<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Smá píp

Hóhó, held ég ætti að láta aðeins vita af mér þó svo að sprengjulæknarnir hafi ekki náð að teygja anga sína til Edinborgar. Ég er í rosalega góðum fíling að pússa innganginn, sem er orðinn 56 síður og fer vaxandi (gúlp!). Er ein eftir uppi í skóla og er að hlusta á argasta rokk sem gefur takt og tón í ritsmíðina. Nú er ég loksins komin í almennilega stemmningu, sem felst í því að ég get setið kyrr allan guðslangan daginn, skrifað og flett í heimildum. Fyrir utan þegar ég stend upp til að kveikja á hraðsuðukatlinum og brugga rótsterkt neskaffi. Já, það er sko skárra en ekkert.

Svo fer ég heim og vinn í tölvunni uppi í rúmi fram á nótt, glaðvakna um átta morguninn eftir og svo göngum við Mollie einn hring-ég hleyp ekki þegar hún er með mér því hún er aldeilis farin að láta á sjá, orðin ansi hægfara. Svo er hún alltaf hrasandi um klærnar á sjálfri sér sem eru og hafa alltaf verið allt of langar. Hún hatar bara að láta klippa þær, það er mín afsökun. Í morgun tók hún reyndar upp á því að hlaupa út á götu því ólin gaf sig og hún var allt í einu frjáls frá taumskrattanum. Sem betur fór var ekki bíll, enda er hún bæði of blind og of heyrnarlaus til þess að vara sig á þeim!

Og talandi um Mollie, þá verð ég nú að segja frá því að hún fór til miðils um daginn. Reyndar kom miðillinn til hennar óumbeðinn, því um er að ræða Carol, konuna sem þrífur hjá Limmu. Hún er alveg ferlega "urtet" eins og það myndi kallast á dönsku, sem sagt mikið fyrir kristalla, engla og árur. Samhliða því að stunda heimilisþrif býður hún upp á reikiheilun og lestur engla- og tarotspila. Ég veit ekki hvað hún hefur mikið að gera í því, en hún tók sem sagt upp á því að lesa hugsanir Molliear ("djö...er ég þreytt maður, djö...er mér illt í mjöðmunum" o.s.frv.) og sagðist hafa skilist að hún saknaði leikfangs sem hún hafði átt sem hvolpur. Mollie lýsti leikfanginu nákvæmlega, það var rautt með doppum í ýmsum litum. Daginn eftir birtist Carol með leikfang svipað því sem Mollie hafði lýst.

Það þarf ekki að taka fram að Mollie fyrirlítur þetta leikfang, og getur ekki hugsað sér að vera í námunda við það. Ef maður lætur það í körfuna hjá henni setur hún upp megnan móðgunarsvip og skreiðist upp úr körfunni til þess að leggjast annars staðar! Góði miðillinn!

og að lokum er hér tengill á skemmtilegan frjósemisleik (nei, ekki þannig!) sem má dunda sér við ef maður er búinn að leysa Spider með fjórum sortum allt of oft ;) Ekki það að ég sé ekki búin að rústa þessum líka.

Já, svo verð ég að minnast á að ég fór að sjá Irvine Welsh lesa upp úr nýjustu bókinni sinni, það var rosa fjör. Hann er annars miklu hávaxnari en ég hélt...

|