<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 27, 2005

Sýklahræðsla og fleira

Hér á bæ hefur verið mikið annríki...andlegt frekar en efnislegt. En nú er ég komin með fimm merar í rannsóknarhópinn minn, vantar bara eina sem er að ljúka öðrum "prior arrangements". Þessar merar hafa verið hér á dýralæknaskólanum mánuðum saman en engum datt í hug að nota þær í tilraunina mína fyrr en nú. Jibbíjei segi ég bara og byrja strax um helgina að skanna þær.

Ekki seinna vænna að byrja á þessu þar sem ég skrepp í forlænget weekend til dejlige Danmark eftir sex daga.

Af landsmálum hér er það helst að frétta að það er allt að verða vitlaust út af svokölluðum "yobism" sem er vaxandi andfélagsleg hegðun meðal breskra borgara. Ekki bara unglinga, heldur fólks á öllum aldri sem hefur ekkert betra að gera en að angra meðborgarana og ber enga virðingu hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum. Fjölmiðlar gera líka sitt til að blása þetta upp, segja frá því hvernig fólk gerir at í slökkviliðinu, kallar það að brennandi yfirgefnu húsi en hefur fjarlægt gólffjalir svo slökkviliðsmennirnir hrynja í gegn. Þetta er auðvitað ekki eðlileg hegðun en mig grunar nú að fjölmiðlar velji feitustu bitana, drekki þeim í sósu og mati almenning á herlegheitunum.

Þetta sást svart á hvítu þegar var sagt frá ungum hermanni sem lést af því að "killer bug" eða "superbug" komst í rispu á fæti og leiddi hann til dauða. Þarna er um að ræða bakteríu sem framleiðir eitur sem svo kemst inn í blóðrásina. Hins vegar var fréttaflutningur slíkur að það var talað um stökkbreyttan drápsvírus og allir ættu að vera á verði. Vísindamenn reyndu hvað þeir gátu að leiðrétta, þetta væri baktería, ekki vírus og allir hefðu þessa bakteríu í líkamanum. Fréttamaðurinn lét ekki segjast og hamraði á því hvað þetta væri nú hræðilegt.

Bretar eru nefnilega svo hræddir við "the superbug" MRSA (methicillin resistant Staph. aureus) sem er mjög algeng spítalasýking og fólk sem sýkist á sjúkrahúsi kemur hálfu verra út aftur, gjarnan lamað öðru eða báðum megin o.s.frv. En Staph. aureus er eðlilegur "íbúi" líkamans svo hún veldur ekki usla nema maður sé veikur fyrir eða ef hún er ónæm fyrir fúkkalyfjum eins og MRSA, en eiturbakterían sem drap hermanninn er gjarnan næm fyrir fúkkalyfjum. Og auðvitað á maður að fara til læknis ef maður fær blóðeitrun, sem er mjög greinilegt því sogæðakerfið verður svo sjálflýsandi rautt að maður sér það í gegnum húðina. Ég tala af reynslu, minnug rauðsýkinnar góðu sem ég náði mér í í fiðurfénaðarprófinu fyrir jólin 2002. Já börnin góð, þetta var smá gjugg inn í undraveröld sýklanna!

|