<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 14, 2005

Kaupmennskan er ekkert grín

Ég er alltaf að meiða mig, það dylst engum. Um daginn var ég að baka og náði að setja vísifingur utan í brennheita ofngrind. Fann hvernig húðin dróst saman og heyrði bullsjóða í undirhúðinni. Ég hef fylgst af áhuga með þróun áverkans, hef meira að segja staðist freistinguna að kroppa í þetta, svo batinn hefur verið ágætur. Svo þegar aðeins lítið, flatt, bláleitt ör var eftir tókst mér auðvitað að skera mig djúpum skurði þvert ofan í örið! Svo nú er á fingrinum "Svona erum við"-sár, það er svona rautt og þrútið og meira að segja sláttur í því, ég sé það blikka, rautt og hvítt á víxl. Já, mikil eru undur eigin líkama!

Á mínum yngri árum eyddi ég mörgum síðdegistúrum á Ndr. Frihavnsgade, Østerbrogade eða Nørrebrogade. Ef ég átti leið í grænmetismarkaðinn, blómabúðina eða kjallaraskóbúðina þótti mér yfirleitt huggulegt ef fólk gaf sér tíma til að spjalla aðeins við mann og láta manni líða eins og gesti frekar en að þegja með dollaramerki í augunum. Það kom annað hljóð í minn strokk þegar ég lenti í því í gær að þurfa að standa á spjalli við afgreiðslustúlku í stórmarkaði.

Hún byrjaði á því að spjalla um veðrið meðan hún blíbbaði vörurnar eina af annarri. Ég bablaði eitthvað um snjókomu og sólskin og fannst það ekkert tiltökumál. Svo spurði hún hvaðan ég væri...ég hikaði aðeins (ætti ég að ljúga einhverju....) en sagði svo "Iceland". Hélt kannski að þetta væri bara forvitni sem hún varð að fá svalað og svo myndi hún þegja. En...hún hélt áfram að unga út úr sér spurningum um það hvað ég væri að gera í Edinborg, hvort ég væri í háskólanum, hvernig mér líkaði...hún kom mér svo á óvart að ég svaraði þessu öllu samviskusamlega í stað þess að ljúga því að ég væri hárgreiðsludama frá Póllandi, hvort hana vantaði ekki litun og permanent, hún gæti komið heim til mín í Craigmillar og ég gæti reddað þessu. Svo gætum við farið út á lífið, ég væri nefnilega svo ósköp einmana eftir að maðurinn lenti í steininum. Það hefði þaggað niður í henni...en ég var ekki nógu mikil manneskja.

Hún hefur eflaust fengið þessi fyrirmæli á starfsmannafundinum þann morguninn..."og sýnið nú viðskiptavinunum hvað við erum notaleg verslun, sýnið áhuga á lífi þeirra, svona eins og þeir væru á spjalli við kaupmanninn á horninu sem er búinn að þekkja þá síðan þeir voru í vöggu". Starfsmannastjórinn þurfti að nota hljóðkerfi til að koma skilaboðunum áfram til þeirra 300 starfsmanna sem voru á vakt þann morguninn.

Þetta myndu Danir kalla surt opstød, fy for pokker!

|