<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, apríl 23, 2007

Komið þið nú sæl, kæru vinir

Nú sit ég og hlusta á Svanhildi á gufunni og horfi út yfir sölnaða jörð sem fer vonandi að taka við sér. Í baksýn er Sankti Jó....sem þýðir að ég er í Hafnarfirði! Ekki alkomin, ekki í þetta sinn, heldur er ég í vikuferð á ráðstefnu í bændahöllinni. Þessi ráðstefna hefur ekkert með nekt að gera en hins vegar verður fjallað ítarlega um æxlun ýmiss konar. Fjölmiðlar sváfu á verðinum og bændurnir komust upp með sóðaskapinn í þetta sinn. Múhúhahahah.

Í gær kom ég fljúgandi frá Glasgow í proppfullri vél af vinnustaðaverslunarferðahópum. Þarna voru bankastarfsfólk, leikskólastarfsfólk og íþróttaunglingar. Fólk hafði gjörsamlega misst sig við öflun vista og annarra nauðsynja í borg verslunar og þjónustu því hver sniftin á eftir annarri var með massíva yfirvigt, sem ekki var skrítið enda voru þær allar með töskur á stærð við smáhest. Í hvert skipti sem yfirvigt mældist var taskan drifin af bandinu, opnuð og handahófskennt umpakk hófst þar sem "eitt svona, tvö svona" voru rifin upp og troðið í alla vasa og handtöskur. Þá var þeim bent á að aðeins mætti hafa eina handtösku og þurfti þá að handahófskenna þessu öllu í eina tuðru. Allt fór þetta fram við innritunarborðið og fór því svo að öll halarófan þurfti að standa og horfa á þetta aftur og aftur því ekki var hægt að afgreiða aðra á meðan. Og svo var þetta kvartandi hástöfum yfir því að það væri þunnt og vorkennandi sér að þurfa að standa í þessu umpakkelsi. Ég hafði ekki minnstu löngun til að tilheyra sama þjóðflokki og faldi íslenska passann minn vel þangað til ég var komin að borðinu, sá helst eftir því að hafa ekki farið á hinum passanum. Skellti þá 19 kílóa töskunni minni sem aldrei er hægt að pakka meira en 21 kílói í (hef þó aldrei prófað að fylla hana af blýi) upp á bandið og spjallaði á skosku við innritunarkonuna svo hún skildi að þó ég væri íslensk þá kæmu yfirvigtarmanneskjurnar og vesenisskjáturnar mér ekkert við. Vona að það hafi skilist. Anyway...I'm here, aren't I?!

|