mánudagur, júlí 19, 2004
Heróínnámumenn
Sá í gær heimildamynd um börn námamanna í Norður-Englandi. Eftir námamannaverkfallið 1984 (sem einmitt voru gerð svolítil skil í Billy Elliot) hafa námubæirnir og þeirra íbúar ekki borið sitt barr. Námum hefur verið lokað og allt þetta fólk sem hefur unnið í kolanámunum kynslóðum saman virðist ekki getað fundið sér annað að gera. Foreldrarnir sitja atvinnulausir heima og unga fólkið er í heróíni af því að það hefur ekkert annað að gera. Það voru þarna þrír bræður, sá elsti fæddur 1975, og þeir voru bara allir að sprauta sig af því að það var það eina sem var hægt að hafa fyrir stafni. Svo var þrítugt par sem átti þrjú börn og hafði verið í heróíni en var nú að reyna að ná sér upp úr ruglinu, bæði tannlaus og hrukkótt fyrir aldur fram.
Hvernig er hægt að hneppa heilu bæjarsamfélögin í svona eymdarviðjar? Fólk ætti með réttu að geta þróast með þjóðfélaginu og fundið sér eitthvað annað að gera. Það eru ekki endalausar uppsprettur af kolum hvort sem er, og fyrr eða síðar hefði fólk þurft að finna sér aðra vinnu. Ég er hrædd um að breska stéttaskiptingin standi fólki fyrir þrifum-ef þú fæddist inn í námumannafjölskyldu muntu verða í þeirri stétt að eilífu og allir þínir afkomendur. Þó gæti verið örlítill séns fyrir þig ef þú ert góður í fótbolta.
**************
Dyggur lesandi og einlægur aðdáandi benti mér á að nú færi að líða að tvöþúsundustu heimsókninni á síðuna. Vildi hann meina að þetta kallaði á verðlaunaleik og skyldu verðlaunin vera franskur koss. Þar sem að sá hinn sami hefur eflaust afrekað flestar af þessum tvöþúsund heimsóknum, hvort sem hann verður númer 2000 eða ekki, hef ég ákveðið að hann hljóti verðlaunin skömmu eftir að ég feta íslenska grund við heimkomu mína í ágúst. How do you like them apples?
|