<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 21, 2005

Menningin uppmáluð

Nýliðin helgi var í merki menningar. Á laugardaginn keyrðum við suður í Borders að leita að ull og grænum skógum. Fundum hvorugt. Guðmundi finnst að ég ætti að skrifa um þetta hneyksli í Scotsman. Það er alveg ótrúlegt að í landi ullarinnar og þessu gamla ullarvinnslusvæði finnist ekkert nema 30% ullarblöndur. Prjónakonan ég er alveg hundhneyksluð. Svo setja þeir upp "woolen mills" út um allt með því yfirskini að þar fari fram vefnaður og annar myndarskapur. En nei, þessar vöruskemmur eru bara ferðamannagildrur. Þarna stoppa rútufyllir af aumingjans enskum óvitum og annarra þjóða aulum sem láta pranga inn á sig ilmkertum og nikkelskartgripum í þeirri trú að þeir styrki með því handverksmenn staðarins.

Eftir því sem við fórum sunnar vonaði ég að blandan innihéldi sífellt meiri ull og fólk vissi meira um ullariðnað en alls staðar sem ég spurði kom fólk af fjöllum og fannst ég örugglega stórskrítin í heimaprjónuðum 100%ullarflíkum. Snerum heim með 70% ullarværðarvoð og Harris tweed bindi.

Á sunnudaginn gengum við eftir Water of Leith og enduðum í Museum of Modern Art þar sem er sýning á sjálfsmyndum eftir Andy Warhol. Hann var nú meiri kallinn. Sem tvítugur nemandi í listaskóla teiknaði hann til dæmis barnalega mynd af sjálfum sér að bora í nefið. Með réttu hefðu þeir eiginlega átt að henda honum út á staðnum. Svo voru þarna ljósmyndir af honum í dragi og með massíft ör á kviðnum eftir skotárás 1969 og svoleiðis.

Eftir sýninguna héldum við í Filmhouse og sáum heimildarmynd um "Rambling Jack Elliot" sem er kántríhetja, tengillinn milli Woodie Guthrie og Bob Dylan. Hann var líka meiri kallinn. Mér fannst móðursystir hans best, þegar hún var spurð um móður Elliots (systur sína) svaraði hún: "She was a nasty person, she was nasty.......nobody liked her......I'm just being frank here, you know". Þetta var fín mynd um mann sem hefur lifað í eigin heimi öll þessi ár, verið á stanslausu ferðalagi frá því fimmtíuogeitthvað. Þegar Bob Dylan varð frægur (eftir að hafa lært hjá Jack) sagði fólk: "You sound like Dylan, man!" og svarið var: "I've been sounding like Dylan for 20 years". Grey kallinn, sem var svo svikin af Dylan þegar hann þurfti ekki á honum að halda lengur. Rambling Jack er algjör kvennabósi, hefur verið giftur í þrígang og þær hafa margar gefist upp á að sitja endalaust og bíða eftir að hann komi heim úr tónleikaferðalagi. Hann virtist mjög bitur út í eina þeirra sem hafði tekið saman við annan mann eftir langa bið eitt sinn. Sá maður var kallaður dope selling hippie og öðrum fögrum nöfnum. Hann minnist oftar en einu sinni á þennan mann í gegnum myndina, meðal annars til þess að koma því að að hann hafi bara verið með eitt auga. Now, this is bitterness!

Nóg um Rambling Jack. Og nóg um þennan dag.

|