<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, október 30, 2006

TutTutTut

Hvað er eiginlega með allar þessar nauðganir heima á Íslandi? Er fólk gengið af göflunum? Það verður víst ekki mikið um að ég bregði mér til Reykjavíkur á aðventunni með þessu áframhaldi.

Ég get víst ekki haft stór orð um siðferði því í morgun laug ég að trúboða. Já, blákalt og upp í opið geðið á veslings niðurrignda trúboðanum sem kom á dyrnar og vildi fá að skilja eftir bæklinginn "The End is Near for False Religions!" hvers forsíða var í dómsdagsstílnum með eldingum og allt. Ég sagði henni að ég ætti sko ekki heima hérna og hún skyldi því banka upp á á arkitektastofunni (ég veit sko að Limma myndi ekkert sakna þessa bæklings þannig að ég ætlaði ekki að taka við honum fyrir hennar hönd). En einhentur starfsfélagi trúboðans hafði þegar bankað upp á hjá arkitektunum og þegar hann ætlaði að gefa sig að mér var ég bara hvumpin og strunsaði burt. Enda þurfti ég að ná strætó!

Já, svo vil ég að lokum vekja athygli á www.framtidarlandid.is. Mín kæra Hekla benti mér á þetta en við erum einmitt mikið heitar í andanum hvað varðar þessi mál. Verst að hafa misst af ráðstefnunni í gær. Það var víst alveg troðfullt en ætli fólk komi aðallega til að sjá Maríu Ellingsen og Baltasar Kormák? Mér er spurn...

|

föstudagur, október 27, 2006

Að fundi loknum

Oooohhhh, jeg er såh tilfreds lige nu! Í morgun var leiðbeinendafundurinn ógurlegi þar sem rædd var mín fyrsta vísindagrein sem til verður í þessum heimi. Ég fékk hrós frá stálkvendinu frú Watson og svo ræddum við fram og til baka ýmis atriði. Ég var algjörlega afslöppuð og leið eins og jafnoka hinna í þessum umræðum. Gat ég því fengið ansi mikið út úr þessum fundi og var afskaplega ánægð með viðbrögðin við greininni minni.

Það var á dagskránni að fara í Sainsbury's á leiðinni heim og kaupa mér köku til að halda upp á þennan persónulega sigur en í staðinn fór ég í IKEA og keypti mér frábært lítið tré til að setja á kommóðuna mína sem getur borið allar mínar festar, hringa, armbönd og eyrnalokka á sínum vetrarberu greinum. Ég þurfti að setja þessi 3 pund á VISA því ég á ekki neitt lausafé þennan mánuðinn vegna þess að launagreiðslur hafa gengið eitthvað illa fyrir sig núna eftir að ég breyttist í "clinical tutor". En ég er nú samt búin að standast "disclosure Scotland" prófið sem felst í því að gefa upp heimilisföng og gælunöfn síðustu 10 ára til þess að hægt sé að bera mann saman við breska barnaníðingslistann. Fékk meldingu í vikunni þess efnis að ég væri alsaklaus....hjúkkett!

Já, nú á þessi vika vonandi eftir að líða hratt þar sem ég sit sveitt og skrifa í því rúsi sem leiðbeinendaviðbrögðin hafa valdið.

já, mig langar líka aðeins að segja Kínasögu: Það er ekki óalgengt að kínverjar taki upp ensk eiginnöfn, annað hvort af eigin hvötum eða af því að kennarinn þeirra skipaði þeim eitthvað vestrænt nafn. Einu sinni afgreiddi okkur ungur sláni í Starbucks á Nanjing Xinlu í miðbæ Sjanghæ. Á nafnspjaldi hans stóð skýrt og greinilega: EDISON.....

.....klassi.

|

þriðjudagur, október 24, 2006

Siggi frændi til þjónustu reiðubúinn

Rólegur á draumunum! Í nótt dreymdi mig að ég hefði verið á ferðalagi með Kristínu og Sigga og Helga og einhverjum strákum. Þegar kom að því að pakka niður og halda heim varð Siggi alveg gífurlega röskur og ýtti á eftir öllum að pakka í töskur, og ekkert droll! Tveir af strákunum voru einhvers staðar úti og ekkert búnir að pakka en ég hélt sko að ég hefði allan heimsins tíma fyrir mér. Endaði draumurinn auðvitað á því að ég var að reyna að renna töskunni sem var full af dúnsæng, en var ekki viss hvort ég hefði pakkað myndavélatöskunni og kápunni. Allir sem sagt tilbúnir að hlaupa út í bíl nema ég.

Allir þessir "seint í rassinn gripið" draumar mínir þýða nú barasta það að ég á leiðbeinendafund á föstudaginn þar sem ég á að skila fyrsta kaflanum og mér hefur reynst erfitt að setjast niður og klára hann. Nú er hins vegar svo komið að ég var að klára hann!! Ég býst því við tíðindalausri nótt. Siggi minn, takk fyrir hjálpina!

Í gærkvöldi (þegar ég hefði átt að vera að skrifa) horfði ég á "Eitt ár á sveitabænum", heimildaþátt um þrjá skoska bændur og fjölskyldur þeirra. Var þetta hin besta skemmtan og ekki skemmdi fyrir að nautgripabóndinn var alveg fjallmyndarlegur. Amman á mjólkurbúinu var hins vegar frekar ólagleg þar sem hún sat við eldhúsborðið með brjóstin (hvort um sig á stærð við höfuðið á henni) á naflanum. Það skrítna var að ég fylltist alveg gífurlegri heimþrá þó að þetta væru skoskir sveitabæir og skoskar kindur og skoskar kýr. Þar var að verki hinn lúmski bændahúmor sem ég hef nú haldið að væri séríslenskur, en sýnir sig að vera á valdi Skotanna líka. Svona líka dæmalaust huggulegt!

|

mánudagur, október 23, 2006

Helgardjamm

Ég heyrði frábæran einleik í strætó á föstudagskvöldið. Var verkið flutt af unglingsstrák sem sat keikur í öftustu röð og talaði í símann. Viðfangsefnin voru meðal annarra samband hans við lausláta kærustu og maríjúanareykingar ("Aye, it's shite, it's just like smoking a fag, man!"). Hér á eftir fer útdráttur úr verkinu:

Lad on Bus: "Aye, but after I met her Ex it's all she talks about......ah know but she's never done the dirty yet, ken?....ah'm giving her the benefit of the doubt....you ken, if the guy does it he is totally out in the cold but if a lassie does it you're supposed to forgive her, ken? It's all about having a hundred percent trust in another person, aye?...."

Þegar hér var komið sögu var ég því miður komin á áfangastað. Mig langaði mikið til þess að sitja og hlusta alla leið út í Wester Hailes en var búin að lofa mér annað.

Fór út úr strætó og hitti vísindaliðið á lókalnum okkar, Amicus Apple. Þar var margt um manninn og fínt að komast aðeins út en tónlistin var svo hávær að það var lítið hægt að tala. Gafst upp á því að æpa upp í eyrað á fólki og heyra svo ekki svar þeirra og fór heim um miðnætti.

Á sunnudaginn fór ég á kaffihús með Maju sem var stödd hér í borg að læra að skanna hrossalappir. Nærri ár síðan við hittumst síðast og mikið vatn runnið til sjávar.

Já, og svo dreymdi mig annan Freudískan draum í nótt sem fjallaði um flugferð sem endaði með nauðlendingu. Allir sluppu heilir á húfi og það fyrsta sem ég sá þegar ég komst út úr flugvélinni var vinalegur fjárhundur. Svo var farið með okkur farþegana inn í stórt hús þar sem gamall sérvitringur bjó með fjölda þjónustufólks. Er ekki annars Freudískt að dreyma að maður fljúgi?

|

fimmtudagur, október 19, 2006

Allt komið á fullt

Ég átti fund í gær með anatómíufólkinu sem ég ætla að kenna með á vorönn. Ég á víst að endurskoða fyrir þau kennsluefnið og laga það að þörfum stærri bekkjar en nokkurn tímann hefur þekkst í The Dick (gælunafn dýralæknaskólans fyrir þá sem ekki vita-hnyttnar athugasemdir meira en velkomnar). Fannst mér þetta heldur yfirþyrmandi miðað við það tímahrak sem ég lifi við. Kom þó fljótt í ljós að þau voru ekkert vel undirbúin sjálf og vissu ekki í rauninni hvað ætti að endurskoða. Þau voru brátt komin í hálfgert rifrildi yfir þessu, bláókunnugt fólkið fyrir framan mig. Þetta var svolítið óþægilegt og flýtti ég mér að segja að ég þyrfti bráðum að fara svo ég fengi ekki stöðumælasekt, tók bunkann og hljóp út. Ég hlakka ekki til næsta fundar.

Á leiðinni heim lenti ég á eftir algjörum Statham og hagaði mér við hann eins og Boyce (ef þið hafið ekki séð Green Wing munuð þið ekki skilja þetta). Bíllinn hans var Ka og honum hefur eflaust þótt ofurvænt um hann því hann fór alltaf yfir á rangan vegarhelming til að fara yfir hraðahindranirnar og tók um leið mikinn sveig. Ég ók nú bara beint og hélt mig á mínum helmingi. Eftir tvær hindranir sá ég að hann hristi hausinn á leikrænan hátt og reyndi að gefa mér einhvers konar merki í baksýnisspeglinum. Ég þóttist ekkert taka eftir neinu og ók í dágóða stund á eftir honum án þess að bregðast við einu einasta merki. Þegar við lentum á rauðu sá ég útundan mér að hann var eitthvað að reyna að komast í samband við mig og ég lék mér að því að horfa í allar áttir nema hans. Þetta var mjög skemmtilegt og þess má geta að ljósin hjá mér, dekk og önnur öryggistæki eru í fullkomnu lagi og hann var bara að þessu vegna þess að hann var smámunasamur sérvitringur.

Þegar ég kom heim fékk ég mér Lindt&Sprüngli súkkulaði og heillaðist alveg af Sprüngli nafninu. Hver veit nema ég taki vonbiðli með þetta nafn, bara til að geta heitað Charlotta Sprüngli. Svo væri Charlotta Serafinowicz ekki amalegt.

Jæja, back to the lab.

|

miðvikudagur, október 18, 2006

Shanghai myndir eru nú komnar á flickr síðuna mína!

|

þriðjudagur, október 17, 2006















Örn og ákafur aðdáandi í dýragarðinum

|
Angst

Í fyrrinótt dreymdi mig hreinan og beinan Freudískan draum. Það kemur ekki oft fyrir, satt að segja held ég að ég hafi verið 5-6 ára þegar það gerðist síðast (það var martröð í hverri ég hrapaði endalaust). Draumur þessi var af "kláraði ekki prófið því ég var að gera eitthvað annað kjánalegt" gerðinni. Ég var alveg niðurbrotin af því að ég var búin að vera á einhverju flakki og fattaði allt í einu að ég var búin að eyða svo miklum tíma í það að þetta skítlétta próf yrði ekki klárað. Svo vaknaði ég. Ekki með andfælum því þetta var svo klárlega það sem á eftir að gerast í janúar þegar ég á að skila þessari blessuðu ritgerð. Þetta væri svo einfalt ef ég bara vissi hvað ég ætti að skrifa!

Nú, ég er sem sagt snúin aftur frá Sjanghæ. Kannski ég pári nokkrar línur á komandi dögum um ferðina, kannski ekki. Sjáum til.

|

miðvikudagur, október 04, 2006

Nokkrar Kínaathugasemdir

Við erum búin að hendast víða um Sjanghæ á reið- og rafmagnshjólum og sjá ótrúleg lítil þorp innan um skýjakljúfana. Í gær át ég niðursneidda keppi og hásinar í sterkri sósu og einnig eitthvað úr svíni sem ég vil ekki vita hvað var. Um daginn buðust mér marineraðir endaþarmar sem ég þó afþakkaði sökum fordóma og hræðslu við hið óþekkta.

Hér eru börn látin ganga í kloflausum buxum og gera þarfir sínar í plastpoka á almannafæri, jafnvel þó almenningsklósett sé á næsta leiti.

Í tískubúðum er maður hundeltur og "ég er bara að skoða" er eins og að stökkva vatni á gæs. Maður skal máta, hvað sem tautar og raular.

Götusalar geta verið helst til aðgangsharðir og virkar náhvítt hörund okkar á þá eins og ljósapera á mölflugur.

Moskítókvikindin fíla mig í botn og hafa valdið mér svefnrofum sökum óendanlegs kláða. En mikið bévíti getur verið unaðslegt að klóra sér!

|