<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, apríl 23, 2007

Komið þið nú sæl, kæru vinir

Nú sit ég og hlusta á Svanhildi á gufunni og horfi út yfir sölnaða jörð sem fer vonandi að taka við sér. Í baksýn er Sankti Jó....sem þýðir að ég er í Hafnarfirði! Ekki alkomin, ekki í þetta sinn, heldur er ég í vikuferð á ráðstefnu í bændahöllinni. Þessi ráðstefna hefur ekkert með nekt að gera en hins vegar verður fjallað ítarlega um æxlun ýmiss konar. Fjölmiðlar sváfu á verðinum og bændurnir komust upp með sóðaskapinn í þetta sinn. Múhúhahahah.

Í gær kom ég fljúgandi frá Glasgow í proppfullri vél af vinnustaðaverslunarferðahópum. Þarna voru bankastarfsfólk, leikskólastarfsfólk og íþróttaunglingar. Fólk hafði gjörsamlega misst sig við öflun vista og annarra nauðsynja í borg verslunar og þjónustu því hver sniftin á eftir annarri var með massíva yfirvigt, sem ekki var skrítið enda voru þær allar með töskur á stærð við smáhest. Í hvert skipti sem yfirvigt mældist var taskan drifin af bandinu, opnuð og handahófskennt umpakk hófst þar sem "eitt svona, tvö svona" voru rifin upp og troðið í alla vasa og handtöskur. Þá var þeim bent á að aðeins mætti hafa eina handtösku og þurfti þá að handahófskenna þessu öllu í eina tuðru. Allt fór þetta fram við innritunarborðið og fór því svo að öll halarófan þurfti að standa og horfa á þetta aftur og aftur því ekki var hægt að afgreiða aðra á meðan. Og svo var þetta kvartandi hástöfum yfir því að það væri þunnt og vorkennandi sér að þurfa að standa í þessu umpakkelsi. Ég hafði ekki minnstu löngun til að tilheyra sama þjóðflokki og faldi íslenska passann minn vel þangað til ég var komin að borðinu, sá helst eftir því að hafa ekki farið á hinum passanum. Skellti þá 19 kílóa töskunni minni sem aldrei er hægt að pakka meira en 21 kílói í (hef þó aldrei prófað að fylla hana af blýi) upp á bandið og spjallaði á skosku við innritunarkonuna svo hún skildi að þó ég væri íslensk þá kæmu yfirvigtarmanneskjurnar og vesenisskjáturnar mér ekkert við. Vona að það hafi skilist. Anyway...I'm here, aren't I?!

|

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Utankjörfundur

Ég var að enda við að kjósa. Trítlaði niður á skrifstofu til Limmu, Mollie lá á gólfinu í allri sinni dýrð, ég fékk í hendur tvö umslög, kjörseðil og fylgibréf, settist á rúmið (já, skrifstofan hennar Limmu er líka gestaherbergi!) og hófst svo handa við að fylla þetta allt út eftir kúnstarinnar reglum. Lagði sko ekki í að breyta röð frambjóðenda eins og mér var boðið, nóg var þetta nú flókið. Kjörseðillinn fór í sérstakt umslag, fylgibréfið var stimplað og útfyllt, þetta fór hvort tveggja í annað umslag sem var stimplað og merkt í bak og fyrir. Umslagið fer ég svo með heim í vikunni og skila því til Bjarna frænda hjá sýslumanni. Þrátt fyrir alla alvöruna og þá virðingu sem ég ber fyrir því að kjósa er þetta dæmalaust heimilislegt.

Því ég bý hjá konsúl, ét vanillin konsúm í silkitafti frá Monsún.

|

mánudagur, apríl 16, 2007

Málbeinið liðkað

Nú er sinaskeiðabólgan hætt að vera eins hræðilega sár, en úlnliðurinn er enn bólginn og öðru hverju marrar í sininni. Ég dreif mig auðvitað í jóga á miðvikudaginn með spelkuna og allt, það þýðir ekki að breyta rútínunni. Í æfingunum fann ég til ýmist í hægri úlnlið, brotnum vinstri litlafingri eða brotna hægra rifbeininu. Ég er að breytast í algjört skar! Ég sem aldrei hef kennt mér neins meins er nú á hraðri leið með það að leggjast í kör. Og allt jóga heimsins virðist ekki koma í veg fyrir þessa þróun.

En vegna þess að sinaskeiðarnar eru nú á hægum batavegi gat ég loksins byrjað að skrifa af alvöru á föstudaginn. Og það er aldeilis að ég datt í skrifgírinn, hef skrifað 7 síður á þremur dögum! Það er sko meiriháttar áfangi á mínum mælikvarða, og þar að auki munu þessar síður vera notaðar en ekki strokaðar út nokkrum dögum síðar eins og svo oft kemur fyrir hjá mér. Þýddi þessi gífurlega framleiðni að ég þurfti að sitja undir súð og stara á skjáinn meðan úti var glaðasólskin, funheitt og fuglasöngur. Þetta eru nú fórnirnar sem maður þarf að færa!

|

sunnudagur, apríl 08, 2007

Írlandsför

Gleðilega páska, elskurnar! Í nótt sneri ég aftur úr útlegð á eyju við vesturströnd Írlands. Myndirnar eru komnar á myndasíðuna. Ég er að dreeeeepast úr sinaskeiðabólgu dauðans svo að þið skuluð taka eftir öllu sem ég er búin að skrifa við þær-það kostaði sársauka og tár! Læt hér staðar numið í bili og vona að ég jafni mig bráðlega svo ég geti skrifað ferðasöguna.
Kys
C

|