sunnudagur, nóvember 27, 2005
Gleðilegt spádómskerti
Já, nú er kominn fyrsti í aðventu og ég er einmitt rétt í þessu búin að skila til yfirlestrar útdrættinum sem ég er búin að hamast við að vinna að þessa vikuna. Loksins get ég bloggað og loksins get ég hugað að prjónaskap og spádómskertinu á aðventukransinum.
Hér hafa gerst undarlegir atburðir um helgina. Húsráðendur hafa ekki sést síðan á fimmtudag, Limma þurfti víst í jarðarför og Nick á ráðstefnu en í stað þeirra hefur hér birst mannvera sem ekki er auðvelt að sjá hvors kyns er, við vitum engin deili á og hefur ekki yrt á okkur til að útskýra hvers vegna "það"er hér. Auk þess hrýtur "það" hér daga og nætur svo hátt að maður getur varla fest blund á brá hér uppi undir rjáfri. Mér finnst þetta heldur grunsamlegt og er helst á því að "það" hafi innbyrt Limmu og Nick og sé sest hér að eins og hvert annað sníkjudýr. Aumingja Mollie er enda skjálfandi af hræðslu yfir þessu öllu saman.
Maja vinkona mín var í heimsókn frá Jórvíkurskíri og við fórum aðeins í kaupstað í gær til að skoða í búðir. Ég keypti fínt, fínt jólaskraut í Habitat sem jú missir sig alveg á þessum árstíma og þá er nú gaman að skoða. Svo fórum við á "Deutscher Weihnachtsmarkt" og keyptum Lebkuchen og Glühwein. Í gærkvöldi fórum við svo á bíó, sáum kvikmyndina "kiss kiss, bang bang" sem er bara fín, svona ef maður tekur hana ekki of alvarlega. Borðuðum svo ítalska sjávarrétti klukkan hálfellefu að kvöldi dags, fórum svo heim (þar sem veran lá á meltunni og hraut) og reyndum að festa svefn.
Vikan hefur sem sagt verið full af verkefnum, ég hef staðið löngum stundum í rannsóknastofunni og þess á milli setið við samningu áðurnefnds útdráttar sem er umsókn mín um að leggja niðurstöður fyrir fund hrossaræktardýralækna víðsvegar að í ágúst á næsta ári. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, ónei!
Nú ætla ég að halda áfram með lopapilsið sem ég er með á prjónunum og kveikja svo á spádómskertinu yfir Lebkuchen, piparkökum og kaffi og undir Messíasartónum.
Guð blessi ykkur öll
|
Já, nú er kominn fyrsti í aðventu og ég er einmitt rétt í þessu búin að skila til yfirlestrar útdrættinum sem ég er búin að hamast við að vinna að þessa vikuna. Loksins get ég bloggað og loksins get ég hugað að prjónaskap og spádómskertinu á aðventukransinum.
Hér hafa gerst undarlegir atburðir um helgina. Húsráðendur hafa ekki sést síðan á fimmtudag, Limma þurfti víst í jarðarför og Nick á ráðstefnu en í stað þeirra hefur hér birst mannvera sem ekki er auðvelt að sjá hvors kyns er, við vitum engin deili á og hefur ekki yrt á okkur til að útskýra hvers vegna "það"er hér. Auk þess hrýtur "það" hér daga og nætur svo hátt að maður getur varla fest blund á brá hér uppi undir rjáfri. Mér finnst þetta heldur grunsamlegt og er helst á því að "það" hafi innbyrt Limmu og Nick og sé sest hér að eins og hvert annað sníkjudýr. Aumingja Mollie er enda skjálfandi af hræðslu yfir þessu öllu saman.
Maja vinkona mín var í heimsókn frá Jórvíkurskíri og við fórum aðeins í kaupstað í gær til að skoða í búðir. Ég keypti fínt, fínt jólaskraut í Habitat sem jú missir sig alveg á þessum árstíma og þá er nú gaman að skoða. Svo fórum við á "Deutscher Weihnachtsmarkt" og keyptum Lebkuchen og Glühwein. Í gærkvöldi fórum við svo á bíó, sáum kvikmyndina "kiss kiss, bang bang" sem er bara fín, svona ef maður tekur hana ekki of alvarlega. Borðuðum svo ítalska sjávarrétti klukkan hálfellefu að kvöldi dags, fórum svo heim (þar sem veran lá á meltunni og hraut) og reyndum að festa svefn.
Vikan hefur sem sagt verið full af verkefnum, ég hef staðið löngum stundum í rannsóknastofunni og þess á milli setið við samningu áðurnefnds útdráttar sem er umsókn mín um að leggja niðurstöður fyrir fund hrossaræktardýralækna víðsvegar að í ágúst á næsta ári. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, ónei!
Nú ætla ég að halda áfram með lopapilsið sem ég er með á prjónunum og kveikja svo á spádómskertinu yfir Lebkuchen, piparkökum og kaffi og undir Messíasartónum.
Guð blessi ykkur öll
|