<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Vóvóvó hvað er langt síðan ég síðast reit hér línu. Og mikið vatn hefur síðan til sjávar runnið. Jæja, ætli ég reyni ekki að skrifa þetta í sæmilega einfaldri orðaröð...

Sneri til baka frá Danmörku á mánudaginn og var þá búin að næla mér í berkjubólgu og kvefpest auk almennrar ferðaþreytu. Drattaðist þó í vinnu í gær og sat það af mér til 3 er ég fór niður í bæ og hitti Guðmund til að sjá Hans Blix halda fyrirlestur í McEwan Hall sem er rosa flottur hátíðarsalur Edinborgarháskóla. Ég var svo hrædd um að fá ekki sæti svo ég stakk upp á því að mæta þremur kortérum til klukkutíma fyrr en þetta átti að byrja, en uppskar vantrú og var sagt að það væri nú einum of. Svo þegar við mættum um hálftíma fyrr var múgur og margmenni á torginu fyrir framan bygginguna, löng biðröð sem hlykkjaðist eins og ormur fram og til baka eftir torginu. Minnti mig á fólksfjöldann sem beið eftir að sjá jarðneskar leifar Ingiríðar drottningar í Christiansborg slotskirke eftir að hún dó rétt fyrir jólin 2000. Þessi fagra röð sem Bretarnir höfðu trúfastir skapað fór nú fljótlega forgörðum fyrir tilstilli Kana nokkurra sem ákváðu að ryðjast bara þvert á allt skipulagið. Jæja, við komumst þó inn og fengum ágætis sæti. Ég heyrði útundan mér að rúmlega þúsund manns sætu í McEwan Hall og að annað þúsund stæði fyrir utan og þyrfti frá að hverfa.

Þarna inni voru staddir Edinborgarar af ýmsum gerðum. Nokkur öldruð pör, mishölt og misslitin, fullt af ungum háskólaborgurum auðvitað og svo allir aktívistarnir sem þekktust á löngu, ógreiddu hári, reykelsislykt, litríkum fötum og húmmus-storknu skeggi. Á torginu fyrir utan var líka verið að dreifa mótmælaseðlum og hvatningum til að mæta á flokksfund Verkamannaflokksins í Inverness til að mótmæla Tony Blair og öllu því sem hann er að bardúsa.

Nú, þegar Hans Blix mætti kvað við lófatak og hann hélt fyrirlestur um það hvernig hindra mætti útbreiðslu kjarnavopna. Hann var ekki afgerandi í neina eina átt, var mjög dipló og virtist vera mjög fínn gamall kall. Reyndar komumst við að því að hann er sænskur, bæði höfðum við haldið að hann væri Norðmaður-hvaðan það kom veit ég ekki. Nú, eftir fyrirlesturinn tók hann við spurningum úr salnum. Fyrstur var dónalegur bandarískur aktívisti sem sagðist heita Gandalf og var með sítt grátt hár og skegg. Þó ekki eins fínn eins og Ian MacKellen. Hann spurði og Blix svaraði á mjög kontrolleraðan hátt og lét ekki of mikið uppi um sínar persónulegu skoðanir. Næstur spurði einhver skoskur aktívisti sem sagðist vera atvinnulaus. Hann hefur líklega reykt allt of mikið hass og borðað of mikið tófú um ævina því spurning hans hljóðaði svo: "Þegar tvær þjóðir hatast svo mikið að þær eru tilbúnar til að þróa gereyðingarvopn hvor á móti annarri, er þá ekki svarið að kenna þeim að elska hvor aðra?" Vá, maður, í hvaða draumaheimi lifir þú, hefurðu heyrt um væmnu risaeðluna Barney? En Hans kallinn svaraði þessu bara eins og hver annar góðlátur afi og tók svo næstu spurningu. Þetta var vel af sér vikið fannst mér. Svo Hans Blix er bara fínn kall held ég sem lætur ekki hlaupa neitt með sig.

Hvað varðar Köbenferð, þá fannst mér eins og ég hefði aldrei farið neitt og byggi hvergi annars staðar. Var farin að hugsa á dönsku á nótæm og var jafnvel hálfhrædd um að komast ekki inn í enskuna þegar ég sneri aftur. Náði ekki að kaupa allt það sem ég ætlaði að kaupa eða hitta alla sem ég ætlaði að hitta en hjálpaði Tine að halda brjálað partí á laugardeginum og taka til eftir það á sunnudeginum...fegin að komast aftur í hversdagslífið hér í Edinborg.


|

föstudagur, febrúar 13, 2004

Jibbí, vorið er farið að gera vart við sig í Edinborg. Í morgun gekk ég út á stoppistöð í indælu veðri og fuglasöng, umkringd glaðlegum litlum íkornum sem voru í óðaönn að gera vorhreingerninguna eftir vetrardvalann. Páskaliljurnar eru í breiðum við heimreiðina og að því komnar að springa út. Vetrargosarnir að klára sig og krókusarnir að taka við. Djísös hvað ég hlakka til að dvelja í þessum garði í sumar. Yndislegt! Fuglarnir flautuðu línurnar úr hinu indæla Bítlalagi "Blackbird", svo ég geri ráð fyrir að þarna hafi einmitt verið blackbirds á ferð ásamt nokkrum litlum glóbrystingum og hvað þetta heitir allt saman. En, gleði ríkir í mínu hjarta yfir komu vorsins.

Gleðst ég einkum yfir yfirvofandi för til Köben þar sem búið er að plana ferð á skólabarinn góða, brunch með pigerne, innflutningspartí hjá Tine og catching up með Diljá. Ég er farin að fá fiðring í magann, sérstaklega nú þegar ég er búin að fá leyfi frá leiðbeinandanum Elaine til að fara. Ég veit ekki hvað það er við kellu, en hún fær mann til að líða eins og skordýri með taugahnoð í stað heila. Þannig að það er mikið afrek að hafa þorað að spyrja hana og fá jákvætt svar, jibbí!

Hins vegar get ég ekki tekið þátt í þessu Valentínusaræði sem hér ríkir. Pöbbar hafa vikum saman auglýst hver í kapp við annan að þeir taki borðapantanir fyrir þetta laugardagskvöld í febrúar. En rómó, sitja á reykmettuðum pöbb, þar sem sólin nær aldrei að skína sökum kámugra glugga og sótugra veggja og háma í sig feitar pylsur og kartöflustöppu, skola öllu niður með pintavís af lager. Þá er aldeilis hægt að halda heim og njóta ásta!

|

föstudagur, febrúar 06, 2004

Í gær eftirmiðdag leið mér í andartak eins og ég væri í væminni Fiatauglýsingu. Hitti G á ítölsku kaffihúsi í Grassmarket og ég var ekki fyrr komin inn en að byrjaði þrumuveður með hagléli og látum. Gatan úti breyttist í stórfljót og alls staðar stóð fólk í dyrum að reyna að skýla sér. Það kom líka slatti af fólki inn á kaffihúsið, rennblautt. Stemmningin var eitthvað svo suðræn samt, allir brosandi og myndaðist einhver samkennd meðal strandaðra kaffiunnenda.

En Adam var ekki lengi í Paradís-við vorum á leið á fyrirlestur uppi í háskóla og þurftum því að leggja út í veðrið. Haugblotnuðum alveg hreint, þó við værum með regnhlíf. Hún fékk líka fljótlega dauðadóminn, andhverfðist í rokinu og lést á unga aldri, aðeins tveggja klukkustunda gömul. En við náðum á fyrirlesturinn sem bar nafnið Islam-myths and realities. Það var ekki alveg eins fróðlegt og ég hélt að það yrði en allt í lagi samt. Þetta var bara soldið lengi af stað, svo að í lokin, þegar spurningarnar úr salnum voru loksins farnar að fljúga, þurfti að leysa samkunduna upp. Þarna voru nokkrir Múslimar sem nýlega höfðu tekið trúna, þar á meðal nokkrar Vestrænar stúlkur. Þær voru með Mullah (höfuðklút) að góðum sið. Mullah fer ekkert í taugarnar á mér, þær velja þetta sjálfar og eru stoltar af. Mér finnst bara eitthvað svo litlaust og veikindalegt við hvítar konur sem fela hár sitt-sbr. nunnur. Þetta fer einfaldlega dökkum konum betur, konum sem eru með dökk augu og augabrúnir og jafnvel kónganef.

Þegar talið barst að höfuðklútunum og því að sumir segi þá niðurlægjandi sagði fyrirlesarinn að frá hans sjónarhorni væri niðurlægingin greinilegri hjá Vestrænum konum sem eru frægar fyrir það eitt að bera sig á almannafæri. Átti hann þarna við Jordan hina brjóstastóru sem er einmitt þátttakandi í hinum sorglega "I'm a celebrity...get me out of here". Þátturinn hefur einmitt snúist um brjóstin á henni, allt annað fellur í skuggann, enda er hún fær um að valda almyrkva á sólu með þessum júllum. Og ekki nóg með það, heldur er Peter André líka þátttakandi og þau sitja og káfa hvort á öðru við varðeldinn, raulandi grípandi melódíur við djúpa texta með sínum fögru röddum. Ekki skrýtið að Johnny Rotten skyldi hætta sjálfviljugur, enda eini maðurinn með viti í þessum þætti.

En talandi um brjóst, þá finnst mér hins vegar þessi bévítans pempíuskapur í kringum brjóstin á Janet Jackson alveg fáránlegur. Manneskjan er útskúfuð, það á að setja af stað nefnd til að rannsaka málið...rannsaka hvað??? Bandaríkjamenn geta verið svo firrtir-þeir búa til perraskap úr ósköp eðlilegum og fallegum hlutum eins og þegar lítill drengur kyssti litla telpu og var dæmdur fyrir kynferðislega áreitni. Djísös, takið ykkur saman!

Niðurstaðan: Mullah er út úr myndinni fyrir mín bláu augu og mína bláhvítu húð og ég mun seint reyna að koma mér áfram í lífinu á því að sýna á mér brjóstin en ég frábið mér brjóstatepruskap engu að síður. Góðar stundir

|

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Í gærkvöldi eignuðumst við G okkar eigið fótboltalandslið...Manchester City. Við horfðum á leikinn einungis af því að Íslendingur gekk til liðs við þá og átti að spila sinn fyrsta leik með þeim í gær. Og vá hvað við lifðum okkur inn í þennan leik og allt sem Íslendingurinn gerði. Við engdumst um af spennu, hlógum og grétum á víxl. G var jafnvel farinn að tala um fótboltaliðið sem "við". Seinni hálfleikur æsispennandi með það sem fréttamaðurinn kallaði "double save of the season" hjá Íslendingnum Arason. Enda var pilturinn (the kid, eins og félagar hans kölluðu hann í lok leiks) valinn maður leiksins með 51% atkvæða. Vá maður. Og ég sem er ekki fótboltaáhugamanneskja-bjargaði þessu reyndar að skoruð voru 7 mörk í leiknum!

Hmmm...næst verð ég farin að vitna í Effemm og segja sögur af Sport kaffi og Players, Kópavogi.

Sá um daginn kynningu á bíómynd sem ég hlakka til að sjá og grunar að ég eigi eftir að sjá nokkrum sinnum með Bödda yfir poppi og Guinnes. Þetta er myndin Starsky and Hutch, en í henni leika þrjú af sameiginlegum átrúnaðargoðum okkar systkina. Fyrstan skal telja Ben Stiller sem hefur líkamsbyggingu sem ætti í raun ekki að vera hægt og er auk þess fyndinn í flestu sem hann tekur sér fyrir hendur. Með honum leikur Owen Wilson sem er ekki síðri, sá Wilson bræðra sem hefur vangefnara nef og ekki skemmir það fyrir honum blessuðum. Þessir tveir voru aðal í Zoolander, þeirri snilli. Og rúsínan (eða súkkulaðimolinn) í pylsuendanum er DeeODoubleGee, Snoop hinn ómótstæðilegi pimp. Já, þetta verður augnakonfekt, léttur seventísfílingur yfir þessu öllu, stór yfirvaraskegg og míkrófónahár. YUMMY!

|

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Eitt gleður mig alltaf á minni löngu strætóferð á morgnana. Ójá, það fær mig til að gleyma unglingunum stórhættulegu á efri hæðinni og setur bros á mitt svefnþrungna andlit. Þetta er hið þrautseiga "Lollipop-people" sem hefur fyrir starfa að standa á götuhörnum eldsnemma á morgnana í neongulum frökkum og með meðfærilegt stoppskilti í hendi (þar af nafnið Lollipoplady/-man) til þess að hleypa litlu skólabörnunum öruggum yfir götuna. Flestir lollipopmannanna eru smáir og aldnir-minna mig svolítið á sköllótta kallinn í Benny Hill. Og þeir eru bara ótrúlega sætir kallarnir. Verst að ég get ekki nýtt mér þjónustu þeirra, enginn slíkur á mínu götuhorni.

Í strætó í morgun var unglingsstelpa að skemmta öllum strætó með vasadiskóinu sínu (vá hvað ég er leiðinleg, skorpin og gömul...nei annars, þetta er ekkert meint á neikvæðum nótum...) og var greinilega að hlusta á nýja safndiskinn hans Michael Jackson, sem naut einmitt gífurlegra vinsælda hér í Bretlandi fyrir jól. Hún var að hlusta á hið afleita stuðlag "Bad" og þá rifjaðist upp fyrir mér orðið "Chamone" sem þetta freak of nature notar óspart, einkum í þessu lagi. Í hinum stórskemmtilega sjónvarpsþætti Bo'selecta var Michael einmitt leikinn snilldarlega af Arvid Merrion og hann hrópaði einmitt Chamone! í öðru hverju orði, gjarnan með viðbótinni "Motherf****r". Hvað skyldi þetta orð þýða? Uppástungur vel þegnar.

Og að lokum, ætla aðeins að vitna í merka Kóreska mastersritgerð sem ég fann uppi í hillu á skrifstofunni minni (hvað hún er að gera hér veit ég ekki). Þetta lítur voða vel út, bundið í harðspjöld og prentað á handgerðan hrísgrjónapappír. Auk þess hafa herlegheitin verið undirrituð með kóresku letri, stimpluð og innsigluð. Fór þó í verra þegar ritið er lesið, því enskan á því er afskaplega bág. Því verð ég að segja hér að bókin er oft verri en spjöldin. Kemur hér lítil tilvitnun í kaflann "Materials and methods":

"The animals were retrieved from its cage, place in a tared beaker and determine its weight. An appropriate dose of anesthetics were calculated, and manually restrain the animal."

Æji...það hefði verið svo einfalt að láta einhvern lesa þetta yfir. Skammastu þín, Ku-Birm Kwon!

|