<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Ég hef lengi verið á móti Evrópusambandinu. Í upphafi hafði ég ekki eina ástæðu fyrir því, var mikið til mín meðfædda íhaldssemi sem felst í því að engu megi breyta. Hef nú búið í Evrópusambandslandi í sex ár og áætla að búa í öðru slíku næstu þrjú árin. Þess vegna hef ég fengið svolitla innsýn í starfsemi ESB.

Undanfarnar vikur hef ég líka styrkst í hatri mínu á skrifræðinu, sem blómstrar hér í Bretlandi eins og eplatré í Eden. Skrifræðið er einmitt með stærstu ókostum sambandsins. Ég veit að skrifræðis hlýtur í einhverjum mæli að vera þörf í skipulagi svona fjölþjóða apparats en það er óþarfi að láta það ráða öllu og gera allt svona ógeðslega erfitt. Í dag hef ég tvö dæmi um ókosti Evrópusambandsins:

1. Skotar eru stoltir af sögu sinni og arfleifð og ef skoskur karlmaður ætlar að flíka karlmennsku sinni svo um munar dregur hann hnésokka á leggi sér og íklæðist pilsi. Þetta er einstaklega karlmannlegur búningur, sem í gamla daga var einkum notaður þegar sýna átti mátt sinn og megin, til dæmis í bardögum og slagsmálum. Hvert klan átti sitt tartan og gátu karlarnir því sýnt ætt sinni sóma svo ekki yrði um villst hvaðan hetjurnar voru sprottnar. Skraddarar þeir sem framleiða skotapils heita Kiltmakers og er það virt starfsgrein og mikils metin.

Evrópusambandið rekur tölfræðistofnunina Eurostat sem á að búa til skemmtileg línurit úr öllu sem gerist í ESB. Þar á meðal hvað selst af skotapilsum. Kiltmakers voru beðnir að gefa upp fjölda seldra skotapilsa og skrá þau undir "Women's clothing". Karlarnir urðu auðvitað óðir og neituðu að lítillækka þjóðarstoltið með þessum ranga titli. Svo er nú komið að Eurostat hótar háum sektum verði ekki farið eftir þessari tilskipun.

2. Hitt dæmið er ekki eins dramatískt: Hugmyndin er sú að nú megi jógúrt ekki heita jógúrt lengur heldur eigi að standa á dollunni nákvæmlega það sem er í henni. Sem sagt "pasteurised heat-treated dairy product with microbial additives" eða eitthvað í þá áttina.

Sem sagt: ESB gerir hlutina erfiðari og það sem verra er, leiðinlega og tilbreytingarlausa.

|