ekki svo brjálæðislegt, heldur var mótmælagangan hér í Edinborg á laugardaginn fjölskylduviðburður þar sem afar og ömmur, smábörn og unglingar voru öll voða stillt og glöð og mynduðu hvítan hring um miðborgina. Þátttakendur voru 250.000, fleiri en á Live 8 í London.

Hvers vegna þurfti sir Bob að taka alla athyglina? Af hverju máttu stjörnurnar sem komu fram ekki segja eitt orð um g8 og George Bush-var g8 ekki ástæða tónleikanna? Af hverju getur sir Paul ekki gefið einn hundraðasta af auði sínum frekar en að syngja Sgt. Pepper's? Af hverju voru fréttamennirnir uppteknari af upphandleggsvöðvunum á Madonnu en af fátæku börnunum í Afríku? Hvers vegna var ekki sagt eitt orð um þessar aðgerðir í Edinborg í fréttum Ríkissjónvarpsins? Hvers vegna þykir fréttamanni Sjónvarps meira koma til skoðana franska fjármálaráðherrans á live 8 tónleikunum en mótmælanna í Edinborg?

Já, á mér brenna margar spurningar og við skulum ekki gleyma að mótmælin í Edinborg voru skipulögð löngu áður en sir Bob ákvað að blása til þessara tónleika.

|