<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 07, 2005

Hell on earth

Ég er byrjuð á rannsóknavinnunni aftur-júhú! Er flutt í nýja rannsóknastofu í glænýrri byggingu og hún er í algjörri kaos. Þetta er eins og að vera staddur í Nýju Orléans, fólk gengur um ruplandi og rænandi, rannsóknahópar haga sér eins og glæpagengi og maður er hvergi óhultur. Það hverfa hjá manni latexhanskar, glerflöskur og ætandi efni og enginn kannast neitt við neitt.

Þetta ástand náði sko hámarki í gær er hin indæla Rose sem bar hitann og þungann af starfseminni á gömlu rannsóknastofunni brotnaði niður og grét vegna illrar meðferðar glæpagengjanna á sér. Henni er aldrei sagt neitt og allir eru hættir að leita til hennar. Þetta var vægast sagt óþægilegt og ég hypjaði mig bara heim til þess að þurfa ekki að verða vitni að gangaslag.

Svo er líka ómögulegt að vinna neitt af viti á postgrad skrifstofunni því það er talað svo mikið þar. Þar hefur aðstöðu aragrúi íturvaxinna pils- og háhælaklæddra kvenkyns unglækna og þær eru svo miklar kjaftatífur að það er að gera mig gráhærða(ri). Nú hafa samræðurnar eingöngu snúist um brúðkaup einnar þeirra sem er á morgun og það hvernig staðið skuli að hattasendingum með DHL sunnan úr Englandi og brúðkaupskökubakstri sem þær taka að sjálfsögðu allar þátt í. Hver og ein bakar 5-6 ofnskúffur af kökubotni og um þennan bakstur hafa þær rætt endalaust eins og allir á skrifstofunni bíði spenntir eftir að heyra það nýjasta í baksturssögunni. Nú í gær var einn bakarastúlkan ekki mætt því hún hafði lent í vinnuslysi við baksturinn kvöldið áður þar sem gufa úr espressóvél gaus upp í andlitið á henni. Hvað gerir maður ekki fyrir vinkonur sínar?! Hún var víst einstaklega heppin að vinkona hennar sem er læknir á bráðamóttökunni var hjá henni og bjargaði því sem bjargað varð (sko af andlitinu, ekki kökunni).

Það sem ég óttast mest er að ég hafi kannski afhjúpað þarna hæfileika mína til að kalla bölvað ólán yfir fólk sem fer í taugarnar á mér.....nóg var ég búin að bölva blessaðri stúlkunni daginn áður.

|