<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Tímgunarvandi

Las í mogganum að öryrkjum hefur fjölgað (ástarvikan á Bolungavík hefur kannski haft góð áhrif) og þá á að ráðast gegn rót "vandans". Hva, loksins þegar stofninn nær sér á strik þá er það ekki nógu gott! Það var nú sagt frá því um daginn að þorskárgangar síðustu þriggja ára eru drullulélegir og er þá ekki gott að aðrir stofnar eru á uppleið svona til að leysa þorskinn af í nokkur ár?

Fólk er aldrei ánægt!

|

mánudagur, apríl 25, 2005

Ný vika

Nú er lokið minni fyrstu fundaröð með alþjóðlegri staðlanefnd stoðtækjaframleiðenda....eða sko ég var ekkert á fundunum, fór bara út að borða með henni. Hekla var svo örlát og indæl að bjóða mér með tvö kvöld. Þar kynntist ég montnum alvitrum Svía sem sló um sig með setningum eins og: "Life is a sexually transmitted condition with a 100% mortality rate" án þess að það ætti við. Svo besserwissaði hann alveg rosalega á Danmörku þó hann vissi greinilega ekki mikið um það dægilega land. Ég þagði bara þunnu hljóði en blammeraði hann öðru hverju með því að kalla hann gamlan og gera grín að sögunum sem hann sagði. Svo var þarna ágæt Suður Afrísk kona sem hafði kynnst manninum sínum á blindu stefnumóti fyrir 30 árum og sagði okkur aðeins frá því. Svo voru indversku hjónin sem búa í Dundee líka indæl-það kom þó ekki í ljós fyrr en undir lokin að konan er læknir en hætt að vinna-hún var búin að sitja og þegja og brosa kurteislega allan tímann svona eins og hún hefði ekkert til málanna að leggja svo við vorum búnar að ákveða að hún væri ómenntuð húsmóðir. Hún var alla vega greinilega ekkert númer þarna. Ameríkaninn Bob var líka áhugaverður. Hann var eins og feit rauðbirkin útgáfa af Christopher Reeve og eins og hálsinn á honum hefði bráðnað saman við herðarnar. Var hann mjög hávær en skemmtilegur.

Annars er það héðan að frétta að North Bridge var lokuð í tvo sólarhringa um helgina meðan reynt var að tala ungan mann ofan af því að stökkva í gegnum glerþakið á Waverley station. Sat hann í hundrað metra hæð yfir þakinu á einhverri steinsyllu frá því klukkan átta á laugardagsmorgun þar til klukkan sex í morgun þegar hann náðist heill ofan af syllunni. Það sem fólki dettur í hug.

|

föstudagur, apríl 22, 2005

Félagsmálatröllið ég

Ég er orðinn stoltur eigandi stafrænnar myndavélar-loksins! Gat ekki beðið að prófa hana og nýta mér allar stillingarnar og svona. Myndasyrpan hefur hins vegar ótvírænt sýnt hvað ég lifi spennandi lífi hér í borg og hvað ég er nú félagslynd hérna-það eru eintómar plöntumyndir á kortinu! Ég fékk hálfgert áfall þegar ég skoðaði alla syrpuna í einum rykk og hét því að fara nú að taka myndir af dýrum og jafnvel fólki....fór því með Heklu í Royal Botanics og tók þar myndir af...jú, fleiri plöntum...en líka af íkornum. Þeir eru eins og litlir menn þegar þeir sitja upp á endann og gefa manni sakleysislegt (en ekki saklaust!) auga.

Hekla er hér á fundasyrpu og er voða dugleg að vakna snemma. Það er mjög hollt fyrir mig því ég er í eðli mínu morgunhani en hef eitthvað villst af leið á seinustu mánuðum. Ég vaknaði til dæmis stundarfjórðung í sjö í morgun en það var vegna þess að ég hafði hálfgerðan vara á mér alla nóttina eins og móðir sem hefur áhyggjur af barninu sínu. Barnið mitt var súrdeig sem var að lyfta sér í nótt og fékk til þess rúman tíma svo ég var hrædd um að það væri komið út um allt. Vaknaði því eldsnemma til að bjarga því og stinga í ofn. Þetta varð til þess að við fengum nýbakað heitt brauð í morgunmat.

Skyldi ég bera varanlegan andlegan skaða af því að minn helsti félagsskapur hér úti er súrdeig og gróður? Ég tala meira að segja stundum við súrdeigið....algjör krypplingur!

|

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Enn af strætó

Tók strætó niður í rannsóknastofu í dag og alla leiðina leið mér eins og ég hefði grafist undir fatahrúgu í Hjálpræðishernum. Og ekki skánaði það eftir því sem leið á ferðina. Það virðist nefnilega vera að sjöan sé gömlufólkastrætó. Samferðafólk mitt var allt komið á áttræðisaldur og alltaf þegar einhver sté um borð þá kölluðu allir hinir "Moooorning!" eins og þetta væri einhver hópferð sem gleymst hefði að segja mér frá. Og svo varð Hjálpræðisherslyktin alltaf sterkari og sterkari. Af hverju lyktar sumt gamalt fólk eins og geymslur? Mér datt nú svona í hug að það væri til þess að það þekkti vini sína þegar það væri orðið blint....hvað veit ég?!

Svo á heimleiðinni settist ég upp á efri hæð til að njóta hreina loftsins því gamla fólkið drífur ekki upp stigann. En...þá sátu þar fremst tveir rónar og reyktu í mestu makindum-það eru sko sektir við því! En auðvitað var ég svo mikil rola að vilja ekki lenda í óþægilegri aðstöðu eða rifrildi svo ég sagði ekkert. Eftir því sem leið á ferðina bættust fleiri ungar stúlkur í hópinn og svo kom að annar róninn sneri sér við til að dást að útsýninu og fór svo að klappa taktfast. Hann klappaði í dágóða stund áður en hann kallaði "Round of applause for the fannies on the bus!" aftur og aftur. Og enn var andlit mitt steinrunnið-ekkert verið að bjóða upp á samskipti hér!-samt fannst mér þetta ansi skondið hjá honum blessuðum. Svo dröttuðust þeir út á næstu stoppistöð-hjúkk.

Já, er ekki strætó yndislegur?

|

föstudagur, apríl 15, 2005

Ég þoli ekki ökumenn sem skipta um akrein í miðju hringtorgi án þess að taka eftir því að þeir svína á mér við það. Og ég þoli ekki sjálfa mig fyrir það að eðlisávísunin segir mér alltaf að blikka háu ljósunum og loks þegar meðvitundin tekur yfir þá er allt of seint að fara að leggjast á flautuna...aaargh! ><

|

mánudagur, apríl 11, 2005

Laugardagur til leti?

Ég er nú meiri kallinn, fór í útréttingar á laugardaginn og endaði á því að kaupa mér tvenn gleraugu. Ójá, ekki lengi að því sem lítið er! Það er annað en feita lata afgreiðsludæmið sem ég lenti í sama dag. Þetta var í svona hundraðkallabúð þar sem hægt er að fá allt frá brjóstahöldurum yfir í topplyklasett. Biðröðin var eins og ormurinn langi og það voru þrjár manneskjur bak við afgreiðsluborðið. Einungis ein þeirra var að afgreiða þó það væru þrír kassar. Önnur væflaðist fram og aftur með rúllu af plastpokum og sú þriðja var eins og hún væri bara í öðrum heimi og hafði tekið sér það hlutverk að setja þessa örfáu hluti sem maður keypti í plastpoka. Þegar kom að mér var ég með tvo hluti og með plastpoka úr annarri búð sem ég setti draslið í og þurfti ekki hennar hjálp til þess. Í staðinn fyrir að skammast sín fyrir hvað hún var einskis nýt tók hún "pásunni" fegins hendi og fékk sér sælgæti úti í horni meðan hún gaulaði "it's raining men...hallelujah..." Úff!

Þegar innkaupaferðinni var lokið fór ég heim að hlaupa. Ég hlusta alltaf á útvarpið þegar ég hleyp-ekkert endilega tónlist heldur stundum "Gardener's question time", "Al Murrays comedy hour" eða "Just a minute". Á laugardaginn var ekkert skemmtilegt í útvarpinu. Eyddi hálfum hringnum í að fletta milli stöðva þar til ég fann Meatloaf lag og hugsaði að það myndi þó alla vega endast alla leiðina heim. Ég gleymdi þó að fyrir utan það að lögin hans eru aldrei búin eru örar hraðabreytingar aðalsmerki listamannsins. Það leið því ekki á löngu áður en ég var búin að ná mér í alveg svakalegan hlaupasting, bara með því að láta hlaupahraðann fylgja tónlistinni.

|

mánudagur, apríl 04, 2005

Klutz

Þá er loksins ástæða fyrir mig að blogga. Það gerðist eitthvað í mínu lífi í dag sem virði er að segja frá. Nei, ég er hvorki trúlofuð né ófrísk.

Ég bjargaði manni. Ekki frá dauðanum, en frá klaufaskapnum í sjálfum sér. Ég sat niðursokkin í tölfræði á skrifstofunni minni og hlustaði á danska útvarpið á netinu og lét ekki trufla mig hrópin sem alltaf heyrðust öðru hverju úti á plani. Svo fór að heyrast einhver ásláttur líka, en ég hélt bara að þetta væru iðnaðarmenn eða kannski bóndinn að reyna að tjónka við fjárhópinn sinn.

Svo þegar þetta var farið að vera pirrandi fór ég að glugganum og sá í fyrstu ekkert athugavert, þangað til allt í einu var veifað bláum latexhanska út um rifu aftan á litlum sendibíl. Ég hljóp út og opnaði fyrir einhverjum veslings manni sem hafði tekist að loka sig inni aftur í. Hann var með skurð á nefinu en að öðru leyti heill heilsu. Ég ráðlagði honum að fara aldrei afturí án þess að vera með gemsann við hendina. Þá sagðist hann hafa verið með hann í vasanum en ekki viljað hringja í vinnuna og eiga á hættu að gera sig að algjöru fífli.

Já, ég bjargaði manni í dag. En af klaufaskapnum að dæma þarf líklega reglulega að bjarga honum frá sjálfum sér.

Nú get ég sko tekið á tölfræðinni með bros á vör!

|