<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, desember 04, 2005

Hirðakertið...nei...Betlehemkertið

Og nú er kominn annar sunnudagur í aðventu. Við fengum mynd af brúðu í dagatalinu okkar í morgun. Áður höfðum við fengið leikfangaeimreið, sleða og leikfangabíl.

Böddi litli á líka afmæli í dag og er orðinn stór maður. Ég skil ekkert í því hvað hann heldur áfram að eldast-hann fer að ná mér, svei mér þá!



Fullveldisfagnaðurinn á föstudaginn fór ágætlega fram, þar hittust Vestfirðingar, Borgfirðingar og Eybekkingar og áttu saman fjöruga kvöldstund. Íslenskt brennivín virðist vera ágætis málbeinsolía því ég lenti í því að þrjár konur kepptust um að gefa mér ráð til þess að græða hin ýmsustu andlitskaun og þóttist hver og ein hafa hið eina sanna undraráð. Ein sagði mér að kaupa laxerolíu og bera framan í mig, önnur ráðlagði vaselín og hin þriðja kvaðst bera á þau eyrnamerg...já, EYRNAMERG!! Svo sótti laxerolíukonan í sig veðrið og húðskammaði mig fyrir að kroppa og sagðist ekkert skilja í svona fallegri stúlku að gera sér þetta. Já, hún veit greinilega ekki að hin sanna fegurð býr innra með manni...huh. En ég varð auðvitað bara foj og sagði að mamma mín væri búin að reyna að fá mig ofan af þessu í aldarfjórðung og eiginlega bara allir sem ég þekki, svo hún væri velkomin að bætast í hópinn þó ég byggist ekki við því að hún næði miklum árangri. Er ég ekki hortug?!! Og þá kom annað hljóð í strokkinn, hún sagðist skilja að þetta hlyti að vera vegna álagsins sem ég er undir, "já ertu á lokaári, það hlýýýtur bara að vera rosalegt stress á þér, já ég skil það bara svoooo vel...". Þessi ræða hennar minnti mig á væmnu verkstæðiskallana í Fóstbræðrum-"það er helvítis álag á þér kallinn minn..."-svo ég hló inni í mér.

Nú ætlum við að bregða okkur í smá göngutúr svona til að lífga við prófdrenginn sem er að fara yfir um í loftslagspælingum, koltvísýringi og köfnunarefni, plægingaraðferðum og áburðarnotkun.

|