<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, október 31, 2005

Reyklausa liðið

Þessi sjónvarpsauglýsing er hreint meistaraverk. Af hverju er mannkynið ekki lengur svona
bláeygt og hamingjusamt?

|

föstudagur, október 28, 2005

Ástin á tímum gin- og klaufa-

Í gærkvöldi hittumst við nokkrar vinkonur yfir rauðvínsglasi á gæruteppi í lítilli Bruntsfield íbúð. Ein er dýralæknir og gift dýralækni. Hún var að segja okkur frá því hvernig þau kynntust og sagan byrjaði svona: "It was during foot and mouth....". Er það ekki rómantískt að kynnast í miðjum gin- og klaufaveikifaraldri, yfir brennandi hræjum sárfættra svína? Ég vildi að mín saga byrjaði á þessum orðum!

|

þriðjudagur, október 25, 2005

Weeping Scientist

Er mögulegt að það sé reimt í nýbyggðu húsi? Nú er Rose á öðrum grenjutúrnum sínum á tveimur vikum og er mér nú hætt að lítast á blikuna-þetta geeeetur ekki verið eðlilegt! Á meðan er ég afskipt á rannsóknastofunni og kallast á við bergmálið í sjálfri mér. Þetta er alveg hræðilega spúkí.

Þegar ég kynntist súdókú í vor þá fannst mér nú ekki líklegt að ég yrði heltekin af þessu. Komst jafnvel í gegnum sumarið án þess að þurfa að fá minn skammt. Ég hafði heyrt frásagnir fólks sem var flækt í súdókúvefinn og gat ekki hætt. Síðan ég kynnti Guðmund fyrir þessum leik hefur súdókúfíknin hins vegar hratt aukist-það er nefnilega komin spenna í þetta, hægt að fara í súdókúkeppni! Nú um mundir er ég að leysa samuraisúdókú sem er eins konar fimmþraut þar sem ein súdóka deilir einum 3x3 reit með hverri hinna fjögurra. Þegar heim er komið eftir skóladaginn sitjum við þegjandi hvort með sitt blaðið og hugsum.

Þetta er ekki eina keppnisíþróttin sem stunduð er á okkar heimili því að í gærkvöldi fórum við í sjálfsmyndakeppni. Tókum upp akrýllitina og máluðum mynd af sjálfum okkar hvort í sínu horni. Annað okkar tók þetta mun alvarlegar en hitt og byggði mynd sína á portrettum af hertogum og kóngafólki. Myndin sú er enn ekki búin en ætli þetta endi ekki í jafntefli. Hverjum þykir sinn fugl fagur og svona.

|

mánudagur, október 24, 2005

Ég vil ekki vachna!

Mig dreymdi svo skemmtilegan draum í morgunsárið. Þar kom við sögu Ungverjalandsferð, afsöguð haglabyssa, Helgi og Tóta, Diljá, Köben og tvö baðkör í svefnherberginu. Það þarf ekki að taka það fram að ég svaf yfir mig og mætti allt of seint til vinnu.

Annað í fréttum er að frá og með brautskráningu kandidata á laugardaginn er sagnfræðingstitill Guðmundar í höfn.
Og 21. október, haustjafndægur, ól hún Heidi vinkona mín stúlkubarn og ég er þar með orðin tante. Eða þannig.

Svo fórum við út á laugardagskvöldið og hittum bunka af Íslendingum, þar á meðal fyrrverandi rektorshjón á Hvanneyri sem fóru á kostum í ættfræðinni, glerlistakonu og smið frá Ísafirði og annað skemmtilegt fólk.

|

föstudagur, október 21, 2005

Happy New Year!!!

Uuuuunaður! Var í Sainsbury's áðan og fór auðvitað, eins og dyggum aðdáanda sæmir, í gyðingadeildina. Þar höfðu verið sett upp skilti með þessum orðum: "Sainsbury's wishes customers a Happy New Year 5766!". Ég féll í stafi af unaði og nautn og fékk enn á ný staðfest að gyðingadeildin er frááábær og ætti að vera ein slík í hverri verslun.

Las einhvers staðar að nýár gyðinga byrjar 12. október 2005. Af hverju 5766? Ef einhver veit, viljið þið segja mér?

Takk,
Charlotta

|

fimmtudagur, október 20, 2005

Viðskipti dagsins

Gúlp! Var að enda við að gera heljar viðskipti á netinu. Í fyrsta lagi keypti ég mér flugfar til Borgundarhólms (hvern langar ekki til Borgundarhólms?) í nóvember og svo keypti ég mér utanáliggjandi harðan disk að sífelldri og kappsamri áeggjan bróður míns. Og af því að hann gerði mig afskaplega hamingjusama nú í vikunni þá geri ég þetta bara fyrir hann.

Ég lenti nefnilega í því að missa allar stafrænu ljósmyndirnar mínar í ginið á heimskri Macintosh tölvu (hún varð fyrir vikið ógeðslega mikil óvinkona mín og ég hreyti ónotum í hana við hvert tækifæri) af því ég var svo mikill auli að geyma þær allar á geisladiski og hvergi annars staðar. Brá ég á það örþrifaráð að spyrja Magnús hvort hann gæti bjargað mér, sendi honum diskinn og fékk svo þær gleðifréttir að honum hefði sko bara tekist að bjarga myndunum. Nú ætla ég svo framvegis að geyma þær á þessum utanáliggjandi harða diski og hver veit nema ég geymi doktorsritgerðarefnið mitt þar líka...hmmmm...góð hugmynd eða hvað??

Af doktorsritgerðinni er annars það að frétta að ég massaði fundinn í gær, skilaði kaflanum og bíð eftir athugasemdum við hann. Þaggaði niður í leiðbeinandanum með kaldhæðnum athugsemdum, svo nú veit hún hvar Davíð keypti ölið. Úr rannsóknastofunni er það að frétta að aftur brotnaði samstarfskona mín saman og grét-sko ekki sama og síðast. Ég veit ekki hvað er eiginlega að mér-ekki fundið fyrir minnstu þörf til að grenja enn sem komið er.

Ef ég ætti að velja mér nýtt starf myndi ég vilja starfa við að búa til leirkallana í leirkallateiknimyndum-breyta um svip á þeim þrisvar sinnum á sekúndu. Ekki svona eins og leirkallarnir tveir frá Tékklandi (eða hvaðan þeir nú voru) heldur eins og í Wallace and Gromit sem ég sá í gær í kvikmyndahúsi. Í nærmyndunum mátti greina fingraför brúðugerðarkallanna, sjarmerandi!

|

þriðjudagur, október 18, 2005

Ekkert að gerast

Maður sér stundum handa- og fótafyrirsætur og jafnvel eyrna- og augna- en ég uppgötvaði í gær ömurlegasta fyrirsætugigg í heimi: Hnakkamódel í IKEA bæklingnum. Þar sjást (undurfríðar?) stúlkur liggja makindalega á dúnmjúkum koddum. Verst að myndirnar eru af hnakkanum á þeim og þær eru ekki einu sinni í fókus.

Annars er það að frétta að ég dunda mér við að búa til munstur í pípettukassana á rannsóknastofunni, farin að hjóla í skólann (svimi svimi svitabað) og á að skila fyrsta kaflanum í doktorsritgerðinni á morgun. Kvíði því ekki hið minnsta-á ég að hafa áhyggjur af því?

|

föstudagur, október 07, 2005

Hell on earth

Ég er byrjuð á rannsóknavinnunni aftur-júhú! Er flutt í nýja rannsóknastofu í glænýrri byggingu og hún er í algjörri kaos. Þetta er eins og að vera staddur í Nýju Orléans, fólk gengur um ruplandi og rænandi, rannsóknahópar haga sér eins og glæpagengi og maður er hvergi óhultur. Það hverfa hjá manni latexhanskar, glerflöskur og ætandi efni og enginn kannast neitt við neitt.

Þetta ástand náði sko hámarki í gær er hin indæla Rose sem bar hitann og þungann af starfseminni á gömlu rannsóknastofunni brotnaði niður og grét vegna illrar meðferðar glæpagengjanna á sér. Henni er aldrei sagt neitt og allir eru hættir að leita til hennar. Þetta var vægast sagt óþægilegt og ég hypjaði mig bara heim til þess að þurfa ekki að verða vitni að gangaslag.

Svo er líka ómögulegt að vinna neitt af viti á postgrad skrifstofunni því það er talað svo mikið þar. Þar hefur aðstöðu aragrúi íturvaxinna pils- og háhælaklæddra kvenkyns unglækna og þær eru svo miklar kjaftatífur að það er að gera mig gráhærða(ri). Nú hafa samræðurnar eingöngu snúist um brúðkaup einnar þeirra sem er á morgun og það hvernig staðið skuli að hattasendingum með DHL sunnan úr Englandi og brúðkaupskökubakstri sem þær taka að sjálfsögðu allar þátt í. Hver og ein bakar 5-6 ofnskúffur af kökubotni og um þennan bakstur hafa þær rætt endalaust eins og allir á skrifstofunni bíði spenntir eftir að heyra það nýjasta í baksturssögunni. Nú í gær var einn bakarastúlkan ekki mætt því hún hafði lent í vinnuslysi við baksturinn kvöldið áður þar sem gufa úr espressóvél gaus upp í andlitið á henni. Hvað gerir maður ekki fyrir vinkonur sínar?! Hún var víst einstaklega heppin að vinkona hennar sem er læknir á bráðamóttökunni var hjá henni og bjargaði því sem bjargað varð (sko af andlitinu, ekki kökunni).

Það sem ég óttast mest er að ég hafi kannski afhjúpað þarna hæfileika mína til að kalla bölvað ólán yfir fólk sem fer í taugarnar á mér.....nóg var ég búin að bölva blessaðri stúlkunni daginn áður.

|

þriðjudagur, október 04, 2005

Jæja lesendur góðir, velkomnir að skjánum!

Nú er ég enn á ný stödd í Edinborg og hefjast þá skrifin á ný.

Lenti um hádegi á föstudaginn-afmælisdaginn minn (takk fyrir afmælisóskirnar Inga, var bara ekki búin að sjá þær fyrr en nú-og til hamingju sjálf! Ég er algjör lúði, ég veit) og var strax hrifin á braut í rómantíska helgarferð af mínum umhyggjusama ástmegi.

Leiðin lá til Oxford og var keyrt af stað síðdegis og ekið fram í myrkur. Þá var farið að huga að næturstað og eftir mikla leit í hinu huggulega þorpi Warrington fannst að lokum eitt einasta hótel sem hafði einmitt eitt laust herbergi fyrir okkur. Var það staðsett efst undir súð, afskaplega huggulegt. Við lögðumst fljótlega til hvílu undir bráðskemmtilegum tónum Jerry Lee Lewis eftirhermu sem skemmti þakklátum gestum (þar á meðal okkur) frá hótelbarnum. Rúmið reyndist skemmtilega gormkennt og veitti nudd alla nóttina svo verkjaði í alla vöðva morguninn eftir. Um miðja nótt kynntumst við svo nágrönnum okkar í næstu herbergjum, voru þeir með eindæmum hressir og fóru ekki í grafgötur með það. Þeir virtust ýmist tala Norðurensku eða Finnsku og grunar mig að um tvo aðskilda hópa hafi verið að ræða.

Dagurinn var tekinn snemma (með hjálp Finnanna) og lagt í næsta áfanga ferðarinnar. Við náðum til Oxford í tæka tíð til að heyra Mark Lynas átrúnaðargoð GHG flytja þrumuræðu á græningjafundi og svo var tekið eitt stykki viðtal við hann (tilgangur ferðarinnar) og þá vorum við frjáls okkar ferða. Gengum aðeins um Oxford, kíktum í nokkrar skemmtilegar búðir og fengum okkur að borða. Ókum svo til Blenheim Palace, þar sem Winston Churchill fæddist og er gríðarstór höll sem er í eigu lávarðsins af Marlborough. Allt of stór fyrir eina fjölskyldu og öll herbergin eins þó þau eigi að heita annað hvort í enskum eða frönskum barokkstíl. Risastórt safn bóka sem eru örugglega aldrei lesnar osfrv. Svo ákváðum við að toppa fyrri nótt og gista í jafnvel huggulegri bæ: Stratford upon Avon (þar sem Shakespeare fæddist) og það var alveg ágætlega heppnað, nema þar var ekkert gormanudd, næturskemmtan eða samskipti við hina gestina. Nújæja, maður fær ekki alltaf allt.

Stoppuðum svo á sunnudaginn í Windemere í Lake District og fengum okkur hádegismat, einstaklega huggulegt og svo var Gardeners' Question Time einmitt útvarpað þaðan þann daginn svo það gat ekki verið betra.

En svo var líka bara gott að komast heim.

PS: Ku: ég get sko alveg nefnt þessar 500 skepnur, ætla bara að stofna sér blogg fyrir það síðar.

|