<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 28, 2006

OAPs

Gamlar konur virðast stundum taka sig saman í hópum til þess að fara í búðir. Þetta gerist einkum miðmorguns eða um nónbil. Þá virðist tíminn líða hægar en venjulega, allt gerist hægar, það er eins og maður ferðist í seigfljótandi vökva. Í gær, einmitt um nónbil, var ég í Sainsbury's að ná mér í vistir og ég þurfti að hafa mig alla við að verða ekki pirruð á þessum gömlu viðskiptavinum sem alls staðar þurftu að leggja kerrunum sínum, aka fyrirvaralaust út á gang lítandi hvorki til hægri né vinstri og bara almennt að vera fyrir mér í slow motion.

Þó létti mér fljótlega í skapi þegar ég kom auga á heiðgulan poll á miðju gólfi-þetta var eins og atriði úr Little Britain! Ég leit í kringum mig í þeirri von að sjá David Walliams í náttkjól og gollu en hann var hvergi að sjá. Sá líka fljótt að þetta var einhver lögur sem lekið hafði úr ostakælinum. Kannski mysa...

Ég gat því haldið áfram í góðu skapi og lét ekki kellurnar á mig fá. Skoðaði hins vegar af áhuga hvað þær voru með í körfunum. Flestar virtust lifa á kexi, jógúrt og kattamat. Ein hafði þó sett í körfuna samúðarkort með áletruninni "To the passing of a much loved Dad". Frumleg!

|