<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, desember 08, 2003

Seinasta heila vinnuvikan fyrir Íslandsför er hafin, jibbíjeiji. Er ansi upptekin þessa vikuna, bæði við skriftir og önnur aktívitet. Fyrst ber að telja þreifingar og skönnun á merum á miðvikudaginn. Það verður nú gaman að komast smá í kontakt við merarnar. Á fimmtudaginn fer ég í Christmas Lunch á einhverjum reyktum pöbb með rannsóknastofuliðinu. Og svo er hápunkturinn á föstudaginn: Christmas Ceilidh (borið fram "keilí") í dýralæknaskólanum. Það er jólahlaðborð with a twist-skoskir dansar verða þar iðkaðir af miklum móð, svo það er eins gott að maturinn verður breskur og ólystugur, ekki gott að dansa með úttroðinn belginn.

Ég er farin að viða að mér pappakössum til að pakka niður mínum fátæklegu eigum. Er svo lukkuleg að geta geymt dótið mitt hjá leigusalanum Limmu og hin þýska Beatrix Wissmann ætlar að skutla mér með dótið í sínum ryðgaða háværa Ford Escort sem hún keypti á 200 pund. Ég er svo heppin að fá liðsinni Keiths frænda við bílakaup á vorönn, það er víst allt fullt af svona ódýrum bílum hér. Gaman gaman.

Nureep hin sísvanga bankaði uppá hjá mér klukkan að nálgast miðnætti um daginn. Hún stóð fyrir utan með mjólkurlögg í brúsa og spurði hvort ég ætti mjólk. Ég átti víst ekki nema nokkra sopa sjálf. Hún spurði þá hvort ég þyrfti alla þessa mjólk og var mjög bjargarlaus á svipinn. Ég hélt kannski að hún væri að baka og hefði uppgötvað mjólkurleysið í miðjum klíðum og var næstum fallin fyrir hvolpaaugunum. Nei, hún sagðist bara drekka mjólk "like a cow" (ég hafði ekki brjóst í mér til að benda henni á að kýr drykkju ekki mjólk, hún ætti eflaust við minni útgáfuna, kálfa) og spurði hvort hún mætti fá svolítið af mjólkinni minni. Ég gaf henni einn desilítra (sic!) og sendi hana að svo búnu heim aftur. Díjsös, að vera alveg í öngum sínum yfir því að eiga ekki mjólk að drekka-drekktu vatn og farðu að sofa, kauptu svo mjólk á morgun! Hvert er vandamálið?!!

|