<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 16, 2006

Íþróttir, ó íþróttir!

Hvað kom eiginlega fyrir liðið sem skipuleggur opnunarhátíðir íþróttaviðburða? Ég sá glefsur úr opnun samveldisleikanna í Melbourne á BBC og skildi ekki baun í því hvað átti að vera að gerast. Fólk flaug yfir leikvanginum hægri vinstri og skaut flugeldum úr bakpokum. Það voru fáránlegar persónur út um allt með kjánalegan svip og svo kom stór hvít önd rúllandi inn á stórum hjólum. Ég hélt alls ekki þræði og er helst á því að að þessu hafi staðið skari vonlausra danshöfunda, leikhúsgúrúa og búningahönnuða sem hafa ekkert haft að gera síðan á sjöunda áratugnum og hafa því verið orðnir uppfullir af brjálæðislegum hugmyndum sem þeir bara urðu að koma í framkvæmd. Með almannafé í vasanum og forna frægð að vopni hafa þeir svo setið á kaffihúsi og "brainstormað", ekkert vinsað úr stormlistanum og sett allan hrærigrautinn upp. Þetta minnir á söguþráðinn í "The Producers" hans Mel Brooks.

|