<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 16, 2006

Samúð eður ei?

Mikið var liðin helgi nú hugguleg. Fórum í bæjarferð á laugardaginn og í bíó á sunnudaginn eftir að ég hafði stungið upp beðin og borið í þau skít. Já, meðan fólkið mitt heima skíðaði í fannferginu var ég í vorverkunum.

Fórum til skóara með tvö skópör og hann var afskaplega leiður yfir því að geta ekki verið búinn með þau fyrr en á fimmtudaginn, hann þyrfti sko að fara í tvær jarðarfarir í vikunni. Ég gaf honum samúðarsvipinn minn (hálfbros, hrukkað enni og ein lyft augabrún) en Guðmundur var ekki sannfærður og sagði mér eftirá að hann hefði túlkað svipinn sem vandræðalegt fliss. Þetta er þá kannski ástæðan fyrir því að gömul kona í Köben frussaði á mig "Det er ikke noget at grine ad!" þegar ég setti upp samúðarsvipinn þegar hún hrasaði í strætó. Ég þyrfti líklega að eyða 20 mínútum á dag fyrir framan spegilinn til þess að slípa svipinn eins og Posh Spice gerði þegar hún var unglingur til að fullkomna kynþokkafullan varastútinn.

Í búðinni Fopp fann ég geisladisk sem endurnýjaði kynnin við Bod, sögupersónu sem pabbi las um fyrir okkur sem börn. Bod hét í hans meðförum Böddi, auðvitað, og þótti okkur einkar vænt um kauða. Ég sé nú að sögurnar einkennast af hippa-karma-lærdómi og hef líka séð á netinu frásagnir fólks sem var dauðhrætt við Bod í uppvextinum af því hann var alltaf í svo hræðilega grunsamlegu jafnvægi.

|