<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 22, 2003

Jólin virðast vera tími brjálæðis og æsings í Bretlandi. Það eru fimm vikur til jóla og fólk er löngu byrjað að hamast í búðum. Búðirnar eru opnar alla daga og suma jafnvel til miðnættis, en ekkert virðist þessi langi opnunartími slá á fólksfjöldann niðri í bæ. Svo hef ég náttúrulega oftar en einu sinni séð hópa af ringluðum Íslendingum í verslunarferð. Mitt ráð er: Verslið bara heima, það er ekkert ódýrara hérna.

Fór í matarbúð Marks og Spencer á Princes Street á leiðinni heim af rannsóknastofunni og ég varð fyrir miklu menningarsjokki. Í fyrsta lagi er meirihluti þessarar risastóru búðar lagður undir tilbúna rétti og örbylgjumat alls konar og þar sem ég var ekki að leita að örbylgjumat varð ég svolítið ringluð. Í öðru lagi var búðin full af gömlum konum sem voru stórhættulegar með innkaupakerrurnar. Óku bara beint af augum og stikluðu á brothættum beinþynningarleggjum með brjálæðisglampa í augum. Fáar höfðu nokkuð í kerrunni, það var bara eins og þær væru þarna gagngert til að aka um á ólöglegum hraða. Mér datt í hug að þetta væri einhver jólatradisjón sem þær mættu bara ekki fyrir nokkra muni sleppa og að lokinni ökuferð yrði kerrunni skilað tómri og þær röltu svo á kaffihúsómynd í næsta stórmarkaði og hvíldu lúin bein. Ef ég gef mér tíma í næstu viku ætti ég kannski að elta eina svona og sjá hvernig ökuferðinni lýkur.

Þegar ég kom út úr Marks og Spencer nokkrum eplum og pestói ríkari tók ég eftir öðrum þjóðfélagshópi sem virtist vera að draga sig saman á götuhornum Edinborgar. Það voru litlir asískir karlar í jakkafötum sem stóðu í hóp undir húsveggjum og reyktu saman eina sígarettu. Og ekki nóg með þennan eina hóp heldur sá ég tvo aðra hópa af sama meiði á göngu minni eftir Princes Street. Á enn erfiðara með að sjá í gegnum þetta trend. Og talandi um trend og Asíubúa: Sá asíska stelpu um daginn með grímu fyrir andlitinu. Vá, þeir ætla ekki að gefast upp! HABL er löngu úrelt tíska og var aldrei tíska. Svona fólk, hnuss!

Annars hef ég sökkt mér í japanskar bókmenntir undanfarið og líkað bara ágætlega. Búin með Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og er í endalausum lestri japanskra vísindagreina. Tek eftir því að japanskir vísindamenn gefa ekki út grein þrír-fjórir saman...nei, hér duga ekkert nema 15 nöfn undir hverja grein. Kannski af því að sum eru svo stutt. Eða kannski af því að þeir eru svo litlir, hver veit.

|