<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, október 23, 2006

Helgardjamm

Ég heyrði frábæran einleik í strætó á föstudagskvöldið. Var verkið flutt af unglingsstrák sem sat keikur í öftustu röð og talaði í símann. Viðfangsefnin voru meðal annarra samband hans við lausláta kærustu og maríjúanareykingar ("Aye, it's shite, it's just like smoking a fag, man!"). Hér á eftir fer útdráttur úr verkinu:

Lad on Bus: "Aye, but after I met her Ex it's all she talks about......ah know but she's never done the dirty yet, ken?....ah'm giving her the benefit of the doubt....you ken, if the guy does it he is totally out in the cold but if a lassie does it you're supposed to forgive her, ken? It's all about having a hundred percent trust in another person, aye?...."

Þegar hér var komið sögu var ég því miður komin á áfangastað. Mig langaði mikið til þess að sitja og hlusta alla leið út í Wester Hailes en var búin að lofa mér annað.

Fór út úr strætó og hitti vísindaliðið á lókalnum okkar, Amicus Apple. Þar var margt um manninn og fínt að komast aðeins út en tónlistin var svo hávær að það var lítið hægt að tala. Gafst upp á því að æpa upp í eyrað á fólki og heyra svo ekki svar þeirra og fór heim um miðnætti.

Á sunnudaginn fór ég á kaffihús með Maju sem var stödd hér í borg að læra að skanna hrossalappir. Nærri ár síðan við hittumst síðast og mikið vatn runnið til sjávar.

Já, og svo dreymdi mig annan Freudískan draum í nótt sem fjallaði um flugferð sem endaði með nauðlendingu. Allir sluppu heilir á húfi og það fyrsta sem ég sá þegar ég komst út úr flugvélinni var vinalegur fjárhundur. Svo var farið með okkur farþegana inn í stórt hús þar sem gamall sérvitringur bjó með fjölda þjónustufólks. Er ekki annars Freudískt að dreyma að maður fljúgi?

|