<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Gamli hundur

Við brugðum okkur, litla parið á tónleika í gær með litlum fyrirvara. Elvis Costello and the Imposters voru með tónleika í Usher Hall og þó ég þekki ekki öll hans verk þá er það sem ég þekki bara fínt og mér finnst hann hafa sérstaka og flotta söngrödd. Auðvitað skellir maður sér þá á tónleika. En þvílíkt úthald á þessum gamla hundi! Hann spilaði stanslaust frá átta til hálfellefu og tók hvorki meira né minna en 33 lög, skipti örugglega 15 sinnum um gítar (notaði 6 mismunandi gítara) og sló ekkert af. Mitt fyrra tónleikamet voru 17 lög hjá Foo Fighters, og þótti það nú alveg rosa skammtur á sínum tíma. Ég vona samt að þessi of stóri skammtur reynist ekki gullsprauta áhuga míns á Costello, enda leist mér bara vel á slatta af þessum lögum. Seinasta lagið sem hann tók var alveg sérstaklega flott og frábærlega flutt. Hann hafði auk þess með sér brjálaðan hljómborðsleikara sem hamaðist heil ósköp á fimm mismunandi hljómborðum auk geimhljóðfæris sem ég held að hafi verið einhvers konar rafsviðshljómborð.

Það var enn fremur áhugavert að sjá að dyggasti aðdáendahópurinn virtist vera miðaldra konur með villt hár og í níundaáratugsmúnderingum. Þær óku sér vandræðalega til og frá í plusssætunum og sveifluðu handleggjunum eins og hægt var þangað til Elvis lokkaði þær upp að sviðinu með handabendingum. Þar stóðu þær svo og hristu sig seinni hluta tónleikanna, mænandi upp á þetta litla goð sitt. Þetta var skemmtileg sjón.

|