<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 15, 2005

Í tilefni af því að bæði Giljagaur og Stúfur eru komnir til byggða:


|
Hújehhhhahhh!!!!

Rosalega er ég ánægð með hinn níu ára Anton sem hringdi inn á Rás2 áðan og bað um Master of Puppets. Svona á að gera þetta! ÓliPalli gat ekki annað en þóknast drengnum mitt í jólavæminu.

|
....á mandólín jeeeeg

Í jóladagatalinu í morgun var brúnn dvergur með rautt nef að spila á trommur. Fara nú að renna á mig tvær grímur, þetta gerist undarlegra með hverjum deginum!

|

mánudagur, desember 12, 2005

King of the Battlefield

Þeir lesendur mínir sem státa af góðu minni vita það að mín fyrstu kynni af tölvukallinum hér í Easter Bush Veterinary Centre, honum Jim Duncan, voru ekki góð. Þar sem ég var á mínu meyrasta skeiði veltandi mér upp úr heimþrá tókst honum nærri að græta mig með hryssingslegri framkomu.

Nú tveimur árum síðar hefur dæmið snúist við. Nú er svo komið að þegar ég þarf hans þjónustu við kemur hann hlaupandi og vill allt fyrir mig gera. Hann man allt sem ég segi honum um mína hagi (mental note: shut up about myself) og kann meira að segja að stafa föðurnafnið mitt. Sá böggull fylgir reyndar skammrifi að ég neyðist til að heyra hann segja mér frá tómstundagamni sínu sem er að leika eftir frægar orrustur, hvernig hann ferðast um heiminn með tösku fulla af blýdátum og svo vitnar hann í ljóð Tenyson um Krímstríðin. Svo virðist sem ég hafi algjörlega vanmetið þennan ágæta mann sem einmitt er búinn að eyða lunganum af deginum í dag í að setja upp fyrir mig nýja tölvu í stað þeirrar hundgömlu sem var að gefast upp.

|
Prédikarinn

Það styttist alltaf í jólin-á laugardaginn var haldin íslensk aðventumessa í Edinborg og ég tók að mér það árvissa hlutverk að lesa fyrri ritningarlestur þess Drottins dags. Eins og í fyrra var hann úr spádómsbók Jesaja en þó öllu huggulegri, fjallaði um fjöll og dali, mátt Drottins og svo framvegis. Í fyrra var messan haldin fyrsta sunnudag í aðventu og fjallaði ritningin þá um hórkarla og -kerlingar. Þrumaði ég þann reiðilestur yfir skelkuðum söfnuði og varð að fá mér vatnssopa á eftir til þess að detta aftur úr karakter.

Í gær var kveikt á hirðakertinu-það var víst Betlehemkertið í síðustu viku-svona er ég farin að ryðga í jólasiðunum í útlegðinni! Við fengum rauðnefjaðan dverg spilandi á fiðlu í dagatalinu í morgun.

|
Æskublómi

Mikil blóðtaka átti sér stað hér í Bretlandi í síðustu viku. Á þriðjudaginn lést elsti karlmaður Bretlandseyja, Jerzy Pajaczkowski-Dydynski (also known as George) sem var 111 ára og daginn eftir lést elsti Bretinn Lucy d'Abreu sem var 113 ára. Hótanirnar um að ellilífeyrisþegar færust úr kulda þennan veturinn hafa þá kannski verið á rökum reistar. Þjóðin yngist upp með ógnarhraða og óttast afleiðingarnar. Hins vegar sést hér að hefðbundið mataræði bresku þjóðarinnar er ekki vænlegt til langlífis-bæði voru þau ættuð af meginlandinu, hann pólskur og hún frönsk.

|

fimmtudagur, desember 08, 2005Önnumst eyðingu eiturefna

Jústsjen-KÓ
Nýbýlavegi 24 rauð gata

|

mánudagur, desember 05, 2005

Og, já....

...gleymdi að segja að ég var að setja inn myndir frá sumarbústaðarferð í ágúst, merarblóðsferðum mínum í september og julefrokost í nóvember á myndasíðuna.

Og ef einhver er alveg að verða búinn með íbúprófenið sitt þá er kannski hægt að fá mig til þess að fara í magninnkaup í Boots...svona ef þið eruð alveg að faaarast úr skorti

|
Oj tónlist!

Heyrði í Madonnu í útvarpinu um helgina. Henni tókst þar á einstæðan hátt að ríma orðin "bad", "sad" og "glad" í alveg óhemju leiðinlegu lagi. Hvernig kemst hún upp með þetta? Eru það upphandleggsvöðvarnir? Þorir fólk ekki að segja það sem því virkilega finnst af hræðslu við að verða barið?

Hmmm....ég ætti kannski að fara að beita sömu aðferð til þess að fá mínu fram-ég hef alla vega upphandleggina til þess....

|

sunnudagur, desember 04, 2005

Hirðakertið...nei...Betlehemkertið

Og nú er kominn annar sunnudagur í aðventu. Við fengum mynd af brúðu í dagatalinu okkar í morgun. Áður höfðum við fengið leikfangaeimreið, sleða og leikfangabíl.

Böddi litli á líka afmæli í dag og er orðinn stór maður. Ég skil ekkert í því hvað hann heldur áfram að eldast-hann fer að ná mér, svei mér þá!Fullveldisfagnaðurinn á föstudaginn fór ágætlega fram, þar hittust Vestfirðingar, Borgfirðingar og Eybekkingar og áttu saman fjöruga kvöldstund. Íslenskt brennivín virðist vera ágætis málbeinsolía því ég lenti í því að þrjár konur kepptust um að gefa mér ráð til þess að græða hin ýmsustu andlitskaun og þóttist hver og ein hafa hið eina sanna undraráð. Ein sagði mér að kaupa laxerolíu og bera framan í mig, önnur ráðlagði vaselín og hin þriðja kvaðst bera á þau eyrnamerg...já, EYRNAMERG!! Svo sótti laxerolíukonan í sig veðrið og húðskammaði mig fyrir að kroppa og sagðist ekkert skilja í svona fallegri stúlku að gera sér þetta. Já, hún veit greinilega ekki að hin sanna fegurð býr innra með manni...huh. En ég varð auðvitað bara foj og sagði að mamma mín væri búin að reyna að fá mig ofan af þessu í aldarfjórðung og eiginlega bara allir sem ég þekki, svo hún væri velkomin að bætast í hópinn þó ég byggist ekki við því að hún næði miklum árangri. Er ég ekki hortug?!! Og þá kom annað hljóð í strokkinn, hún sagðist skilja að þetta hlyti að vera vegna álagsins sem ég er undir, "já ertu á lokaári, það hlýýýtur bara að vera rosalegt stress á þér, já ég skil það bara svoooo vel...". Þessi ræða hennar minnti mig á væmnu verkstæðiskallana í Fóstbræðrum-"það er helvítis álag á þér kallinn minn..."-svo ég hló inni í mér.

Nú ætlum við að bregða okkur í smá göngutúr svona til að lífga við prófdrenginn sem er að fara yfir um í loftslagspælingum, koltvísýringi og köfnunarefni, plægingaraðferðum og áburðarnotkun.

|

föstudagur, desember 02, 2005

Afforda Vac...

...nafnið á ódýra rotþrórsugufyrirtækinu sem sýgur nú af miklum móð við Liberton Drive númer fjörutíuogeitthvað.

|
Færið oss ilmsölt vor....

Ég vil byrja á að segja, degi of seint: Gleðilegan fullveldisdag! Í dag verður haldinn fullveldisfagnaður í Liberton House (sjá mynd) og verður það örugglega fínt geim.

Tónleikarnir á miðvikudaginn voru mjög góðir, Anton reyndist indælispiltur, lifði sig mikið og vel inn í flutninginn og sýndi mikla snilli á píanóið. Svo notaði hann líka tækifærið og sagðist vera á leið til Íslands (við mikinn fögnuð hinna tveggja Íslendinganna í salnum). Hrósaði hann frónsku landslagi og sagði það engu líkt en hlaut ekki miklar undirtektir, enda kolröng þjóð sem hann stóð frammi fyrir. Reyndi svo að bjarga sér út úr þessum graut með því að segja að skosk náttúra minnti að vissu leyti á þá íslensku en var þá búinn að klúðra þessu hvort eð var.

Ég varð þess hins vegar valdandi að við sáum ekki alla tónleikana. Fékk nefnilega undarlega aðsvifstilfinningu sem fylgdi ógleði, suð fyrir eyrum og allsvakalegur andlitsfölvi. Samt hafði mér ekkert verið heitt eða liðið illa fram að því. Fylgdarmaður minn ástríkur vildi ekki taka neina áhættu þó ég segðist alveg geta haldið þetta út, svo við yfirgáfum tónleikana eftir tæprar klukkustundar spilerí. Hann mun líklega seint fyrirgefa mér þennan aumingjaskap...

Í gær var ég síðan hálfdommaraleg fram eftir degi en hef nú tekið gleði mína á ný.

Ég er búin að senda útdráttinn af stað sem ég átti að skila fyrir þennan repro-fund í ágúst og leggst því nú í inngangsskrif auk jólaundirbúnings. Ég var spurð í gær hvers ég óskaði mér í jólagjöf en ég man auðvitað ekki stundinni lengur þær snilldarhugmyndir sem ég fæ í daglegu amstri. Þarf að hafa með mér blað og penna hvert sem ég fer.

Get samt munað eftirfarandi sem mig langar í einhvern tímann:
*Nudd
*töfrastaf til að mauka súpur og svoleiðis
*bók sem ég sá í Border's um daginn um endurnýtta húsmuni og húsgögn-The Reclaimers eða eitthvað svoleiðis. Samt ekki Proclaimers. Samt væri nú stuð að fá syngjandi skoska tvíbura í jólagjöf...

|