<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Bjartari dagar

Jæja, ég get nú ekki látið þessa neikvæðu færslu hér fyrir neðan standa þarna eins og hershöfðingja, þarf að bæta úr þessu! Það var nefnilega bara fínt að kenna á mánudaginn, sá hópur var miklu viðmótsþýðari og ég bara næstum naut mín við kennsluna.

Nú, svo var netboltaleikur gærkvöldsins hörkuspennandi og við mörðum eins stigs sigur. Annað en strákarnir okkar á laugardaginn sem skíttöpuðu og ég sem eyddi dýrmætum tíma í að hlusta á þetta á netinu! Strax á eftir leiknum þar sem ég sat svekkt yfir þessari tímaeyðslu hljómaði auglýsing fyrir TOTO tónleikana og kom hún mér strax í gott skap.

Ég hafði eiginlega aldrei skoðun á þessari hljómsveit fyrr en hún bjargaði lífi mínu á leiðinlegasta balli sem ég hef farið á. Nú á ég alltaf einstaklega auðvelt með að skemmta mér með því að dansa en á þessu balli voru mér allar bjargir bannaðar vegna þess að ég þekkti ekki eitt einasta lag sem spilað var og auk þess voru þau öll leiðinleg! Þetta var á fyrsta gala-ballinu mínu í dýralæknaskólanum, sem haldið var í nóvember, áður en ég var almennilega farin að kynnast fólki og áður en ég var búin að kynna mér danska 80's tónlist. Ég átti þess vegna ekki séns. Lét mér hundleiðast í heimasaumaða pönkkjólnum þangað til "Hold the line" með TOTO hljómaði...ég hafði að minnsta kosti heyrt það áður! Og þá færðist fjör í leikinn. Ég slammaði og headbangaði eins og ég ætti lífið að leysa og vakti furðu allra í kringum mig. En mér var sama, ég var frjáááls! Nú, síðan þetta var átti ég mörg rosalega skemmtileg gala-böll og kann nú að nefna allar danskar 80's hljómsveitir og dansa við þær. En TOTO á alltaf stað í hjarta mínu fyrir að hafa rétt mér hjálparhönd í mikilli neyð.

Hey, og svo var ég að uppgötva að Keane lagið er ekki um spænska landkönnuði og nýlenduherra (conquistador) heldur krystalskúlu (Crystal Ball).

Og strákarnir okkar unnu Frakkana.

Þegar á heildina er litið er því ekki ástæða til þess að vera með neina neikvæðni!

|