<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 27, 2004

La Derriére

Sá Renault Mégane auglýsinguna í víðskjáarsjónvarpi um helgina.  Þar er sýnt aftan á þennan bossabíl og vá hvað hann var breiður.  Mig langar til að sjá aftanáskot af Kate Moss í víðskjáarsjónvarpi-það myndi gera veröldina fegurri.

|

mánudagur, júlí 26, 2004

Summer in the city

Tók mér göngufrí í dag.  Ekkert er meira hressandi en að dóla sér í bænum og skoða skrýtið fólk.  Kyrkingslegur maður í leðurbólerójakka setur bros á mitt andlit, hvað þá feitur kall með vönd af páfuglsfjöðrum sem hleypur eftir strætó.

Ástæðan fyrir skrópinu var að ég fékk mig fullsadda af hryssum um helgina.  Var á rosalegri vakt þrjá daga í röð og ég segi mínar farir ekki sléttar.  Nú ætla ég ekki að rekja alla hrakfarasöguna hér, enda er ég nú þegar búin að kvelja tvo af mínum nánustu með smáatriðunum.  Við skulum bara segja að við sögu hafi komið tugir lítra af fljótandi köfnunarefni, 4 millilítrar af hrossasæði og vélsög.

|

föstudagur, júlí 23, 2004

Urrrr!  Mbl.is er svo mikið rusl-nota þeir ekki prófarkalesara eða hvað?  Ég er alltaf að sjá villur hjá þeim og hef oft íhugað að senda þeim tölvupóst og benda þeim á þær en hætti alltaf við því ég er alltaf svolítið hrædd um að ég sé kannski fanatísk.  Hver skrifar grein um "kvenfíl" og kallar dýrið svo alltaf "hann"?  Það heitir fílskýr og það er "hún"!  Úfff....ég held ég sendi þeim skeyti, svei mér þá!

|
Seks om dagen

Af minni einstöku nákvæmni hef ég þann sið við mandarínuát að deila þeim í tvennt, telja bátana og borða þá svo.  Það getur verið alveg ofsalega svekkjandi þegar bátarnir í fyrri helmingnum eru rosa margir og maður heldur að þarna geti metið fallið, en svo eru bara þrír feitir bátar í seinni helmingnum og í heildina eru þeir bara 11-bömmer!

Ég á mér uppáhalds asnalegt orð.  Það er norska orðið pulk.  Í gær fann ég mér næstuppáhalds asnalegt orð.  Það er ítalska orðið bambino (Questa piú?).  Sá það í myndinni "Io non ho paura" (ég er ekki hræddur) og fannst það bara alveg óstjórnlega kjánalegt orð.  Gott ef ég skellti ekki bara uppúr.  Svona er ég nú einföld.

|

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Feldaldin og önnur loðdýr

Meðal þess sem ég heillaðist hvað mest af í útlandaferðum á æskuárunum voru dýrin, og þar voru klessurnar á hraðbrautunum ekki undanskildar.  Mér fannst alveg ógurlega spennandi að fylgjast með vegkantinum og reyna að sjá eitthvað form út úr feld-og-kjöthrúgunum sem þar lágu.  Þetta var svo fjölbreytt maður, alls konar dýr sem ekki eru til á Íslandi.  Ég hef ekki misst þessa áráttu mína og hef jafnvel hlotið ávítur áhyggjufullra foreldra þegar ég hef bent aðverðafimmára börnum þeirra á þetta skemmtilega útsýni.  Í morgun þurfti ég ekki mikið að giska-það var rauðleit feldlufsa á miðjum veginum og uppúr henni stóðu tvö spíss rebbaeyru.  Stórskemmtilegt!

Það má við þetta bæta að ég framdi mitt fyrsta "roadkill" árið 2000 í svartaþoku á Laugavatnsvegi-það var stelkur.  Það fékk mjög á mig.  Í fyrra massaði ég svo fugl í kengúrugrindina í Austur Landeyjum.  Svo ég er ekkert kríminal, er það?

Nú, þessi skrýtilegheit voru í boði CO.  Lifið heil.

|

mánudagur, júlí 19, 2004

 
Heróínnámumenn
 
Sá í gær heimildamynd um börn námamanna í Norður-Englandi.  Eftir námamannaverkfallið 1984 (sem einmitt voru gerð svolítil skil í Billy Elliot) hafa námubæirnir og þeirra íbúar ekki borið sitt barr.  Námum hefur verið lokað og allt þetta fólk sem hefur unnið í kolanámunum kynslóðum saman virðist ekki getað fundið sér annað að gera.  Foreldrarnir sitja atvinnulausir heima og unga fólkið er í heróíni af því að það hefur ekkert annað að gera.  Það voru þarna þrír bræður, sá elsti fæddur 1975, og þeir voru bara allir að sprauta sig af því að það var það eina sem var hægt að hafa fyrir stafni.  Svo var þrítugt par sem átti þrjú börn og hafði verið í heróíni en var nú að reyna að ná sér upp úr ruglinu, bæði tannlaus og hrukkótt fyrir aldur fram.
 
Hvernig er hægt að hneppa heilu bæjarsamfélögin í svona eymdarviðjar?  Fólk ætti með réttu að geta þróast með þjóðfélaginu og fundið sér eitthvað annað að gera.  Það eru ekki endalausar uppsprettur af kolum hvort sem er, og fyrr eða síðar hefði fólk þurft að finna sér aðra vinnu.  Ég er hrædd um að breska stéttaskiptingin standi fólki fyrir þrifum-ef þú fæddist inn í námumannafjölskyldu muntu verða í þeirri stétt að eilífu og allir þínir afkomendur.  Þó gæti verið örlítill séns fyrir þig ef þú ert góður í fótbolta.
 
**************
 
Dyggur lesandi og einlægur aðdáandi benti mér á að nú færi að líða að tvöþúsundustu heimsókninni á síðuna.  Vildi hann meina að þetta kallaði á verðlaunaleik og skyldu verðlaunin vera franskur koss.  Þar sem að sá hinn sami hefur eflaust afrekað flestar af þessum tvöþúsund heimsóknum, hvort sem hann verður númer 2000 eða ekki, hef ég ákveðið að hann hljóti verðlaunin skömmu eftir að ég feta íslenska grund við heimkomu mína í ágúst.  How do you like them apples?

|

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Nasir dauðans

Ég sá viðtal við Dionne Warwick á VH1 á sunnudaginn var og blöskraði stærðin á nösunum á henni. HC Andersen myndi örugglega segja að þær væru á stærð við undirskálar. Hún hlýtur að hafa mokað upp í þær kóki kerlingartuskan. Með þessu áframhaldi fer hún að geta troðið sívaliturni upp í hvora nös.

|

mánudagur, júlí 12, 2004

Mjólk er góð
Keypti mér varalit um daginn...enn ein tilraunin til að verða varagella. Það er hipp og kúl að vera með feitar rauðar varir. Nema ég keypti auðvitað svona lit sem er alveg eins og varirnar á mér á litinn, eiginlega bara ósýnilegur...úúúú, the nerve! Prufukeyrði hann strax og fór með hann á skrifstofuna og í búðina og svona. Svo þegar ég kom heim sá ég að ég var með mjólkurskegg. Tilraunin í vaskinn sama dag og hún hefst-ég verð aldrei varagella. Sikke en bonderøv.

Kvöldlesning mín nú um stundir eru sögur af Jeeves og Wooster. Í einni sögunni notar Jeeves orðatiltækið "rem acu intigisti" sem þýðir "þar hittirðu naglann á höfuðið". Nú, daginn eftir að ég las þetta var ég að horfa á þáttinn hans Stephen Fry (Jeeves) sem heitir QI og er ljómandi skemmtilegur enda Fry algjör grínbolti. Haldiði ekki að hann hafi látið orðin "rem acu intigisti" falla í þættinum? Þetta kallar maður nú eitthvað annað og meira en tilviljun...ætli í þessu séu falin leynd skilaboð til mín? Prófum afturábak: itsigitni uca mer....eða: it sigit niu camer. Þetta gæti þýtt "það segir níu hólf/herbergi/myndavélar". Úff, skerí stöff maður.

|

föstudagur, júlí 09, 2004

Hundrað ára fríkaði hann út

Ég bara verð að skrifa aðeins um herra Hegginbothom. Hann er elsti sakborningur...tjah, í heiminum held ég bara...sem hefur verið dæmdur fyrir manndráp. 100 ára gamall kallinn, réði konunni sinni bana því hann var svo frústreraður á því að það væri alltaf verið að flytja hana frá einu elliheimili til annars. Hún var á elliheimili en hann gekk langar leiðir á hverjum degi til að heimsækja hana. Hann var sem sagt dæmdur fyrir manndráp en fer ekki í fangelsi heldur þarf að vinna einhverja þegnskylduvinnu. Dómarinn kallaði verknaðinn "act of love" og hafði mikla samúð með kauða. En nú kemur það sem mér fannst merkilegast: Hann kæfði hana ekki með púða...neinei, hann skar hana á háls! Ojojoj, að geta það, ljóti kallinn! Annars var ég ekki eins hissa þegar ég komst að því að hann er fyrrverandi slátrari.

Og svo aðeins komment á aumingja Bowie. Hann sem hélt að hann væri með klemmda taug í vinstri öxl reyndist vera með kransæðastíflu. Fór í akút hjartaþræðingu í Þýskalandi og neyddist til að aflýsa að ég held 11 tónleikum. Hann var víst mjög svekktur yfir því og viðhafði orðaflaum mikinn sem ekki þótti ráðlegt að sjónvarpa í morgunsjónvarpinu. Svo var fólk að bölva honum greyinu fyrir að spila ekki á Roskilde. Pffft!

|