<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, janúar 21, 2007

Skotland enn á ný

Síðan ég lenti á Glasgowflugvelli á fimmtudaginn hef ég afrekað ýmislegt:

Tekið upp úr ferðatöskunni
Látið mér hundleiðast við kennslu í líffærafræði
Klárað eitt par af rósavettlingum
Byrjað á rósaleppapeysu
Farið snemma heim af djamminu sökum svefndrunga
Setið fund Íslendingafélagsins og byrjað þorrablótsundirbúning
Dreymt að ég væri að velja mér lag til þess að syngja í inntökuprófi hjá PopIdol.

Já, kennslutíminn á föstudaginn leið einstaklega hægt. Samt var viðfangsefnið tímgunarlíffæri kvendýra, eitthvað sem ég ætti að kunna á. En ekki vissi ég mikið um hunda og hvað þá svín. Vappaði því um salinn og forðaðist að ná augnsambandi við nokkurn mann fyrsta hálftímann. Var mér allri lokið þegar kortér var liðið af tímanum og ljóshærð telpusnift vindur sér upp að mér og lýsir því yfir á yfirstéttarensku að þetta kennslufyrirkomulag sé brandari, alveg hreint fáránlegt því þau hafi bara ekki nokkurn möguleika á að sjá skapaðan hlut. Mér duttu ýmsir harðneskjulegir hlutir í hug sem þó fengu aldrei að taka flugið því ég er svo dæmalaust kurteis. Til dæmis fýsti mig að vita hvort hún hefði búist við því að geta setið með hálfan hundsskrokk á öðru lærinu og kýrleg með öllu á hinu en beit í vörina á mér. Svo datt mér líka í hug að benda henni á öll borðin sem voru laus þar sem hún hefði getað sest og grúft sig yfir ferska æreggjastokka, nú svo var nú ekki nema kortér liðið af heilum tveimur klukkustundum sem hún hafði til yfirráða. Ekkert af þessu fékk hún að heyra. Hún hafði greinilega mætt með þetta viðhorf og ákveðið að viðra það við hvern sem heyra mætti. Bévítans vanþakklæti! Svo var hún líka farin löngu áður en tímanum lauk svo ekki var tímaskorti fyrir að fara hjá henni. Dekurdrós. Pfahhh!

Svo verð ég að minnast á auglýsingu sem ég sá í sjónvarpinu í gær. Þar er auglýst sorptímaritið "Take a break!" og kemur klárlega fram hver markhópur tímaritsins er. Feit matráðskona í skólamötuneyti er hvött til þess að taka sér smápásu á erfiðinu af fjórum körlum sem klæddir eru eins og Village People og kyrja "taaake a break" við laglínu YMCA. Svo eru tíundaðar þær greinar og fréttir sem koma fram í útgáfu vikunnar. Meðal annars "maðurinn sem fitaði konuna sína með pizzum og öðru góðgæti", "maðurinn sem eignaðist börn með konu sinni og stjúpdóttur í sömu vikunni", "ég fæddist með þrjú brjóst", krossgátur og svoleiðis fjör. Frábært.

Í fyrramálið er svo aftur kennsla hjá mér-seinni helmingur árgangsins og viðfangsefnið það sama og á föstudaginn. Kannski verð ég betur undirbúin og get því verið aðeins virkari í kennslunni. Kannski ekki, sjáum til. Þetta gerist ekki auðveldara, því á föstudaginn verð ég að hafa á takteinum alla strúktúra hrosslappar, þar á meðal sinar, sinaskeiðar, taugar, æðar og vöðva. Now that's going to be boring!

|