<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 20, 2006

Örþreyttur sunnudagur

Ég hef sjaldan verið eins þreytt og klukkan 19:20 í gærkvöldi eftir langan dag á skíðum í Glencoe. Við þurftum að leggja af stað klukkan 6 í gærmorgun, skíðuðum í sex tíma og þurftum svo að sitja í bíl í 3 tíma á heimleiðinni með stirða vöðva. Það var auðvitað frábært að komast aðeins á skíði en um tíma var ég minnt á hvers vegna ég fékk nóg af því að skíða á Íslandi á sínum tíma-bölvað baslið! Það var svartaþoka á toppnum og samferðafólk mitt vildi endilega fara ótroðnar brekkur. Ég er ekkert fyrir það að skíða í djúpum snjó, get látið mig hafa það ef ég sé hvert ég er að fara en í gær var ég orðin svo öskuill að mér lá við að grenja. Snjórinn var mjög þungur og hver snúningur þurfti mikil átök þannig að lærin á mér voru farin að skjálfa af þreytu í miðri brekku. Svo fann ég skemmtilega brekku eftir hádegismat og undi mér vel þar til klukkan fjögur þegar brekkurnar lokuðu. Það var hins vegar frábært útsýni yfir dalinn frá fjöllunum (þegar þokunni létti), margir snævi þaktir tindar upp úr allsberum dal sem var þakinn litlum vötnum. Var því miður ekki með myndavélina en þarna hefðu getað fengist ansi góðar myndir.

Þegar við loksins skriðum í hús um kvöldmatarleytið gat ég eiginlega ekkert annað gert en setið og starað út í loftið og það var ótrúlega erfitt að staulast framúr í morgun.

|