<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 07, 2006

Fimmtudagur til frama

Í gær sat ég og tölfræðinördaðist þar til um kvöldmatarleytið með Darren sem forritaði hægri vinstri og skapaði misfalleg gröf úr niðurstöðunum mínum. Fór þá heim og borðaði kjúlla yfir Love Actually sem var í sjónvarpinu. Táraðist yfir öllu fólkinu sem var að hitta ástvini sína á flugvellinum, þetta á nú fyrir mér að liggja núna á næstunni og hlakka ég alveg gífurlega til. Hins vegar var ég alveg jafn pirruð og þegar ég sá myndina fyrst á kvensunni sem lét bróður sinn eyðileggja fyrir sér ástarlífið.

Í morgun ætlaði ég svo að reyna að hitta á rólegan tíma í bænum og "do the Christmas shopping", en ég er búin að fá spurninguna "have you done your Christmas shopping?" þrisvar á dag í um það bil viku. Þó er ekkert hugtak í mínum orðaforða sem ég myndi kalla jólainnkaupIN með ákveðnum greini. Það er eins og allir eigi að gera þessi innkaup sama hvað. Ég hef bara haft um svo margt annað að hugsa undanfarið að ég hef bara ekki hugsað út í gjafir og slíkt.

Nú, ég lagði af stað í leiðangur en það er víst ekkert sem heitir rólegur tími í bænum í desember. Ég lenti strax í umferðarteppu á South Clerk St, sat lengi í röð sem orsakaðist af framkvæmdum á South Bridge. Það var svo ljómandi skemmtileg tónlist í útvarpinu og svo var svo mikið af áhugaverðu fólki á ferli að þetta var bara ekkert pirrandi. Tvær gamlar konur studdust hvor við aðra, báðar höfðu líklega lækkað um hálfan metra vegna beinþynningar og þess vegna voru þær í allt of síðum kápum. Báðar voru með spóaleggi í allt of grófgerðum svörtum klossum. Þær hefðu þurft að komast í meikóverþátt fyrir jólin.

Á Hunter's Square voru rónar og ræflar sem léku sér að því að bæta á böl ökumanna með því að kasta skó út á götu og taka sér svo laaaangan tíma í að ná í hann, svo öll umferð stóð föst á meðan. Þegar ég loksins komst niður í bæ fór ég beint í bankann með ávísun sem ég fékk frá lestafyrirtækinu vegna ruglsins í sumar (betra seint en aldrei) upp á 69 pund. Gjaldkerinn lét mig hafa kvittun upp á að 699 pund hefðu verið lögð inn á reikninginn. Ég leiðrétti hana sökum góðmennsku minnar-þetta hefði verið klassajólabónus! Svo fór ég beint í Harvey Nichols að leita að bílskúrsilmvatninu frá Comme des Garcons og einhverju Escentric ilmvatni sem ég las um um daginn. Fann annað en ekki hitt. Kom ilmandi eins og brenndur sedrusviður þaðan út og get nú ekki gert upp hug minn.

Annars einkenndist morgunninn af mannmergð, sem kannski gerir mér gott þar sem ég er alltaf ein með sjálfri mér, en mikið rosalega lifir sumt fólk hratt! Í Zöru niðri á Princes Street stóð bissnesskona og mátaði skó úti á miðju gólfi meðan hún gerði díl í símann. Á Starbuck's sat teinótt par á fundi með glósubækur og lófatölvur og ræddu fjármál og samninga undir dynjandi rokkabillíútgáfu af "Rúdolf með rauða nefið". Úff. Ég ákvað að nú væri komið nóg og hélt heim á leið. Kom við í ASDA og stóð sjálfa mig að því að flauta með í flautsólóinu í "White Christmas" með Bing Crosby í brauðdeildinni.

Jæja, nú sný ég mér aftur að tölfræðinni.

|