<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 24, 2006

Siggi frændi til þjónustu reiðubúinn

Rólegur á draumunum! Í nótt dreymdi mig að ég hefði verið á ferðalagi með Kristínu og Sigga og Helga og einhverjum strákum. Þegar kom að því að pakka niður og halda heim varð Siggi alveg gífurlega röskur og ýtti á eftir öllum að pakka í töskur, og ekkert droll! Tveir af strákunum voru einhvers staðar úti og ekkert búnir að pakka en ég hélt sko að ég hefði allan heimsins tíma fyrir mér. Endaði draumurinn auðvitað á því að ég var að reyna að renna töskunni sem var full af dúnsæng, en var ekki viss hvort ég hefði pakkað myndavélatöskunni og kápunni. Allir sem sagt tilbúnir að hlaupa út í bíl nema ég.

Allir þessir "seint í rassinn gripið" draumar mínir þýða nú barasta það að ég á leiðbeinendafund á föstudaginn þar sem ég á að skila fyrsta kaflanum og mér hefur reynst erfitt að setjast niður og klára hann. Nú er hins vegar svo komið að ég var að klára hann!! Ég býst því við tíðindalausri nótt. Siggi minn, takk fyrir hjálpina!

Í gærkvöldi (þegar ég hefði átt að vera að skrifa) horfði ég á "Eitt ár á sveitabænum", heimildaþátt um þrjá skoska bændur og fjölskyldur þeirra. Var þetta hin besta skemmtan og ekki skemmdi fyrir að nautgripabóndinn var alveg fjallmyndarlegur. Amman á mjólkurbúinu var hins vegar frekar ólagleg þar sem hún sat við eldhúsborðið með brjóstin (hvort um sig á stærð við höfuðið á henni) á naflanum. Það skrítna var að ég fylltist alveg gífurlegri heimþrá þó að þetta væru skoskir sveitabæir og skoskar kindur og skoskar kýr. Þar var að verki hinn lúmski bændahúmor sem ég hef nú haldið að væri séríslenskur, en sýnir sig að vera á valdi Skotanna líka. Svona líka dæmalaust huggulegt!

|