<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Enn af strætó

Tók strætó niður í rannsóknastofu í dag og alla leiðina leið mér eins og ég hefði grafist undir fatahrúgu í Hjálpræðishernum. Og ekki skánaði það eftir því sem leið á ferðina. Það virðist nefnilega vera að sjöan sé gömlufólkastrætó. Samferðafólk mitt var allt komið á áttræðisaldur og alltaf þegar einhver sté um borð þá kölluðu allir hinir "Moooorning!" eins og þetta væri einhver hópferð sem gleymst hefði að segja mér frá. Og svo varð Hjálpræðisherslyktin alltaf sterkari og sterkari. Af hverju lyktar sumt gamalt fólk eins og geymslur? Mér datt nú svona í hug að það væri til þess að það þekkti vini sína þegar það væri orðið blint....hvað veit ég?!

Svo á heimleiðinni settist ég upp á efri hæð til að njóta hreina loftsins því gamla fólkið drífur ekki upp stigann. En...þá sátu þar fremst tveir rónar og reyktu í mestu makindum-það eru sko sektir við því! En auðvitað var ég svo mikil rola að vilja ekki lenda í óþægilegri aðstöðu eða rifrildi svo ég sagði ekkert. Eftir því sem leið á ferðina bættust fleiri ungar stúlkur í hópinn og svo kom að annar róninn sneri sér við til að dást að útsýninu og fór svo að klappa taktfast. Hann klappaði í dágóða stund áður en hann kallaði "Round of applause for the fannies on the bus!" aftur og aftur. Og enn var andlit mitt steinrunnið-ekkert verið að bjóða upp á samskipti hér!-samt fannst mér þetta ansi skondið hjá honum blessuðum. Svo dröttuðust þeir út á næstu stoppistöð-hjúkk.

Já, er ekki strætó yndislegur?

|