<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, maí 03, 2007

Prófatörn

Í gær og fyrradag voru taugatrekkjandi tveir dagar hjá mér, því ég stóð þá upp á endann í krufningasalnum í Summerhall og prófaði litla nervösa nemendur. Ein lýsti því yfir þegar hún kom inn að hún væri búin að vera gubbandi vegna taugatitrings og bjóst ég því allt eins við því að hún ældi lifur og lungum ofan í nautsbrjóstkassann sem ég bað hana rólega að segja mér upp og ofan af. Það gerðist ekki en hins vegar fann ég hnútinn í mínum eigin maga herpast þéttar við hvert andvarp hennar og skjálftahrinu. Það mátti sem sagt vart greina hvor var stressaðri, prófdómari eða nemandi. Eftir því sem leið á daginn fór þetta nú að vera mér auðveldara og ég gerði mér lítið fyrir í gær og felldi tvo síðustu nemendurna. Þess má geta að fyrsti nemandinn fékk 10. Mér leið hins vegar afar illa fyrir það að fella þessi tvö, en þau vissu bara varla nokkurn hlut og rugluðu þar að auki því sem þau vissu. Stúlkan stóð og fitlaði við afskorinn nautslim og hafði varla neitt um hann að segja, gat ekki einu sinni komið út úr sér orðinu penis. Drengurinn ruglaði hins vegar saman kokhlustarpoka og ennis- og kinnholum. Ég var því afar fegin þegar þessum tortúr var lokið.

Nú er svo bara að standa sig í sínu eigin námi!

|