<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Fast land undir fótum

Úú....rosalega er búið að vera mikið að gera hjá mér, ég er farin að dragast aftur úr í frásögnum mínum. Tek ég nú upp þráðinn þar sem honum var sleppt:

Þegar ég kom heim skólaus og stöðumælasek datt mér í hug að langt, heitt bað væri svarið við mínum bænum. Var þá ekki ólukkans boilerinn dottinn út aftur og ég varð að láta mér nægja kalda sturtu. Rann mér þó ekki reiðin við hana.

Brúðkaupsmorgunn rann upp bjartur og fagur og ég sá fram á berfætt brúðkaup. Átti tíma í klippingu klukkan 9.30 og á leiðinni þangað gekk ég fram á útsöluskómarkað sem einmitt var opinn svona snemma. Þar rakst ég auðvitað á ferskju- og rjómalita skó sem voru settir úr 65 pundum niður í 7 og hálft pund! Þeir voru alveg fullkomnir og ég var hæstánægð með minn hlut.

Brúðkaupið var frábært, athöfnin fór fram í garðinum og svo var borðað og dansað til 4 í stóru tjaldi. Ég dansaði meira að segja í fjóra tíma á háhælunum og skipti svo í flata. Langflestir karlmannanna voru í kiltum, alveg stórglæsilegir og það var fyndið að dansa við þá þegar þeir voru orðnir drukknir því þá sveifluðu þeir sporraninum (loð- og leðurpyngjunni) framan á sér eins og algjörir perrar. Nokkrar eftirlegukindur héldu svo uppi fjörinu til klukkan 8 næsta morgun, meðal annars með því að rústa brúðkaupskökunni með einu handtaki.

hmmm...hvað hefur svo annað gerst...já, ég fór í grillveislu hjá vinkonu minni og hitti þar fullt af skemmtilegu og sætu fólki, aldrei of seint að eignast fleiri vini.

Svo fór ég á mína fyrstu ráðstefnu, flutti erindi og allt. Ég er annars ekki frá því að ferðalög reynist mér mun erfiðari nú en þau gerðu fyrir nokkrum árum. Áður fyrr var ég eins og flugfreyja, þaulvön og allt gekk smurt en nú er ég farin að gera fáránlegustu axarsköft, missa af hinu og þessu, gleyma hlutum hægri vinstri og láta græta mig á flugvöllum eða lestarstöðvum. Hefur þetta gert það að verkum að ég nýt þess bara hreint ekki lengur að ferðast og er það mjög miður.

Lenti í því að missa af lestinni til Leeds með farangrinum mínum í. Hvernig fer maður nú að því? Tjah, þegar stórt er spurt...mætti svo algjöru skilningsleysi karlrembustarfsmanns í miðasölunni sem vissi upp á sig sök en kom henni skilyrðislaust yfir á mig því ég er nú bara heimsk kvenvera. En bara róleg, ég er búin að skrifa kvörtunarbréf og ætla mér að fá 70 pundin sem ég missti upp úr þessu krafsi til baka.

Svo brá ég mér auðvitað til Köben, enn og aftur í viðbjóðshita, þar sem við foreldrar mínir, og ekki síst pabbi, gerðum skurk í íbúðinni, allt tekið í gegn á 10 dögum-geri aðrir betur!

Nú er ég komin til baka í svalann og ferska loftið, úkrúttið er að gera út af við garðinn minn og dúfuskammirnar hafa étið allt brokkolíið mitt. Auk þess tekur nú við undirbúningur fyrir næstu ráðstefnu og leiðbeinandastöðu í líffærafræði og frjósemisfræði-það verður langt í næstu færslu!

|