<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Jæja, atburðir helgarinnar. Fór með hópi fólks á Nóa Albínóa, hún var bara allsendis frábær. Rosalega hefur verið gaman að sjá um leikmyndina í þessari kvikmynd. Veggfóðrin voru undursamleg, myndirnar á veggjunum, dívanarnir og dökku tré húsgögnin. Þröstur Leó, þessi myndarmaður var ógeðslegur sem fyllibyttuleigubílstjóraföðurómynd Nóa og híbýli hans voru í Texas-ranch stíl enda maðurinn forfallinn Elvis aðdáandi.

Eftir myndina fór hópurinn á bar í nágrenninu og við sátum þar og töluðum þar til fólk fór að svengja um 12 leytið (enginn hafði borðað kvöldmat fyrir myndina) svo við fundum þennan líka fína pizzastað á Lothian Rd sem virðist vera opinn allar nætur og það með fullri þjónustu. Við Sólveig, sem höfðum ætlað að fara út að dansa, urðum svo værukærar við þetta miðnæturát að við löbbuðum okkur bara heim.

Á laugardaginn fórum við um hádegisbilið að hitta eina úr bíóhópnum á kaffihúsi í Stockbridge. Hún á tvær dætur sem taka allan tómstundapakkann á laugardögum; tónlistarskóla, ballett og djassballett, og hún er vön að sitja á kaffihúsinu og bíða eftir þeim. Við sátum lengi og töluðum en svo fórum við Sólveig heim að lesa og slappa af.

Um kvöldið fengu dansskórnir uppreisn æru, dönsuðum til þrjú meðal ófríðra Skota, Sólveigu til mikils ama. Við fórum í partí með Carinu sem leigir með Sólveigu. Partíið var á stúdentagörðum rétt hjá dýralæknaskólanum, í lítilli þriggja manna íbúð. Gestgjafarnir höfðu sent út fjöldatölvupóst og sagt viðtakendum að bjóða vinum sínum með. Þannig að það var ekki skrýtið að maður var eins og síld í tunnu þarna inni. Gestum stóð til boða að standa í ganginum eða í eldhúsinu, það var lokað inn í herbergin. Gestgjafarnir voru steinhissa á fjöldanum en við ákváðum að halda bara heim og taka með okkur nokkra Svíavini Carinu. Við gengum þennan spöl og ég var í djúpum samræðum við eina stelpuna þegar mér tókst að ganga á ljósastaur. Svo nú lít ég út eins og klingoni, með bólginn kamb á miðju enninu. En ég slapp við að fá hausverk í ofanálag svo ég er sátt. Og svo er kamburinn líka ekki blár (ennþá) svo hann er ekkert svo áberandi.

Komst að því að Tom, meðleigjandi Sólveigar, lyktar eins og blautur hundur. Það var einhver undarleg lykt í íbúðinni þegar ég kom á föstudaginn og hún sagði lyktina vera af honum. Hann hefði eiginlega alltaf lyktað svona en nú væri hann farinn að taka upp á því að hafa herbergisdyrnar sínar opnar svo lyktin berst um allan gang. Það er ekki von að það sé erfitt að fá manninn til að taka til í eldhúsinu þegar hann lyktar svona! Mikið er ég nú bara ánægð með mitt litla hreina herbergi í sveitinni-og ennþá ánægðari með íbúðina mína tilvonandi.

|