<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 21, 2007

Búin, hætt, farin

Sjáumst í raunheimum!

|

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Allnighter #2

Góðan daginn lömbin mín, nú er klukkan 7.28 að morgni og ég hef ekkert farið í bólið. Lenti í því í gær að Elaine krafðist þess að sjá hjá mér niðurstaðnakaflana og ég neyddist því (sem var bara gott) til þess að pússa þá til og setja inn myndir og svona. Nú er svo komið að ég er alveg að verða búin með þá alla og ætti að geta skilað þeim inn á borð til hennar nú í morgunsárið.
Ég lenti annars í því í fyrrinótt að glaðvakna klukkan hálffjögur og finnast ég endilega þurfa að fara að skrifa eitthvað. Sat uppi við dogg í rúminu með fartölvuna og skrifaði þessi lifandis ósköp
í um klukkustund, eða þar til mér var orðið óglatt af þreytu. Verst er að ég hef ekki hugmynd um hvað ég var að skrifa og hef enn ekki fundið það í tölvunni. Kannski bætti ég inn bölvaðri þvælu í innganginn sem ég finn ekki fyrr en líður að vörninni...hver veit? En þetta bendir nú alla vega til þess að ég hafi verið hálfgert í draumalandi við þessa iðju!

Jæja, Elaine bíður
Tschüss!

|

laugardagur, júlí 14, 2007

Fluorescent Adolescent - Arctic Monkeys @ Jonathan Ross 

Yeehaaw!


|

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Used to get it in your fishnets...

Ég fæ alveg titring í danstaugarnar yfir trommumennskunni á Fluorescent Adolescent. Yeeehaaaw!

|

mánudagur, júlí 09, 2007

Spud

Þar sem við kommúnan vorum að setjast við matarborðið í gærkvöldi birtist Spud úr Trainspotting í eldhúsinu hjá okkur. Já, Ewen Bremner kom í heimsókn si svona (hann er kærasti Niki, vinkonu Sigrúnar) með dóttur sína Harmony og miklu yngri hálfsystur. Og andstætt hugmyndum mínum um Irvine Welsh, þá hafði ég ekki gert mér grein fyrir því hvað Ewen er lágvaxinn. Það hjálpaði kannski ekki að hann var í allt of stórum buxum!

|

föstudagur, júlí 06, 2007

Í fyrrinótt...

...tók ég fyrsta allnighter ævi minnar. Þannig var mál með vexti að ég var búin að gera samning við Elaine um að lesa fyrir mig innganginn ef ég gæti komið honum tilbúnum til hennar á fimmtudaginn. Ég sat uppi í skóla frá níu til ellefu um kvöldið og átti þá enn svolítið eftir en ákvað þó að fara að koma mér heim þá. Var ég þá búin að nærast á jelly babies og vínberjum frá því um kvöldmatarleytið og því orðin ansi wobbly og með hungurverki. Þegar heim kom át ég pastaafgang og með því svolítinn rauðvínsdreitil, haskaði mér svo upp á herbergi og hélt áfram að vinna. Ég kláraði þetta um fjögurleytið og fór þá að sofa við fuglasöng og sólarupprás. Verst var að ég þurfti að vakna klukkan átta til þess að senda Elaine þetta í tölvupósti niðri á skrifstofu (er ekki með nettengingu á herberginu mínu) og gat svo ekki sofnað aftur.

Dröslaði mér svo á fund með Simoni klukkan ellefu, svo héldum við niður í bæ að borða hádegismat á Jaques með lab-liðinu. Þegar ég loks komst heim með strætó var ég alveg að leka niður, en þá þurfti ég að fara að kaupa í matinn því það var komið að mér að elda.

Stóð við eldamennsku í þrjá tíma og svo lak ég bara einfaldlega niður um tíuleytið en þá gat ég líka farið að sofa!

Sem sagt, inngangur er til yfirlestrar, nú er komið að því að pússa til niðurstöðurnar sem eru mikið til að verða komnar. Jibbí.

Bless í bili
C

|

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Smá píp

Hóhó, held ég ætti að láta aðeins vita af mér þó svo að sprengjulæknarnir hafi ekki náð að teygja anga sína til Edinborgar. Ég er í rosalega góðum fíling að pússa innganginn, sem er orðinn 56 síður og fer vaxandi (gúlp!). Er ein eftir uppi í skóla og er að hlusta á argasta rokk sem gefur takt og tón í ritsmíðina. Nú er ég loksins komin í almennilega stemmningu, sem felst í því að ég get setið kyrr allan guðslangan daginn, skrifað og flett í heimildum. Fyrir utan þegar ég stend upp til að kveikja á hraðsuðukatlinum og brugga rótsterkt neskaffi. Já, það er sko skárra en ekkert.

Svo fer ég heim og vinn í tölvunni uppi í rúmi fram á nótt, glaðvakna um átta morguninn eftir og svo göngum við Mollie einn hring-ég hleyp ekki þegar hún er með mér því hún er aldeilis farin að láta á sjá, orðin ansi hægfara. Svo er hún alltaf hrasandi um klærnar á sjálfri sér sem eru og hafa alltaf verið allt of langar. Hún hatar bara að láta klippa þær, það er mín afsökun. Í morgun tók hún reyndar upp á því að hlaupa út á götu því ólin gaf sig og hún var allt í einu frjáls frá taumskrattanum. Sem betur fór var ekki bíll, enda er hún bæði of blind og of heyrnarlaus til þess að vara sig á þeim!

Og talandi um Mollie, þá verð ég nú að segja frá því að hún fór til miðils um daginn. Reyndar kom miðillinn til hennar óumbeðinn, því um er að ræða Carol, konuna sem þrífur hjá Limmu. Hún er alveg ferlega "urtet" eins og það myndi kallast á dönsku, sem sagt mikið fyrir kristalla, engla og árur. Samhliða því að stunda heimilisþrif býður hún upp á reikiheilun og lestur engla- og tarotspila. Ég veit ekki hvað hún hefur mikið að gera í því, en hún tók sem sagt upp á því að lesa hugsanir Molliear ("djö...er ég þreytt maður, djö...er mér illt í mjöðmunum" o.s.frv.) og sagðist hafa skilist að hún saknaði leikfangs sem hún hafði átt sem hvolpur. Mollie lýsti leikfanginu nákvæmlega, það var rautt með doppum í ýmsum litum. Daginn eftir birtist Carol með leikfang svipað því sem Mollie hafði lýst.

Það þarf ekki að taka fram að Mollie fyrirlítur þetta leikfang, og getur ekki hugsað sér að vera í námunda við það. Ef maður lætur það í körfuna hjá henni setur hún upp megnan móðgunarsvip og skreiðist upp úr körfunni til þess að leggjast annars staðar! Góði miðillinn!

og að lokum er hér tengill á skemmtilegan frjósemisleik (nei, ekki þannig!) sem má dunda sér við ef maður er búinn að leysa Spider með fjórum sortum allt of oft ;) Ekki það að ég sé ekki búin að rústa þessum líka.

Já, svo verð ég að minnast á að ég fór að sjá Irvine Welsh lesa upp úr nýjustu bókinni sinni, það var rosa fjör. Hann er annars miklu hávaxnari en ég hélt...

|

sunnudagur, júlí 01, 2007

Tilsammans

Ég er flutt inn í kommúnu. Bý nú í stóru húsi með þremur pörum á ýmsum aldri, og von er á tveimur nýjum, ein kemur í kvöld og önnur eftir rúma viku. Verst að það eru stelpur, svo ekki get ég náð mér í eitt stykki hippakærasta. Ég er búin að pakka niður öllu dótinu mínu í tæplega 30 (!) kassa því kommúnan deilir öllu saman og best að eiga engar ónauðsynlegar eigur. Við eldum saman og borðum við stórt borð, öll 7 (öll 9 eftir næstu viku) og ræðum um heima og geima. Og rúsínan í pylsuendanum er að ég þarf ekki að borga leigu! Jibbí!

|

föstudagur, júní 29, 2007

Textabrot dauðans

Jæja elskurnar, eruð þið ekki öll full af tærri tryggð og tárlaust yfirskyggð af ást? Nei, segi bara svona...

|

miðvikudagur, júní 27, 2007

Afrek dagsins

Úff, gærkvöldið endaði á því að ég borðaði lasagna niðri með stórfjölskyldunni auk Guinnes-liðsins. Það var því ekki skrifað það kvöldið, en skriftir höfðu gengið gífurlega vel yfir daginn svo það var í lagi. Þar sem ég var svona búin eftir daginn eins og fyrri færsla ber vitni um náði ég ekki að halda mér vakandi yfir bók vikunnar á miðnætti og vaknaði því upp með andfælum við ólukkans Sailing By. Meiri ólukkan sem þessi árans músík er!

Vaknaði með endemum ringluð í morgun, þó ekki með blóðtauma niður hökuna eins og í gærmorgun (don't ask) og er að reyna að halda mér við efnið. Það gengur brösulega eins og sjá má.

|

þriðjudagur, júní 26, 2007

Þreyta...aaaaahhh!

Komst heim áðan við illan leik, alveg að leka niður úr þreytu og hefði getað sofnað við stýrið á gatnamótunum við Captain's road ef ekki hefði verið lakkrískonfektið sem hélt blóðsykrinum uppi. Var þá ekki Guinnesfjölskyldan með útskriftarveislu hér fyrir dóttur sína og ég sem bar af mér allar bænir um að koma niður sökum þreytu og almennra tuskulegheita fékk bara kampavínsglas upp á skör sem ég gat tekið með mér í langt heitt bað og eftir það varð ég nú að sýna af mér kæti! Lenti á spjalli um hrossarækt og merarleg (hann spurði, ég reyndi að halda þessu leyndu, það er ekki eins og ég beri þetta á borð fyrir hvern mann, sérstaklega núna þegar ég er búin að fá upp í háls!) og þótti ég bara sleppa ágætlega frá því. Svo kom einher hoity toity yfirstéttarkona og fór að tala um Íslendinga á snobbaðan hátt og segja brandara sem ég skildi ekki, bæði fyrir talandann sem var óskiljanlegur og menningargjána sem á milli okkar var. Ég tók því ekki þátt í þessu stundinni lengur. Pah!

|
Hálfneikvæð, en samt jákvæð

Ég var ein heima með Mollie um helgina og gerði mitt besta til að klára innganginn. Sat niðri í eldhúsi og hlustaði á BBC 6 music sent frá Glastonbury, með kaffi í bolla og ruslaði mér gegnum hrúgur af vísindagreinum. Eina truflunin sem ég varð fyrir var stúlkukind sem kom til að kaupa af mér hjólið mitt. Ég var ekkert smá stolt yfir því að selja það, fékk fyrir það 60 pund sem er algjör fjársjóður fyrir fátækan námsmann.

En allt kom fyrir ekki, ég náði ekki að klára innganginn fyrir mánudagseftirmiðdag eins og ég hafði lofað Simoni og fékk því dagsfrest þar til núna. Viti menn, var að enda við að senda þetta til hans. Alls ekki klárað, en það er komin ansi góð mynd á þetta.

Gærdagurinn fór nefnilega í eitthvað rugl, ég var svo ómótiveruð að ég stikaði um gólf í algjöru ofvirknikasti og gat ekki sest niður og einbeitt mér að lífefnafræðinni í kringum matrix metalloproteinases, funnily enough. Ég einbeitti mér þess vegna að því að pakka niður í kassa og þrífa eldhúsið og svona. Ég virðist bara alls ekki vera sá öreigi sem ég ímyndaði mér, því ég á margar kassafyllir af jarðneskum eigum, og er ég þó búin að fleygja nokkuð miklu í nytjagám.

Og já, í dag er afmælisdagurinn mikli, en í dag eiga afmæli hvorki meira né minna en fimm manns sem ég þekki (til hamingju, þið vitið hver þið eruð!), auk tveggja frægukalla sem ég veit um. Svo ekki sé minnst á þá sem áttu afmæli í gær og fyrradag og svo líka á komandi dögum. Jahérnahér!

|

föstudagur, júní 22, 2007

Sailing By

Alltaf eftir fréttirnar á miðnætti á BBC Radio 4 er útvarpssagan endurtekin. Það er afskaplega huggulegt að sofna við lestur á BBC ensku og væri ég til í það á hverju kvöldi. Einn stór hængur er þar á, því eftir útvarpssöguna taka við shipping news, eða "veðrið á miðunum". Nú væri ekki síðra að sofna út frá "Faeroes, South-East Iceland. Variable becoming westerly 3 or 4, increasing 5 or 6 in west, veering northerly later. Slight or moderate. Showers. Good" en hins vegar er kynningarlag þessa dagskrárliðs viðurstyggðin "Sailing By". Ég fyllist skelfingu þegar lestri útvarpssögunnar lýkur og ég veit að nú á ég á hættu að gubba úr viðbjóði. Svefnhöfginni léttir samstundis og ég rýk fram úr til þess að slökkva áður en ég heyri þverflauturnar sem spila óríentalska tónstiga og eiga líklega að tákna merl hafsins og bylgjur sem hníga og rísa. Þegar þetta hefur staðið í nokkrar sekúndur taka svo við fiðlustrengir sem ómþýtt spila laglínuna sem er algjör lagleysa. Ég get ekki lýst þessu betur en þetta, en þetta lag er algjör hroði.

Jæja, verð að rjúka á fund.
Góða nótt.
C

|

miðvikudagur, júní 20, 2007

Hipp og kúl?

Íslendingar teljast í meira lagi nýjungagjarnir og duglegir að tileinka sér nýja tækni. Stundum eru þeir þó svo langt á eftir að þeir ná í skottið á sjálfum sér og verða hipp og kúl vegna þess að aðrar þjóðir byrja að snobba fyrir fortíðinni.

Eitt dæmi um það er saga sem Maja Maack sagði í líffræðitíma einhverju sinni er hún agiteraði fyrir endurnýtingu og -vinnslu. Þannig var að hún fékk heimsókn frá amerískum kollegum sem höfðu sömu framúrstefnulegu hugmyndir og hún sjálf varðandi náttúruvernd. Þeir voru yfir sig hrifnir að Íslendingar skyldu vera svona langt á undan öllum öðrum þjóðum að aðeins væri hægt að fá kók í gleri og flöskurnar væru þvegnar og endurnýttar! Nokkrum árum síðar héldu svo plast- og álumbúðirnar innreið sína.

Annað dæmi vakti athygli mína í vikunni en þar er um að ræða áfengislöggjöf og -reglugerðir Íslendinga. Ég sá nefnilega fréttaskýringaþátt á Channel 4 um slæm áhrif þess að áfengi skuli vera svo ódýrt og auðvelt að nálgast í Bretlandi. Afleiðingarnar eru meðal annars skorpulifur sem fleira og fleira fólk á þrítugsaldri á við að etja. Það hefur farið gífurlega vaxandi að það sem kallað er "young professionals" drekki vín á hverju kvöldi og það veldur sífelldu álagi á lifrina, þó á lágu stigi sé. Í þættinum var vegfarendum boðið að gangast undir greiningu á lifrarensímum í blóði og sónarskoðun á bandvefjarinnihaldi í lifur. Niðurstöðurnar voru skelfilegar, fólk sem ekki er orðið þrítugt og telur sig reglumanneskjur virðist hafa einkenni mikils álags á lifrina. Nú er spurning hvað annað getur valdið þessu, mataræði og fleira, en þetta getur ekki verið eðlilegt.

Niðurstaða þáttarins var sem sagt að helst skyldi hækka verð umtalsvert á öllu áfengi, auk þess að setja hömlur á sölustaði áfengis, sem sagt banna sölu á áfengi í matarbúðum, sem þykja bera sökina vegna gífurlega ódýrra tilboða á bjór og víni. Ég spyr því: eru Íslendingar á undan eða eftir?

|

föstudagur, júní 15, 2007

Drukkið sig í svefn

Í þessum skriftaham sem ég er nú á ég afskaaaplega erfitt með að sofna á kvöldin. Í gærkvöldi var ég búin að "lege grillkylling", þ.e. velta mér stanslaust, tímunum saman án þess að geta sofnað og brá því á það ráð þegar klukkan var að verða tvö að fara fram og ná mér í viskítár og fara með upp í rúm. Sat og sötraði Speyside og horfði á Green Wing undir sæng og var því orðin mátulega þreytt klukkan þrjú til þess að geta sofnað. Kannski ætti ég bara að nota mér af þessum aukatímum í sólarhringnum til þess að vinna vinnuna mína frekar en að sitja í eins manns kojufylleríi?

|