<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 25, 2005

Weeping Scientist

Er mögulegt að það sé reimt í nýbyggðu húsi? Nú er Rose á öðrum grenjutúrnum sínum á tveimur vikum og er mér nú hætt að lítast á blikuna-þetta geeeetur ekki verið eðlilegt! Á meðan er ég afskipt á rannsóknastofunni og kallast á við bergmálið í sjálfri mér. Þetta er alveg hræðilega spúkí.

Þegar ég kynntist súdókú í vor þá fannst mér nú ekki líklegt að ég yrði heltekin af þessu. Komst jafnvel í gegnum sumarið án þess að þurfa að fá minn skammt. Ég hafði heyrt frásagnir fólks sem var flækt í súdókúvefinn og gat ekki hætt. Síðan ég kynnti Guðmund fyrir þessum leik hefur súdókúfíknin hins vegar hratt aukist-það er nefnilega komin spenna í þetta, hægt að fara í súdókúkeppni! Nú um mundir er ég að leysa samuraisúdókú sem er eins konar fimmþraut þar sem ein súdóka deilir einum 3x3 reit með hverri hinna fjögurra. Þegar heim er komið eftir skóladaginn sitjum við þegjandi hvort með sitt blaðið og hugsum.

Þetta er ekki eina keppnisíþróttin sem stunduð er á okkar heimili því að í gærkvöldi fórum við í sjálfsmyndakeppni. Tókum upp akrýllitina og máluðum mynd af sjálfum okkar hvort í sínu horni. Annað okkar tók þetta mun alvarlegar en hitt og byggði mynd sína á portrettum af hertogum og kóngafólki. Myndin sú er enn ekki búin en ætli þetta endi ekki í jafntefli. Hverjum þykir sinn fugl fagur og svona.

|