<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 16, 2005

Mér sýnist á fréttum mbl.is í dag að fólk hafi víða verið ofurölvi og í slagsmálahug um hvítasunnuhelgina. Kannski hafa Íslendingar ekkert gott af helgidögum og fríunum í kringum þá, þetta endar gjarnan með ósköpum. Hér í Edinborg hefur ekkert verið minnst á hvítasunnu og almennur vinnudagur í dag. Enda haga sér allir prýðilega og ekki veit ég af hafnaboltakylfubarsmíðum eða hnífstungum enn sem komið er.

Ég var í garðinum mínum í gær og hleypti hugsunum á skeið. Lullaði í huganum um lífið og tilveruna eins og mér hættir til þegar ég reyti arfa og drep snigla. Hefði ég verið uppi á miðöldum hefði ég líklega búið litlu búi og sinnt dýralækningum eins og hægt var á þeim tíma út frá minni sannfæringu og eðlisávísun, hefði ekkert lært á bók. Þegar ég var svona tólf ára greindi ég varptregðu í Evu, páfagauknum mínum og áætlaði hvenær tíkin hans Grímsa á Dysjum myndi gjóta. Þetta gerði ég nú bara svona út frá tilfinningunni. Ég er hrædd um að nú sé ég orðin of lærð í þessu fagi. Ekki það að ég kunni og viti svona rosalega mikið, heldur er ég hætt að stóla á eðlisávísunina, vil alltaf fletta upp í bók, jafnvel til að glöggva mig á hvað sé eðlilegt. Þetta þykir mér miður. Ég vona bara að með aukinni reynslu leyfi ég eðlisávísuninni aftur að njóta sín.

|