<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Skidekulde

Jiii minn, Edinborg er svoddan vetrarríki nú um stundir. Í fyrrinótt snjóaði þessi ósköp og svo gekk hann á með éljum og snjókomu í gær. Ég treysti mér ekki til að keyra út á skrifstofu og var því heima. Ástæðurnar voru fjölmargar, meðal annarra:

1. Bíllinn minn er á sumardekkjum og ég treysti honum ekki í ófærð
2. Bretar eru almennt aular í ófærð, treysti þeim ekki til að haga sér eins og menn
3. Betra kaffi heima
4. Hlýrra heima
5. Nennti ekki í skólann frekar en fyrri daginn

Í morgun hafði ég mig svo af stað og var spennandi að sjá hvort ég væri sannur Íslendingur eða aumur Tjalli því bílinn var umkringdur skafli sem var nógu stór til þess að stoppa hvaða Breta sem er. Íslendingar láta hins vegar ekkert stöðva sig. Auðvitað hafði ég þetta í fyrsta, maður!

Svo nú sit ég á skrifstofunni að drepast úr kulda, umvafin mörgum lögum af íslenskri ull og með kalda fingur. Það virðist vera stefnan hérna að halda doktorsnemum ávallt við hitastig sem er 5 gráðum lægra en annars staðar í byggingunni. Á þetta kannski að halda okkur aktívum...ég veit ekki bara. Virkar alla vega ekki á mig því ég er snillingur í "overspringshandlinger" sem eru svona smáverkefni sem maður sinnir af mestu rögg- og samviskusemi bara til að komast hjá því að gera nokkuð af viti.

PS. Skotar eru pínku líkir Íslendingum stundum, í morgun var verið að tala um á BBC Radio Scotland hvað the people down south getur velt sér upp úr brúðkaupi Kalla og Kamillu. Hér er enginn áhugi, ekki einu sinni fjölmiðlarnir nenna að fjalla um það. Það var meira að segja einn blaðamaður sem sagði að ef hann langaði ofsalega til að deyja úr leiðindum þá læsi hann í ensku dagblaði. Svona eins og Ástríkur og bændaglíman var ágæt leið til þess að stytta sér aldur í Dalalífi. Alla vega er ég ánægð með Skotana mína að gefa skít í þetta. Ég held þau megi gifta sig við borgaralegra athöfn í friði, ræfilskvalirnar.

|