<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Moggaveski, 2. hluti

Já, ekki hafa allir mínir lesendur vitað hvaðan á þá stóð veðrið við lestur örfærslu minnar í morgun. Ég vaknaði nefnilega með moggaveski á heilanum í morgun, því mig var að dreyma rukkunarrúntinn. Fyrir þá sem ekki vita voru moggaveski sterkilmandi (af blöndu leður- og reykingarlyktar) svört veski merkt Mogganum með gylltu letri og smellt með einni smellu. Veski þessi hýstu Moggakvittanirnar sem útburðarbörn afhentu kúnnunum við dyrnar hér í eina tíð í skiptum fyrir um það bil þúsundkall. Þegar moggaveskið barst í hús heyrðist "ég er farinn út að rukka" og svo var rúnturinn tekinn hús úr húsi. Sumir komu á nærbuxunum til dyra, sums staðar var skrýtin lykt og annars staðar var alltaf sagt "geturðu komið á morguhm?". Hvernig ætli móðursjúkum, ofsóknaróðum foreldrum nútímans þætti að senda börnin svona milli húsa? Hins vegar þekkti maður næstum hvern kjaft í hverfinu fyrir vikið og fjárhag hvers heimilis. Þessi þekking mín fer nú æ dvínandi.

|