<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júní 30, 2006

Nú, eftir heimsókn BoKat þurfti ég að fara að huga að brúðkaupinu sem haldið var 24. júní í garðinum við Liberton House. Það er svoddan höfuðverkur að finna sér föt til að vera í brúðkaupi, allar reglurnar maður! Ég var búin að standa mig vel, keypti ódýrt pils í VILA (uppáhalds búðinni) og ódýra gollu í Hennesen og Mauritsen. Svo var ég eyðslukló og borgaði heil 65 pund fyrir einhvers konar korselett (!) úr silki sem passaði svona líka vel. Þá var bara eftir að finna skófatnað.

Hófst nú hin mesta tragedía því ég hafði engan tíma til þess að fara í búðir auk þess sem skórnir þurftu að passa við ferskjulitan og rjómagulan (hljómar illa, en þetta var fínt sko). Svo máttu ekki vera hælar á þeim því athöfnin fór fram í garðinum-gras og hælar eru slæm blanda. Samt vildi ég ekki vera í flatbotna....you catch my drift. Hvað um það, ég ákvað að skjótast í klukkutíma niður í bæ eftir vinnu á fimmtudeginum og ætlaði að taka þetta með trompi. Var búin að skoða vefsíður tveggja skóbúða og velja mér kandídata þar. Skemmst er frá því að segja að ég mátaði sextíuogeitt skópar á þessari klukkustund og ekkert þeirra var draumaparið. Ók ég því heim á leið sár og svekkt.

Ég vissi að ég ætti ekkert ætilegt heima svo ég ákvað að stoppa í Tesco á leiðinni heim. Ég var samt ekkert í stuði fyrir matarinnkaup og var eitthvað voðalega efins um þetta allt saman. Rétt leit á bílastæðaskiltið en las það ekki einu sinni-klukkan var nú orðin sex svo þetta hlyti að vera í lagi. Nú, ég var búin að eigra um búðina án takmarks þegar ég tók eftir því að fók var farið að kasta frá sér fullum innkaupakörfum og hlaupa út. Einn tautaði "I'm going to kill them!" í því hann rauk fram hjá mér. Ég var auðvitað hissa en hélt áfram mínu eigri, með tvo poka af kryddjurtum og þýska spægipylsu, bíðandi eftir matgerðarinnblæstri. Þegar ég var svo komin í röðina sá ég að fyrir utan voru tveir ólukkans bílastæðaverðir í gulum vestum og gengu á línuna, sektandi hvern einasta bévítans bíl! Þeir höfðu greinilega legið í leyni og beðið eftir "after work rush" í búðinni. Svívirðilega lúalegt bragð.

Já, svo ég kom heim úr þessari misheppnuðu skóbúðaferð 30 pundum fátækari og engir voru skórnir!

|