<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Hugvísindafólk, lítið undan núna!

Jæja félagar! Það er aldeilis búin að vera lægð yfir mínum skrifum undanfarið. Helgast hún aðallega af leti og viðburðaskorti því viljinn er vissulega fyrir hendi. Letin hafði einnig áhrif á lærdóminn því síðustu viku nennti ég bara ómögulega að mæta á Queens Medical Research Institute-aðallega því Simon leiðbeinandinn minn var farinn að pirra mig alveg rosalega. Það var kannski eins gott að ég hélt mig fjarri því Rose fékk víst enn eitt fýlukastið og eitraði svoleiðis út frá sér að fólk var farið að grenja undan henni. Fýlan átti víst uppruna sinn í því að henni var ekki boðið (persónulega, heldur var henni boðið í tölvupósti eins og öllum hinum) í ungdómspartí hér í bæ á fimmtudaginn sem ein af ungu vísindamönnunum hér stóð fyrir. Þar áttu allir að mæta með mp3 tækin sín og hver og einn fékk að spila 3 lög úr safninu sínu. Sem sagt, Rose hefði líklega verið utanveltu hvort eð er.

Svo nú veit ég við hverju er að búast eftir páska þegar við Rose förum að þróa seinustu verklýsinguna í verkefninu mínu. Best að tipla í kringum hana.

Annars er auðvitað alltaf líf og fjör í heimi vísindanna. Manni hættir þó við því að verða svolítið "indspist", eða "fagnørd", og því tók ég þá lærðu ákvörðun í gær að fara ekki á Edinburgh Science Festival sem verður haldin um páskana og er aðallega fyrir börn (með alls konar tilraunum sem má prófa og svona!) þó mig langi svo sárt! Um daginn eignaðist ég hins vegar loksins aðra þáttaröð Look Around You, þvílíkur unaðsunaður.

Já annars, það er eitt sem ég hef tekið eftir: Rannsóknahópurinn okkar deilir rannsóknastofu með hópnum hans Ian Wilmut, "föður" ærinnar Dollyar og þau halda auðvitað að þau séu eitthvað og strunsa um eins og roggnir hanar. Ég sé að eina bókin sem er á þeirra hillu er merkisritið "The Genetics of Sheep" og hef því ályktað að þetta klónunardæmi sé ekki eins flókið og fólk vill vera láta.

Ég vona heitt og innilega að næsta færsla verði ekki vísindafærsla. Þetta er líklega nóg í bili!

|