<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Ástandsrapport

Í dag er engu svalara í veðri en skapið þó aðeins betra. Náði sambandi við umheiminn á skype, hitti þar fyrir Nicky vinkonu mína sem er alveg rosalega til í að hittast niðri í bæ um hádegisbil á morgun. Þá ætlum við að ræða heimsins gagn og nauðsynjar og reyna að komast til botns í þessum stöðukvíða/hagkvíða sem unga fólkið nú til dags glímir við.

Tilraunin sem ég setti upp í gær virðist hafa misheppnast en mér er alveg nákvæmlega sama. Ætli ég reyni ekki aftur, það þýðir víst ekki að ganga frá hálfunnu verki. Já, ég er komin með upp í háls af þessari blessuðu stofnun með alla hennar hvítu sloppa, ástar- og átakasögur.

Í kvöld ætla ég að sósíalisera á netboltavellinum, hörkuleikur í vændum, fyrsta skipti sem ég spila í blönduðu liði. Á morgun er svo spáð 33 stiga hita og ég ætla að vera heima við að undirbúa fyrirlesturinn sem ég á að halda í Hollandi í byrjun ágúst. Fyrir utan að skreppa niður í bæ að hitta Nicky auðvitað!

|