<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júní 15, 2006

Pétur beturviti

Ég verð stundum svo svekkt þegar ég rekst á mál- og stafsetningarvillur í blöðunum að ég bara neyðist til að skrifa kvörtun og senda á prófarkalesarana. Þá verð ég gífurlega þreytt á sjálfri mér og geri mér fulla grein fyrir því hvað ég er óþolandi og mikill besserwisser. Í dag sá ég í frétt moggans ruglað saman orðunum samrýndur og samrýmdur sem þýða alls ekki það sama. Samrýnd systkin eru náin en samrýmdur hef ég alltaf haldið að væri einhver afbökun á orðinu samræmdur sem þýðir samstilltur (coordinated).

Eftir að hafa skrifað inn til moggans (eins og fáviti!) gerði ég því einfalt próf og sló inn "samrýmdur" á google. Þar komu upp fjórar síður af alls konar tenglum þar sem orðið var nær einungis notað um hópa, bekki, vini, kærustupör og þvílíkt. Annað hvort hef ég rangt fyrir mér (sem er afskaplega sárt og auðvitað nærri ómögulegt, ha, Hafdís?!) eða hér er komin málvilla sem hefur skotið djúpum, blóðþyrstum rótum í rökum og næringarríkum jarðvegi íslenskunnar (úff, þetta gerðist sko alveg óvart en ég læt það standa). Gerði mig því að fífli öðru sinni í dag með því að skrifa til íslenskrar málstöðvar og spyrjast fyrir um notkun þessara orða. Sjáum til hvort ég fæ nokkuð svar.

Hver hefur áhuga og tíma til þess að fara með mér í gegn um google niðurstöðurnar og skrifa til hvers og eins þeirra sem nota orðið samrýmdur vitlaust? Ólukkans dónar.

|