<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 17, 2005

Ljúfsár fortíðarþrá?

Hvers vegna voru sumir siðir og venjur fullorðna fólksins óþolandi þegar maður var barn en verða allt í einu eftirsóknarverðir þegar maður verður stór? Til dæmis sá siður að láta renna á milli súrmjólkurferna til þess að nýta hvern dreitil. Þetta gerði ég af skyldurækni sem barn og þoldi ekki þegar þær tóku upp á því að detta og súrmjólkursletturnar gengu upp um alla veggi. Núna er mamma hætt þessu en ég stóð mig að þessu með sápudunka í gær. Sápan var auðvitað komin út um allt. Geri ég þetta meðan ég er ung og hætti því svo? Svona svipað og að halda aftur með kók- og tækjakaup fram eftir öllum aldri þangað til ég dett í neysluflipp fimmtug, afkomendum mínum til hneykslunar? Já, kynslóðirnar eru kannski ekki svo ólíkar eftir allt saman, bara "forskudt over tid".

Það var hringt í mig frá Indlandi í gær. Nánar tiltekið "þjónustu"veri sem flutt hefur verið til Indlands til að spara launakostnað. Fyrir vikið skildi ég varla orð af því sem konan sagði og hún eflaust ekki mig. Hún hringdi fyrir hönd fyrirtækisins Telediscount sem ég hef nú í eitt og hálft ár notað til þess að hringja ódýrt milli landa. Þessi lúxus hefur hingað til verið mér að kostnaðarlausu en það hlaut að koma að því að þeir leituðu mig uppi. Erindið var að bjóða mér að hringja ennþá ódýrara í gegnum símanúmer sem þessi kona gæti látið mig fá í skiptum fyrir heimilisfang mitt og ýmsar persónuupplýsingar. Þegar ég þvertók fyrir að láta þessar upplýsingar uppi sagði hún bara: "You want this number, yes!" og hélt áfram að biðja mig um upplýsingarnar. Það var ekki fyrr en ég skýrt og skorinort sagði "No, I do not want this" með mínum besta kalkúttahreim að hún skildi og lagði á. Nú veit ég ekki hvort ég hef misst réttinn til að hringja ódýrt milli landa, en það verður bara að hafa það!

|