<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 06, 2004

Í gær eftirmiðdag leið mér í andartak eins og ég væri í væminni Fiatauglýsingu. Hitti G á ítölsku kaffihúsi í Grassmarket og ég var ekki fyrr komin inn en að byrjaði þrumuveður með hagléli og látum. Gatan úti breyttist í stórfljót og alls staðar stóð fólk í dyrum að reyna að skýla sér. Það kom líka slatti af fólki inn á kaffihúsið, rennblautt. Stemmningin var eitthvað svo suðræn samt, allir brosandi og myndaðist einhver samkennd meðal strandaðra kaffiunnenda.

En Adam var ekki lengi í Paradís-við vorum á leið á fyrirlestur uppi í háskóla og þurftum því að leggja út í veðrið. Haugblotnuðum alveg hreint, þó við værum með regnhlíf. Hún fékk líka fljótlega dauðadóminn, andhverfðist í rokinu og lést á unga aldri, aðeins tveggja klukkustunda gömul. En við náðum á fyrirlesturinn sem bar nafnið Islam-myths and realities. Það var ekki alveg eins fróðlegt og ég hélt að það yrði en allt í lagi samt. Þetta var bara soldið lengi af stað, svo að í lokin, þegar spurningarnar úr salnum voru loksins farnar að fljúga, þurfti að leysa samkunduna upp. Þarna voru nokkrir Múslimar sem nýlega höfðu tekið trúna, þar á meðal nokkrar Vestrænar stúlkur. Þær voru með Mullah (höfuðklút) að góðum sið. Mullah fer ekkert í taugarnar á mér, þær velja þetta sjálfar og eru stoltar af. Mér finnst bara eitthvað svo litlaust og veikindalegt við hvítar konur sem fela hár sitt-sbr. nunnur. Þetta fer einfaldlega dökkum konum betur, konum sem eru með dökk augu og augabrúnir og jafnvel kónganef.

Þegar talið barst að höfuðklútunum og því að sumir segi þá niðurlægjandi sagði fyrirlesarinn að frá hans sjónarhorni væri niðurlægingin greinilegri hjá Vestrænum konum sem eru frægar fyrir það eitt að bera sig á almannafæri. Átti hann þarna við Jordan hina brjóstastóru sem er einmitt þátttakandi í hinum sorglega "I'm a celebrity...get me out of here". Þátturinn hefur einmitt snúist um brjóstin á henni, allt annað fellur í skuggann, enda er hún fær um að valda almyrkva á sólu með þessum júllum. Og ekki nóg með það, heldur er Peter André líka þátttakandi og þau sitja og káfa hvort á öðru við varðeldinn, raulandi grípandi melódíur við djúpa texta með sínum fögru röddum. Ekki skrýtið að Johnny Rotten skyldi hætta sjálfviljugur, enda eini maðurinn með viti í þessum þætti.

En talandi um brjóst, þá finnst mér hins vegar þessi bévítans pempíuskapur í kringum brjóstin á Janet Jackson alveg fáránlegur. Manneskjan er útskúfuð, það á að setja af stað nefnd til að rannsaka málið...rannsaka hvað??? Bandaríkjamenn geta verið svo firrtir-þeir búa til perraskap úr ósköp eðlilegum og fallegum hlutum eins og þegar lítill drengur kyssti litla telpu og var dæmdur fyrir kynferðislega áreitni. Djísös, takið ykkur saman!

Niðurstaðan: Mullah er út úr myndinni fyrir mín bláu augu og mína bláhvítu húð og ég mun seint reyna að koma mér áfram í lífinu á því að sýna á mér brjóstin en ég frábið mér brjóstatepruskap engu að síður. Góðar stundir

|