<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, apríl 16, 2007

Málbeinið liðkað

Nú er sinaskeiðabólgan hætt að vera eins hræðilega sár, en úlnliðurinn er enn bólginn og öðru hverju marrar í sininni. Ég dreif mig auðvitað í jóga á miðvikudaginn með spelkuna og allt, það þýðir ekki að breyta rútínunni. Í æfingunum fann ég til ýmist í hægri úlnlið, brotnum vinstri litlafingri eða brotna hægra rifbeininu. Ég er að breytast í algjört skar! Ég sem aldrei hef kennt mér neins meins er nú á hraðri leið með það að leggjast í kör. Og allt jóga heimsins virðist ekki koma í veg fyrir þessa þróun.

En vegna þess að sinaskeiðarnar eru nú á hægum batavegi gat ég loksins byrjað að skrifa af alvöru á föstudaginn. Og það er aldeilis að ég datt í skrifgírinn, hef skrifað 7 síður á þremur dögum! Það er sko meiriháttar áfangi á mínum mælikvarða, og þar að auki munu þessar síður vera notaðar en ekki strokaðar út nokkrum dögum síðar eins og svo oft kemur fyrir hjá mér. Þýddi þessi gífurlega framleiðni að ég þurfti að sitja undir súð og stara á skjáinn meðan úti var glaðasólskin, funheitt og fuglasöngur. Þetta eru nú fórnirnar sem maður þarf að færa!

|