<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Í fréttum...

...er þetta helst: Hellingur að gera, ætlum samt að skjótast yfir til Glasgow á morgun að sjá Anton og Jónssyni. Það verður spennandi að sjá hvort ég get haldið út þessa titrandi kven-/karlrödd heila tónleika, mjög spennandi.

Áðan fór eldvarnarkerfið í gang hér á rannsóknastofunni og allir vísindamennirnir þurftu að fara út í kuldann og standa á gangstéttinni meðan slökkviliðsmenn með súrefniskúta og í sótugum jökkum gengu úr skugga um að allt væri með felldu. Þetta á eflaust eftir að magna enn frekar hálsbólguna sem ég er að þróa með mér.

Í gærkvöldi lenti ég í því að missa mátt og tilfinningu í gjörvöllum hægri fótlegg. Já, ætlaði að stíga í fótinn en fannst þá eins og ég væri ekki með neinn fótlegg, hann bögglaðist undir mér og ég datt á gólfið. Var ég búin að liggja uppi í rúmi við lestur vísindagreina í nokkurn tíma og kenni almennum stirðleika um en ég viðurkenni að ég var ansi skelkuð-svona svipað og þegar ég missti sjónina á hægra auga stundarkorn árið 1999. Það er greinilega eitthvað að hægri hlið líkama míns. Það var nú létt verk og löðurmannlegt að hjóla í skólann í morgun svo þetta hefur bara verið tilfallandi.

Nýja Little Britain þáttaröðin er enn fordómafyllri en hinar fyrri, sum atriðin ramba á barmi ekki-fyndni en ég er samt hrifin af Desiree sem er erkióvinur Bubbles, risavaxin svertingjakona sem segir "bebé" í tíma og ótíma. Svo er gamla konan með óstjórnlegt þvaglát líka stundum fyndin en alveg við það að fara yfir strikið.

Að lokum: "Dularfulla húsráðendahvarfið" er upplýst: Konan sem er í heimsókn er vinkona fjölskyldunnar frá Nýja-Sjálandi sem var svo óheppin að koma til landsins meðan allir voru í burtu. Hún er, held ég, indælis manneskja.

|

mánudagur, nóvember 28, 2005

Gætuð þér...

...hugsað yður bíóferð?

Ekki "Flightplan"!

|

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Gleðilegt spádómskerti

Já, nú er kominn fyrsti í aðventu og ég er einmitt rétt í þessu búin að skila til yfirlestrar útdrættinum sem ég er búin að hamast við að vinna að þessa vikuna. Loksins get ég bloggað og loksins get ég hugað að prjónaskap og spádómskertinu á aðventukransinum.

Hér hafa gerst undarlegir atburðir um helgina. Húsráðendur hafa ekki sést síðan á fimmtudag, Limma þurfti víst í jarðarför og Nick á ráðstefnu en í stað þeirra hefur hér birst mannvera sem ekki er auðvelt að sjá hvors kyns er, við vitum engin deili á og hefur ekki yrt á okkur til að útskýra hvers vegna "það"er hér. Auk þess hrýtur "það" hér daga og nætur svo hátt að maður getur varla fest blund á brá hér uppi undir rjáfri. Mér finnst þetta heldur grunsamlegt og er helst á því að "það" hafi innbyrt Limmu og Nick og sé sest hér að eins og hvert annað sníkjudýr. Aumingja Mollie er enda skjálfandi af hræðslu yfir þessu öllu saman.

Maja vinkona mín var í heimsókn frá Jórvíkurskíri og við fórum aðeins í kaupstað í gær til að skoða í búðir. Ég keypti fínt, fínt jólaskraut í Habitat sem jú missir sig alveg á þessum árstíma og þá er nú gaman að skoða. Svo fórum við á "Deutscher Weihnachtsmarkt" og keyptum Lebkuchen og Glühwein. Í gærkvöldi fórum við svo á bíó, sáum kvikmyndina "kiss kiss, bang bang" sem er bara fín, svona ef maður tekur hana ekki of alvarlega. Borðuðum svo ítalska sjávarrétti klukkan hálfellefu að kvöldi dags, fórum svo heim (þar sem veran lá á meltunni og hraut) og reyndum að festa svefn.

Vikan hefur sem sagt verið full af verkefnum, ég hef staðið löngum stundum í rannsóknastofunni og þess á milli setið við samningu áðurnefnds útdráttar sem er umsókn mín um að leggja niðurstöður fyrir fund hrossaræktardýralækna víðsvegar að í ágúst á næsta ári. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, ónei!

Nú ætla ég að halda áfram með lopapilsið sem ég er með á prjónunum og kveikja svo á spádómskertinu yfir Lebkuchen, piparkökum og kaffi og undir Messíasartónum.

Guð blessi ykkur öll

|

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Gleði á rannsóknastofunni

Sat í mestu makindum og kroppaði-uppgötvaði of seint að risa blóðdropi fór í ullarsjalið mitt kæra. Argh.

Er annars búin að jólaföndra dálítið í dag: gerði jólatrésmunstur í pípettukassann þegar ég var að setja prufurnar í brunnana á gelinu. Já, ég er í hvítum slopp. En það er samt ekki spennitreyja- neeeei.

Diljá mín og Kristinn ástkærir vinir eignuðust lítinn dreng í morgun, hann var bara langur og myndarlegur held ég og gleðst ég heilshugar yfir því.

|

mánudagur, nóvember 21, 2005

Af almennri vanlíðan

Ein fyrirsögn moggans segir að þjónusta við öryrkja sé "alveg ófullnægjandi"....jahså, moggi litli.

Annars hefur líf mitt verið "alveg ófullnægjandi" undanfarna daga. Átti hræðilegan leiðbeinendafund með hræðilegum leiðbeinendum á föstudaginn þar sem var hlegið upp í opið geðið á mér fyrir það að vera ekki búin að skrifa innganginn. Laugardagurinn byrjaði með málfundi Dalai Lama og félaga í Usher Hall og var sæmilegur, sérstaklega því hann fór í jólakransagerð. Sunnudagurinn var alger eymd, þunglyndi og grenj. Kórónaði verkið með því að brenna mig á maganum á sjóðheitri handklæðastönginni en það gaf mér þó alla vega afsökun til að gráta eins og ég ætti lífið að leysa.

Hitti svo bévítans ekkisens Simon í morgun og hann sagði að ég hefði verið "vague" í tilsvörum á föstudagsfundinum. Hann sem sat og glápti út í loftið, hefur ekki leyst neitt af þremur verkefnum sem hann þarf að leysa til að ég komist áfram í þessari ólukku og er almennt mjög "vague" maður sjálfur-AAAAARGH! Og hvenær ætlar hann að gefa mér einhverjar athugasemdir um þennan kafla sem ég er búin að skrifa nú þegar (þó hann segi að ég sé ekki búin að skrifa neitt)?

Jæja, nóg af kveini, það eru víst einhverjir sem eiga verri daga en ég.

Og, Inga Lilý: Ég verð nú bara á Hellubrautinni yfir hájólin, svo þú mátt endilega senda jólakort þangað ;)

|

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Var að leita að uppskrift að rauðbeðusalati í sakleysi mínu og var þá boðið að skoða þessa síðu. Engum nema Dönskum satanistum dytti í hug að nota orðin "fællesareal" og "dejligt".

|

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Innblásin...að vissu leyti

Jæja, komin til baka frá dejlige Danmark. Allt of stutt dvöl og ég er búin að heita sjálfri mér að sú næsta verður kæmpelang.

Mínir nánustu sem fengu frá mér sms á laugardaginn svohljóðandi: "er búin að síga í björg og láta séfer bíta mig..." eiga líklega skilið að fá skýringu, svona til að róa taugarnar. Séferbitið var af fúsum og frjálsum vilja, ofurhundurinn Jargo er þjálfaður til þess að hlaupa uppi glæpamenn og rífa þá í sig. Við stóðum okkur allar eins og hetjur-myndir fylgja síðar. Allar þrautirnar voru leystar með bros á vör, kannski svolitlum skjálfta en án mikilla áfalla. Versta þrautin kom þó í lokin en hún fól í sér nokkra göngu með bundið fyrir augun og blekkingarvef sem fékk mann til að halda að göngunni lyki með stökki fram af 8 metra háum kletti ofan í ískalt stöðuvatn. Þetta var þó allt til gamans gert og ofsa gaman.

Þegar við komum heim úr svaðilförinni var rétt tími til að skella sér í bað og fínu fötin því þá átti eftir að útbúa matinn. Julefrokost fór vel fram, stelpurnar misstu sig að vana yfir desertvíninu (2 púrtvín, 3 muscat-geri aðrir betur) og síld, flæskesteg og lifrarkæfa runnu ljúflega niður. Um nóttina var hefðin rofin með því að við brugðum okkur út að dansa. Það er nú ekki á hverjum degi sem manni býðst djamm á Borgundarhólmi! Á einu krá bæjarins voru komnar saman fjórar kynslóðir (örugglega allir bæjarbúar nema litlu börnin) og allir skemmtu sér konunglega. Fjórir spjátrungar á sextugsaldri með hormottur og buxnastrenginn í handarkrikunum spiluðu fyrir dansi. Á bassatrommunni var auglýsing frá Din tøjmand-Nalle. Stelpurnar hópuðust fyrir framan gítarleikarann og hömuðust á luftgíturunum sínum og endaði það auðvitað á að hann kom niður á gólf og fílaði athyglina vel. Við skriðum svo heim á svefnloftið hjá Christinu í hollum, sú seinasta drattaðist heim um áttaleytið.

Á sunnudaginn vorum við þó nóg úthvíldar til að ganga svolítið um Rønne og svo flaug ég til Köben þar sem skinnið hún Tóta var búin að bíða í einn og hálfan tíma eftir mér því fluginu seinkaði-Tóta: Fyrirgefðu aftur! Ég gat varla tjáð mig fyrstu tíu mínúturnar því ég var svo föst í dönskunni og allt kom öfugt út úr mér. Við fórum beint í heimsókn til Diljár og Kristins, ég var mjög glöð að sjá að bumban var ekkert gífurlega stór þó hún eigi að eiga á laugardaginn. Svo fórum við heim til Tótu og beint að sofa, ég setti allt á annan endann hjá henni en það var gott að sjá að hún er búin að koma sér svona vel fyrir.

Mánudeginum var eytt í að afla danskra nauðsynjavara sem ekki fást hérna og setjast inn á Europa og borða den obligatoriske bestu samloku í heimi. Að vísu þurfti ég nú líka að standa drykklanga stund og bíða eftir Diljá í kuldanum á Købmagergade en eyddi þeim tíma í að tala við heimilislausan mann, skoða fólkið í kringum mig og anda að mér jólaandanum. Svo birtist þessi elska í rauðri kápu með aðeins þrjár efstu tölurnar hnepptar og bumbuna út í loftið.

Ég er nú innblásin og endurnýjuð-nema þegar kemur að náminu, enda minnist ég nú ekkert á það. Hef áttað mig á því að þó ég sé búin að fárast yfir því hversu snemma jólavesenið byrjar hér í Edinborg þá eru Danirnir ekkert seinni í því. Það er bara þægilegri stemning yfir því hjá þeim. Hérna snýst þetta um neyslusamfélagið en þar er þetta um hygge, kertaljós og góðan mat. Skammast mín því ekkert fyrir að vera farin að huga að krönsum og jólaskrauti.

|

mánudagur, nóvember 07, 2005

Nördismi

Menningarvitarnir á BBC4 minnast um þessar mundir tveggja alda afmælis lotukerfis Mendeléffs með því að tileinka hverju frumefni mínútulanga umfjöllun, lesna af þekktum einstaklingi. Þetta er auðvitað hámark nördaskaparins og ég er nú búin að ákveða að saga mín um það hvernig ég og G kynntumst mun byrja svo: "It was during the bicentenary of the periodic table...", þó það sé ekki satt.

|

föstudagur, nóvember 04, 2005

Bull og vitleysa

Fjölmiðlar eru orðnir svona eins og kallinn á sápukassanum. Ég trúi varla helmingnum sem þeir segja mér. Í gærkvöldi var ein fréttin um það hversu lélegt gamla fólkið er að kynda því það er svo dýrt. Fyrirsögnin var þessi: "Hundreds of pensioners could die as a result of this coming harsh winter". Þá þótti fréttakonunni snoppufríðu sem sagt ástæða til að óttast um líf þessa fólks vegna þess að veðurstofan er búin að spá svo köldum vetri. Svo voru sýndar svarthvítar myndir af fannfergi miklu og lest sem ruddi sér leið gegnum himinháa skafla og áhorfendur spurðir hvort þeir myndu örugglega ekki eftir þessum kalda vetri um miðja síðustu öld. Mitt svar var nei, eins og eflaust flestra annarra. Ég ákvað að vera ekkert að hafa áhyggjur af gamla fólkinu því í síðustu viku sagði fréttakonan mér að það færi allt í fuglaflensunni.

Svo var aðalfréttin í gær sú að báðir leikararnir sem leika einhverja Mitchell bræður í Austurbæingunum (eins og EastEnders hét á rúv hér um árið) urðu fyrir líkamsárásum í fyrrinótt, annar af hendi eiginkonu sinnar og hinn lenti í fyrrverandi kærustu. Þessir menn eru víst fautar hinir mestu í þáttunum.

Í morgun komst ég hins vegar að því að Guðmundur hefur aldrei heyrt hinn rómaða og árangursríka áróðursöng "K-A-F-F-I" (bróðir "B-I-B-L-Í-A") sem ég kyrjaði fyrir hann hátt og snjallt með nóttina í hálsinum. Hann kvað Vestmannaeyinga hafa verið of upptekna við að afla þjóðarbúinu 10% innflutningstekna (kemur vergr þjóðarframleiðslu þessu eitthvað við? Það væri nú dúndur.....) til þess að kenna tónlist í barnaskólum. Auk þess hafa börnin örugglega dregið fram lífið á kaffidrykkju með hertar sultarólar meðan foreldrarnir strituðu í fisknum. Bévítans gúanóið, maður! En ég spyr þá hér með mína lesendur hvort þeir kunni ekki þetta lag? Ég hélt að allir kynnu það! Það væri nú gaman að gera úttekt á milli landshluta en þar sem mínir netvinir eru langflestir af suðvesturhorninu (nema einn úr Stykkishólmi) verður það líklega ekki hægt.

|